132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. sjávarútvegsráðherra hér áðan olli miklum vonbrigðum. Það er ekki að sjá að það sé nein stefnubreyting í gangi. Hann flutti nánast efnislega sömu ræðuna og var flutt hér í fyrra þegar okkur bárust líka slæmar fréttir af gangi þorskstofnsins. Þá hafði ég uppi sterk varnaðarorð um hvert stefndi og því miður eins og ég sagði áðan, það er allt að koma í ljós. Ég er búinn að hafa rétt fyrir mér allan tímann, í mörg ár.

En núna finnst mér vera kominn tími til að hlusta. En því miður sjáum við bara sinnuleysi og dáðleysi hjá stjórnvöldum. Þessir menn vita í raun og veru ekki sitt rjúkandi ráð. Hér um daginn kom hæstv. sjávarútvegsráðherra upp í ræðustól og sagði að forsenda fyrir því að byggja upp þorskstofninn væri að skjóta hrefnur. Hvað ætlar ráðherrann að skjóta margar hrefnur til að byggja upp þorskstofninn? Tvær, tuttugu, tvö hundruð, tvö þúsund, tuttugu þúsund? Þessu verður hann að svara.

Þessir menn hafa hegðað sér hérna í mörg ár eins og guðir, telja sig vita hve margir fiskar eru í sjónum. Telja sig geta stjórnað þessu alveg upp á hár. En þetta eru menn sem ráða ekki einu sinni við að slökkva sinuelda vestur á Mýrum. Hvernig í ósköpunum dettur þeim þá í hug að þeir ráði við það upp á hár hvernig eigi að byggja upp þorskstofninn eða ýsustofninn? Hvernig í ósköpunum dettur þeim það í hug?

Hvernig er nú árangurinn? Við sjáum það fyrir framan okkur. Það er að gerast nákvæmlega það sem við í Frjálslynda flokknum höfum verið að vara við árum saman. Við erum að gera hlutina vitlaust og náum ekki árangri. Við höfum margoft bent á þær leiðir sem eru til úrbóta, hvernig mætti stjórna fiskveiðum hérna með betri hætti en gert hefur verið mörg undanfarin ár. Og ná árangri.

Virðulegi forseti. Tími minn leyfir ekki að ég fari yfir það hér og nú í smáatriðum en ég get bent á að á heimasíðunni minni, magnusthor.is, er að finna margar greinar sem hafa verið skrifaðar um langan aldur um hvað eigi að gera til að ná hér upp fiskstofnum. Hvað eigi að gera til að hægt sé að endurreisa byggðirnar. Því við skulum gera okkur grein fyrir því að takist okkur ekki að byggja upp þessa fiskstofna þá kallar það á áframhaldandi byggðaröskun. Það kallar á að veiðiheimildirnar haldi áfram að safnast á færri og færri hendur. Það kallar á áframhald stóriðjustefnunnar í þessu landi. Áttið ykkur á því. (Forseti hringir.)