132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst af orðum hæstv. utanríkisráðherra að hér er um að ræða meginstefnubreytingu í viðhorfum íslenskra stjórnvalda til þeirra lágmarksvarna sem hér skuli vera. Það þarf engan túlk til að endursegja skoðun hæstv. fyrrv. ráðherra Davíðs Oddssonar á því hverjar væru lágmarksvarnir hér, lágmarksvarnarviðbúnaður, lágmark sýnilegra varna. Það skyldu vera fjórar þotur. Það er til margoft sagt á prenti eftir hæstv. ráðherra. Það þarf engan túlk til að endursegja það og um það þarf ekki að deila.

Það sem hæstv. utanríkisráðherra segir nú, að engar mögulega sýnilegar varnir þurfi til að uppfylla varnarsamninginn að hans mati, hér komi augljóslega til greina að þeim vörnum verði sinnt annars staðar frá, mögulega Skotlandi, ég veit það ekki, hæstv. ráðherra kannski upplýsir það í seinna andsvari sínu hvað hann nákvæmlega á við. En hann er greinilega búinn að sætta sig við það, virðulegi forseti, að hér verði engar sýnilegar varnir og þeim verði sinnt annars staðar frá og það er grundvallarstefnubreyting (Forseti hringir.) á viðhorfum íslenskra stjórnvalda til varnarmála.