132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:39]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hann var nokkuð snubbóttur kaflinn hjá hæstv. utanríkisráðherra sem laut að brottför hersins frá Miðnesheiðinni, gangi varnarviðræðna og framtíð varnarsamningsins. Það verður vissulega dýrkeypt fyrir mannlífið á Suðurnesjum viðbragðsleysið og afneitunin sem forusta Sjálfstæðisflokks og ríkisstjórnin var í hvað varðaði framtíð og viðgang hersins á Miðnesheiðinni.

Það sem vakti mesta athygli mína og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í er það sem hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Viðræðurnar hljóta að snúast um hvernig megi tryggja varnir lands í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjaforseta að kalla loftvarnasveitir frá Íslandi og draga að öðru leyti stórlega úr starfsemi varnaliðs. Markmið viðræðnanna er að ná niðurstöðu sem íslensk stjórnvöld telja að uppfylli skilyrði um fullnægjandi og æskilegan varnarviðbúnað vegna Íslands.“

Nú var það svo að hæstv. fyrrv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, skilgreindi það sem lágmark sýnilegra varna að hér væru fjórar þotur. Það var skýrt hjá hæstv. fyrrv. formanni Sjálfstæðisflokksins, fjórar þotur eða varnarsamningnum skyldi sagt upp. Annars gætu þeir farið, sagði hann.

Er hæstv. utanríkisráðherra sammála þessu? Hvert er að hans mati lágmark sýnilegra varna og inntak þeirra samningaviðræðna sem nú standa yfir hvað þetta varðar? Er eitthvað annað en fjórar þotur sem gerir sama gagn? Eða verða fjórar þotur að vera málið? Hvert er álit hæstv. utanríkisráðherra á því hvert sé lágmark sýnilegra varna hér á landi, ella skuli varnarsamningi sagt upp? Er hann á sömu skoðun og hæstv. fyrrv. ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks, Davíð Oddsson, hvað þetta varðar, sem hafði ákaflega afdráttarlausa skoðun á þessu máli? Fjórar þotur skyldu það vera, annars væri ekki um sýnilegar varnir að ræða.