132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:37]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra íslenska lýðveldisins er sennilega eini utanríkisráðherra í Evrópu í dag sem telur að innrásin í Írak hafi ekki verið mistök. Hann situr enn fast við stuðning sinn. Hann er ekki eins og hæstv. forsætisráðherra sem hefur sagt að í ljósi upplýsinga sem fram hafa komið hafi það verið mistök.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra annars sem tengist þessu máli. Við höfum rætt í þinginu hið svokallaða fangaflug. Mér hafa líkað vel þær skorinorðu yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra hefur gefið í tengslum við það. Hæstv. ráðherra vildi þó ekki að íslenska ríkisstjórnin réðist í sjálfstæða rannsókn á því hvort Ísland hefði verið misnotað í þessu skyni. Ég minni á að Ísland hefur refsilögsögu í málum sem það varða sem nær út fyrir hina hefðbundnu lögsögu okkar.

Nú hefur Amnesty International sýnt fram á að a.m.k. ein flugvél fór hér um sem sannanlega hefur verið notuð til fangaflutninga. Ekki er vitað hvort það hafi verið gert í því tilviki. En klárt er að okkur ber skylda til þess að rannsaka málið og nú spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Eru þessar upplýsingar Amnesty tilefni til þess að ráðast í slíka rannsókn?