132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:38]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Slík rannsókn, ef af yrði, yrði reyndar á verksviði annars ráðherra, væntanlega dómsmálaráðherra. En miðað við þær upplýsingar sem fram eru komnar og hv. þingmaður vitnaði til sé ég ekki að nokkurt tilefni sé til þess því að í þessari löngu skýrslu er á einum stað vikið að Íslandi og þess getið að ein flugvél sem einhvern tíma hafi verið notuð í þessum tilgangi hafi lent í Keflavík í eitt skipti. Ekkert er fullyrt um að þar hafi ólöglegt athæfi verið á ferðinni.

Ég vil bara nota tækifærið út af því sem þingmaðurinn segir og ítreka okkar afstöðu í þessu máli sem er sú að við fordæmum lögbrot og mannréttindabrot hvar sem þau fara fram. Við höfum ekki ástæðu til að ætla að okkar landsvæði eða yfirráðasvæði, landhelgi eða lofthelgi hafi verið notuð í því skyni og þar við situr.