132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja.

656. mál
[19:05]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í 1. mgr. 104. gr. laga um hlutafélög er að finna almennt bann við því að hlutafélag veiti m.a. stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán. Slíkar lánveitingar eru almennt ekki taldar til framdráttar starfsemi hlutafélaga og gera má ráð fyrir að þær sæti ófullnægjandi athugun og geti leitt til óréttmæts hagnaðar lántakenda á kostnað félaganna.

Í greininni eru þó vissar undantekningar frá banninu. Þannig geta starfsmenn fengið lán við kaup á hlutum í félaginu sem þeir vinna hjá eins og síðar verður vikið að. Lána má til móðurfélags og veita venjuleg viðskiptalán. Loks gilda sérákvæði um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir en ekki ákvæðin í hlutafélagalögunum. Ákvæðin eru byggð á dönskum lögum. Í Danmörku hafa fræðimenn fjallað um lánsákvæðin í 115. gr. og 115. gr. a í dönsku hlutafélagalögunum og dómar hafa fallið en ákvæðunum hefur þó ekki verið breytt. Ekki hafa verið færð fram rök fyrir því að nauðsyn beri til að gera það hér á landi og breyta þá lögunum en fylgst verður með þróun þessara mála. Bent skal á að í nýlegum héraðsdómi reyndi á ákvæði laga um ársreikninga varðandi lán. Komu síðan m.a. fram hugleiðingar um það hjá fræðimönnum hvort innleiðing ákvæða laga um ársreikninga á grundvelli starfs fjármálaráðuneytisins væri fullnægjandi miðað við EES-rétt, en í málinu reyndi á skýrleika refsiheimildar. Dómnum hefur reyndar verið áfrýjað.

Vakin skal athygli á því að í dönsku hlutafélagalögunum er aðeins kveðið á um sekt sem refsingu fyrir brot á lánsákvæðum laganna. Hér á landi er miðað við sekt eða fangelsi varðandi fjölmörg brot sem upp eru talin í 153. gr. laga um hlutafélög. Er það á valdi dómara að kveða upp úr um það hvort til sektar eða fangelsisdóms kann að koma með tilliti til atvika í hverju máli. Er ekki sjáanlegt að nauðsynlegt sé að breyta þessari grein hlutafélagalaganna.

Hvað snertir ákvæði um innlánsstofnanir og aðrar fjármálastofnanir er rétt að vísa til svars míns við fyrirspurn sama fyrirspyrjanda fyrr á þessu þingi um viðskipti fruminnherja á fjármálamarkaði. Þar kemur m.a. fram að um lánveitingar til framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja sé fjallað í 57. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þar sem kveðið sé á um að lánveitingarnar séu háðar samþykki stjórnar og að ákvarðanir skuli bókaðar. Heimild fjármálafyrirtækja til að lána framkvæmdastjóra er undantekning frá meginreglu 104. gr. hlutafélagalaga sem leggur bann við slíkum lánveitingum.

Svar við annarri fyrirspurn: Eins og fram hefur komið í svari mínu gildir bann 1. mgr. 104. gr. laga um hlutafélög við lánum m.a. til stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra ekki um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum. Spyrja má hvort heimild skv. 2. mgr. 104. gr. til að lána starfsmönnum fyrir hlutum, sem er út af fyrir sig góð regla, taki til þeirra starfsmanna sem jafnframt eru stjórnendur eða stjórnarmenn. Það er ekki alveg óyggjandi hvernig skilja beri orðið „starfsmaður“ í þessu sambandi. Í dönskum rétti hafa menn komist að niðurstöðu um allþrönga túlkun sem ólíklegt er þó að fylgt hafi verið hér á landi. Þannig telur danska atvinnu- og félagaskráin og fræðimenn að ekki megi lána framkvæmdastjórum til kaupa á hlutum. Í því sambandi beri að hafa í huga að heimildin til að lána starfsmönnum byggist á 23. gr. 2. félagsréttindatilskipunarinnar en þar hefur verið gengið út frá uppbyggingu kerfis til að örva almenna starfsmenn til að eiga í viðkomandi félögum. Fræðimenn ganga jafnvel lengra að því leyti að þeir telja að sama eigi að gilda um framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur. Aðrir stjórnendur eiga með öðrum orðum heldur ekki rétt á láni. Í dönskum rétti er hins vegar gengið út frá því að starfsmenn, sem sitja samkvæmt ákvæðum um aðild starfsmanna í stjórnum félaganna, eigi að eiga rétt á lánum enda mundu þeir ella sitja skör lægra hvað kjör snertir en starfssystkini þeirra og slíkt kynni að leiða til þess að þeir vildu síður taka að sér stjórnarstörf.

Vandséð er að stjórnendur hlutafélaga hér á landi, sem jafnframt eru starfsmenn félaganna, geti ekki eins og aðrir starfsmenn þeirra fengið lán innan hóflegra marka til kaupa á hlutum þannig að þörf sé á að girða fyrir slíkt í lögum.