132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Flutningur verkefna Þjóðskrár.

657. mál
[18:53]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Dómsmálaráðuneytið hefur markað þá stefnu að styrkja sýslumannsembættin með að færa til þeirra ýmis verkefni. Þannig verður ritstjórn Lögbirtingablaðs flutt til Víkur í Mýrdal og starfsemi bótanefndar til Siglufjarðar. Þá hefur verið ákveðið að Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar verði á Blönduósi og er starfið þar þegar hafið. Framleiðsla vegabréfa verður flutt til sýslumannsins í Keflavík nú í vor. Fasteignasölueftirlit, meðferð ættleiðingarmála, staðfesting skipulagsskrár, og eftirlit með sjóðum, happdrættiseftirlit, útgáfa leyfa og eftirlit með útfararþjónustu, málefni skjalaþýðenda, leyfisveitingar og eftirlit með öryggisþjónustu í atvinnuskyni eru meðal þeirra málaflokka sem stefnt er að flytja frá ráðuneytinu með sama hætti á næstunni.

Flutningur Þjóðskrár til dómsmálaráðuneytisins ræðst af frumvarpi sem nú er til meðferðar á þingi en þar kemur fram að tengsl Þjóðskrár og verkefna á sviði dómmálaráðuneytis hafa vaxið mikið á síðustu árum. Þjóðskráin er þannig undirstaða ýmissa verkefna sem dómsmálaráðuneytið og stofnanir þess hafa með höndum, svo sem skráningar útlendinga, veitingar dvalarleyfa og útgáfu vegabréfa og ökuskírteina. Þá er Þjóðskrá og gagnasafn hennar ein helsta heimild um margháttuð málefni einstaklinga á sviði sifjaréttar, svo sem um faðerni barna, ættleiðingar, forsjár barna, stofnun og slit hjúskapar og staðfestrar samvistar, skráningar sambúðar og slit hennar, svo og um ríkisfang, mannanöfn og fleira.

Er það ætlun dómsmálaráðuneytisins að hagnýta þessi tengsl með því að fela Þjóðskrá aukin verkefni t.d. hvað varðar útgáfu vegabréfa og annarra skilríkja og umsjón með verkefnum ráðuneytisins á sviði löggjafar um mannanöfn.

Þegar dómsmálaráðuneytið hefur tekið við hlutverki Hagstofu Íslands við starfrækslu Þjóðskrár, ef lagafrumvarpið verður samþykkt, mun ráðuneytið í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur hennar leggja mat á hvernig best er að tengja starfsemi Þjóðskrár öðrum verkefnum á vegum ráðuneytisins og stofnunum þess, ekki síst sýslumannsembættunum.

Auk þess verður tekið mið af því að á vegum ráðuneytisins er unnið markvisst að því að efla alla rafræna vinnslu og rafræna þjónustu. Umsvif starfsmanna Þjóðskrár taka að sjálfsögðu mið af fjölda þeirra sem til þeirra leita og þeir eru langflestir á höfuðborgarsvæðinu en höfuðstöðvar Þjóðskrár eru við Borgartún í Reykjavík.

Dómsmálaráðuneytið hefur markað sér þá meginstefnu að úrlausn einstakra verkefna sé ekki bundin við höfuðborgina heldur sé litið til landsins alls og mun það eiga við um verkefni Þjóðskrár eins og önnur á starfssviði ráðuneytisins. Ég tel á hinn bóginn ekki tímabært að gefa fyrirheit um flutning verkefna Þjóðskrár fyrr en náðst hefur að móta framtíðarsýn fyrir stofnunina í samráði við stjórnendur hennar og starfsfólk. Enda verði það frumvarp sem liggur fyrir þinginu samþykkt á þessu þingi.

Af því að spurt er sérstaklega um sýslumannsembættin í Ólafsfirði og Siglufirði þá liggur fyrir að það hefur verið samþykkt bæði á Siglufirði og Ólafsfirði að sameina þessi sveitarfélög. Það verður því ekki sýslumannsembætti á Ólafsfirði og Siglufirði. Ég tel víst að það verði til frambúðar sýslumannsembætti á Siglufirði og eins og ég sagði er þegar unnið að því í samvinnu við sýslumanninn á Siglufirði að starfsemi bótanefndar flytjist þangað. Ef það eru fleiri verkefni sem hann hefur hug á að taka að sér er ráðuneytið að sjálfsögðu reiðubúið til viðræðna við hann um það og treystir embættinu mjög til að sinna þeim verkefnum sem hæfa því.