132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Flutningur verkefna Þjóðskrár.

657. mál
[18:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Stjórnvöld samþykktu árið 1994 eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta:

Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.

Byggðaáætlanir síðustu ára hafa geymt þessi góðu áform en á henni hafa litlar sem engar efndir orðið. Í þeirri byggðaáætlun sem nú er verið að vinna var hreinlega ekki gert ráð fyrir flutningi opinberra starfa til landsbyggðarinnar en því hyggst nú hv. iðnaðarnefnd reyna að breyta. Ekki að það skipti máli í sjálfu sér þar sem ekki hefur verið unnið eftir henni fram til þessa.

Í mínum huga er atvinnuuppbygging á landsbyggðinni forsenda byggðar utan höfuðborgarsvæðisins. Því miður hefur verið svo undanfarin ár að störfum hefur fækkað á landsbyggðinni og áhrifa þess gætir víða í smærri byggðarlögum. Eins og fram kom í svari hæstv. fjármálaráðherra hér á dögunum við fyrirspurn hv. þingmanns Sigurjóns Þórðarsonar hafa um 3.000 ný störf orðið til hjá hinu opinbera en öll á höfuðborgarsvæðinu. Það getur skipt sköpum fyrir landsbyggðina að stjórnvöld hafi skilning á þörfum hennar og stóriðja smærri byggðarlaga geti verið fólgin í tveimur til tíu störfum frá hinu opinbera. Hvert starf skiptir máli.

Frú forseti. Vissulega ber að þakka fyrir þau störf sem nýlega hafa verið flutt á vegum dóms- og félagsmálaráðuneytisins, þ.e. innheimtumiðstöð sekta til Blönduóss og Fæðingarorlofssjóðs til Hvammstanga og Skagastrandar. Þetta er þeirra stóriðja.

Áhugi fólks er mikill og margfeldisáhrif oft töluverð í litlum samfélögum. Þar er líka mun minni starfsmannavelta en hér á höfuðborgarsvæðinu að mínu viti því fólk vill gjarnan búa í sinni heimabyggð en hrökklast jafnvel í burtu þar sem störfin hafa verið að tínast smátt og smátt í burtu.

Hjá sýslumannsembættum fer fram margs konar afgreiðsla og skráning, svo sem firmaskráning, afgreiðsla vegabréfa, ökuskírteina, útgáfa ýmissa leyfa og svo mætti lengi telja. Ég tel að það verksvið sem Þjóðskrá hefur með höndum falli mjög vel að þeim störfum sem starfsmenn sýslumanna á landsbyggðinni sinna nú. Ég tel að þetta séu einmitt störf sem kjörið er að flytja út á land og raunar óþarfi að flytja þau fyrst til dómsmálaráðuneytisins og síðan eitthvert annað eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi um daginn.

Því spyr ég: Telur ráðherra að verkefni Þjóðskrár, sem samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 54 frá 1962 á að flytja til dómsmálaráðuneytisins, geti að einhverju eða öllu leyti flust til sýslumannsembættanna í Ólafsfirði og á Siglufirði?