132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Flutningur verkefna Þjóðskrár.

657. mál
[19:00]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst þarf að taka ákvörðun um það í ráðuneytinu hvaða verkefni ráðuneytið er tilbúið að flytja út fyrir sínar dyr. Við höfum skilgreint það. Við höfum kynnt þetta fyrir öllum sýslumönnum í landinu. Við vorum með fund forstöðumanna ráðuneytisins í síðustu viku og þar kynnti ég þetta enn og aftur. Við ætlum ekki í ráðuneytinu að gefa fyrirmæli um það hvert þessi verkefni eigi að flytjast. Við viljum að óskir komi frá viðkomandi sýslumönnum og bæjarfélögum, ef svo ber undir. Þeir þekkja best aðstæður á sínum stað, húsnæði og annað slíkt. Við tökum síðan afstöðu til þess ef fram koma slíkar óskir. Þannig ósk kom frá sýslumanninum á Siglufirði varðandi störf bótanefndar og verið er að vinna að því. Þetta þarf ákveðinn undirbúning og menn þurfa að setja sig inn í málið en við viljum að sá háttur sé hafður á að frumkvæðið komi frá sýslumönnum. Við erum búin að leggja á borðið ákveðnar kræsingar og ef menn vilja þiggja þær þá er þeim það að sjálfsögðu heimilt. Ef enginn vill sinna því þá sitjum við að þeim kræsingum áfram.