132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:54]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. n. hvatti mig til að rifja upp gömlu ræðurnar mínar. Það er nú gott að heyra það því ekki var hann alltaf sammála þeim þegar þær voru fluttar. En ég ætla aðeins að rifja mínar gömlu ræður upp.

Ég hvatti m.a. til þess á þeim tíma að við mundum leggja aukna áherslu á veiðarfærarannsóknir. Það er það sem við höfum verið að gera, m.a. með uppbyggingu veiðarfærarannsókna við Hafrannsóknastofnun á Ísafirði. Þangað er verið að ráða fleiri en einn sérfræðing til að stunda þessar rannsóknir svo það er augljóst að það er verið að leggja aukna áherslu á það.

Ég hef líka verið að hvetja til að við reyndum að nota veiðarfærastýringu. Er ekki verið að gera það? Er ekki verið að gera það t.d. með að taka ákvörðun um að minnka möskvastærð í neti? Er ekki verið að gera það með að beita hér svæðalokunum og skyndilokunum með ýmsum hætti?

Í þriðja lagi hef ég líka sagt að við þurfum að tryggja fæðuframboðið fyrir helstu nytjastofna okkar eins og þorsk og ýsu. Hver var ákvörðun mín í vetur? Hún var sú að banna flottrollsveiðar á loðnu. Ég hlustaði ekki á kröfur um að auka stöðugt loðnuveiðarnar. Ég hef verið að fá skammir fyrir það núna síðast í blöðunum, að ég hafi verið óábyrgur og ekki hlustað á þá sjómenn sem eru að veiða loðnuna og þess vegna hafi ég ekki viljað auka loðnuveiðarnar. Ég stóð fast á því að gera það ekki vegna þess að ég taldi mjög mikilvægt að láta loðnuna njóta vafans og tryggja að fæðuframboð væri til staðar.

Hvað kemur fram í þessari skýrslu núna? Það kemur fram að það hafi fundist mikil loðna bæði í mögum þorsks og ýsu. Og þeir sem hafa verið að tala við sjómenn vítt og breitt um landið, eins og ég hef verið að gera, við höfum heyrt það frá þessum mönnum að það hefur sjaldan eða aldrei verið annað eins af loðnu í mögum þorsks og ýsu eins og einmitt núna. Er það ekki til marks um að það hafi orðið einhver breyting? Auðvitað verðum við að binda vonir við það.

En ég er fyrstur manna til að viðurkenna að við höfum ekki náð þeim árangri í uppbyggingu á þorskstofninum eins og við höfðum vonast til. Þess vegna þurfum við að fara yfir þessi mál. Ég hlustaði hins vegar mjög grannt eftir því, en ég varð ekki var við að menn kæmu með nein snilldarráð í þessari umræðu. Einn hv. þingmaður lagði bara áherslu á að við vissum ekki neitt og þess vegna ekki til neins að gera nokkurn skapaðan hlut. Vegna þess að við vissum ekki neitt og gætum ekki einu sinni slökkt elda vestur á Mýrum og þess vegna væri til einskis barist að reyna að glíma við að byggja upp þorskstofninn eða eiga við þessa hluti. Vegna þess að svo mikil óvissa væri þessu undirorpin.

En ég fagna því að hv. 1. þm. Reykv. n. (Forseti hringir.) skuli vera farinn að sjá að það var mikið vit í mínum gömlu ræðum og (Forseti hringir.) þess vegna hef ég verið að framkvæma mínar gömlu ræður.