132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:38]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Skilar stjórnkerfi fiskveiða þeim árangri sem að var stefnt þegar við tókum það upp? Skilar það þeim árangri að vernda fiskstofnana og byggja þá upp? Ég held að allir sem fylgjast með þessum málum viti hvert svarið við þessum tveimur spurningum er. Eftir sem áður berja stjórnvöld höfðinu við steininn og neita að horfast í augu við að þróunin er önnur en að var stefnt.

Samt er haldið áfram með sömu aðferðir, með sömu stefnu og sömu stjórntæki. Það er alveg sama þótt við sjáum stóra nytjastofna okkar minnka ár eftir ár. Svörin eru þau sömu og við heyrðum hjá hæstv. ráðherra áðan. Við skulum ekki fara á taugum. Við skulum vera róleg og horfa á þetta með ró í hjarta. En þegar maður sér þróunina eins og hún hefur verið um langt skeið þá hljóta mælingar sem þessar að hringja einhverjum bjöllum. Þótt við getum verið sammála um að vera ekki of snögg að draga ályktanir þá hljóta samt sem áður svona vísbendingar að hringja bjöllum.

Stofnvísitalan í þorski er að lækka og hefur lækkað núna þrjú ár í röð. Það hljóta að vera alvarleg tíðindi, jafnvel þótt þorskárgangur síðasta árs virðist í meðallagi stór.

Hvað gerist síðan í ýsunni? Þar hefur stofnvísitalan hækkað gífurlega á undanförnum árum. Eftir sem áður er ekki veitt það magn af ýmsu sem allir þeir sem til þekkja telja í lagi að veiða. Ég man eftir því þegar kvótinn fyrir þetta ár var gefinn út, á grundvelli stærsta árgangs sem sögur fara af, þ.e. árgangs 2003. Sá fiskur er þriggja ára núna og kominn inn í veiði en þegar kvótinn var gefinn út voru rökin þau að hann mætti ekki vera of hár því að það gæti haft slæm efnahagsleg áhrif á útgerðina. Aftur á móti var sagt að stofninn sjálfur, þ.e. fiskurinn í sjónum, væri nægilega mikill til að veiða meira. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að auka ýsukvótann.