132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta eru engan veginn ánægjulegar fréttir hversu mikið sem menn í Stjórnarráðinu reyna að draga í efa að þær séu jafnalvarlegar og þær eru settar fram, þ.e. að 15% í stofnvísitölu þorsksins hafi ekki sömu áhrif og mat á heildarstofninum, annars vegar veiðistofninum og hins vegar leyfðri veiði. En sú þróun sem við höfum séð á undanförnum árum er hins vegar mjög dapurleg og gefur engar vísbendingar um að við séum á réttri leið með nýtingu okkar á fiskveiðilögsögunni.

Það er ekki með nokkrum rökum lengur hægt að halda því fram, hæstv. forseti, að kvótakerfið, eins og það hefur verið notað á undanförnum árum og áratugum, hafi fært okkur ávinning við uppbyggingu þorskstofnsins. Við skulum heldur ekki gleyma því að ýsustofninn stækkaði mest þegar mest veiðiálag var á honum, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun og Landssambandi íslenskra útvegsmanna, þegar smábátarnir fengu að veiða ýsuna frjálsa þá stækkaði ýsustofninn mest. Núna liggur fyrir að ýsan hefur ekki nægilegt fæði. Það ánægjulega við útbreiðslu hennar er hins vegar að hún er allt í kringum land og er þar af leiðandi á mjög stórri beitufæðisslóð.

Ef við lítum hins vegar á dreifingu þorsksins kemur í ljós að megnið af þorskinum er í útköntunum umhverfis Ísland. Í djúpköntunum. Það bendir til að þorskurinn sé að færast frá landinu miðað við það sem áður var og þar af leiðandi sé hann að talsverðu leyti upp í sjó þannig að það kann að vera mikil óvissa í þessari mælingu.