132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:46]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hann flutti hér um utanríkismál og þá umfjöllun sem þar var um öryggis- og varnarmál sem hljóta að vera höfuðviðfangsefni okkar í utanríkismálum um þessar mundir.

Þegar utanríkisráðherra flutti skýrslu hér í þinginu í nóvember síðastliðnum fór átakanlega lítið fyrir þeirri umræðu. Ef ég man rétt voru ellefu línur í þeirri ræðu um öryggis- og varnarmál og var þó ærin ástæða til þess að gefa þeim málum gott rými í umræðunni vegna þeirrar viðkvæmu stöðu sem þá var uppi í málunum. Nú er sem sagt bætt um betur og fjallað ítarlega um þessi mál í ræðu utanríkisráðherra og fyrir það vil ég þakka.

Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, láta það koma fram að ég fór að hugsa það þegar ég hlustaði á ræðu utanríkisráðherra hér áðan að til skamms tíma a.m.k. voru ítarlegar skriflegar skýrslur utanríkisráðherra lagðar fram í þinginu þar sem farið var yfir störf utanríkisþjónustunnar og hvaða verkefnum þar væri verið að sinna. Ef ég man rétt var þeirri ítarlegu skýrslu fylgt úr hlaði með munnlegri skýrslu ráðherra. Ég vildi gjarnan kalla eftir því og spyrjast fyrir um hvað líði slíkri skýrslu, því að auðvitað gefur hún þingmönnum betri innsýn í hvað er verið að vinna í utanríkisþjónustunni og utanríkisráðuneytinu en stutt ræða ráðherra.

Í nóvember lýsti ég yfir vonbrigðum með ræðu sem utanríkisráðherra þá flutti, ekki aðeins vegna þess hversu lítið var fjallað um öryggis- og varnarmálin heldur vegna þess að það væri átakanlegur skortur á almennri stefnumótun til framtíðar í utanríkismálum og það finnst mér líka vera upp á teningnum í þessari ræðu utanríkisráðherra.

Ég get skilið það, virðulegi forseti, að ráðherrar sem hafa setið lengi í sínum embættum og flutt Alþingi fjölmargar skýrslur og ræður um sína málaflokka geti ekki markað sér stöðu í hvert eitt sinn. En ég hefði haldið að nýr utanríkisráðherra notaði tækifærið í upphafi sinnar embættistíðar til að skerpa þær áherslur sem hann hefur og gera þinginu grein fyrir því hvernig hann vill forgangsraða málum í sínu ráðuneyti, hvar hans áherslur liggja.

Ég var á fundi nú nýverið með utanríkisráðherra Noregs og ég verð að segja að ólíkt finnst mér þeir hafast að, utanríkisráðherrar Noregs og Íslands, báðir nýir í sínum embættum og vilja væntanlega báðir setja sitt mark á málaflokkinn. Það var alveg ljóst að utanríkisráðherra Noregs leggur megináherslu á norðursvæðin, það er megináherslumál hans í hans tíð sem utanríkisráðherra. Eitt hans fyrsta verk var líka að endurskipuleggja ráðuneyti sitt og kynna það ítarlega fyrir landsmönnum með hvaða hætti hann hygðist vinna í ráðuneytinu og hvernig það yrði skipulagt. En það hefur lítið farið fyrir slíku af hálfu hæstv. utanríkisráðherra sem hér situr.

Þetta þarf hins vegar ekkert að koma á óvart, virðulegur forseti, því að það er einhver átakanlegur skortur á vönduðum vinnubrögðum og almennri stefnumótun sem einkennir öll verk þessarar ríkisstjórnar. Það er ýmislegt aðhafst en helst ekkert fyrr en í óefni er komið. Stefna er ekki mótuð, stefna verður til einhvern veginn þegar einhver tekur ákvörðun, stjórnmálamenn eða hagsmunaaðilar eftir atvikum, og það er eiginlega sama hvert litið er. Eftir ellefu ára samfellda ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks veit enginn hvert þeir stefna í öllum helstu málaflokkum þjóðarinnar. Það er vegna þess að stefna þeirra er að láta hlutina gerast einhvern veginn.

Þeir afneita tvöföldu kerfi í heilbrigðismálum en láta það verða að veruleika eftir bakdyraleiðum. Þeir afneita skólagjöldum í ríkisháskólum og bíða eftir að háskólarnir sjálfir taki af þeim ómakið og krefjist þess vegna fjárskorts. Þeir neita því að til standi að einkavæða RÚV en standa svo illa að lagasetningu að þær kröfur munu gerast háværar að það sé engin ástæða til þess að halda þeirri stofnun úti. Þeir neituðu að horfast í augu við framkvæmd varnarsamningsins og að hann væri ekki í samræmi við breytta heimsmynd eftir lok kalda stríðsins og gerðu ekkert til þess að skilgreina varnarþarfir okkar upp á nýtt. Nú sitja þeir með málið í fanginu, úrræðalausir og bíða eftir því að Bandaríkjamenn vinni nýja varnaráætlun fyrir Ísland. Þetta eru hinir viljugu og stefnuföstu ráðamenn Íslands. Þeir aðhafast ýmislegt, þeir búa til frumvörp um allt milli himins og jarðar sem sum væru betur óflutt, einmitt vegna þess átakanlega skorts á stefnumótun til framtíðar sem einkennir þau.

Í ljósi þessa þarf því ekki að koma á óvart þó að ríkisstjórnin viti ekki í hvorn fótinn hún á að stíga þegar kemur að því að marka Íslandi stöðu til framtíðar í samfélagi þjóðanna. Hvar liggja okkar brýnustu öryggishagsmunir og hvernig tryggjum við þá best? Hvernig ætlum við að haga samskiptum okkar við Evrópu þegar til framtíðar er litið? Hvert er erindi okkar inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og hverjar verða okkar megináherslur? Þessum spurningum er ekki svarað af núverandi ríkisstjórn.

Utanríkisráðherra sagði í fjölmiðlunum eftir fund samninganefndar Bandaríkjanna og Íslands í síðustu viku að nú værum við að bíða eftir varnaráætlun frá Bandaríkjamönnum, við hefðum nefnilega ekki sérfræðiþekkingu til að vinna slíka áætlun. Nú segir ráðherrann hér í ræðustól að samfylkingarmenn hafi snúið út úr þessum orðum hans. Við snerum ekkert út úr þessum orðum hans, þau voru bara tekin eins og þau voru sögð og ég verð að játa að mér finnst leggjast lítið fyrir kappana í ríkisstjórninni að þeir skuli geta staðið frammi fyrir alþjóð og sagt þetta. Nú kann þetta að vera rétt, að menn hafi ekki þessa sérfræðiþekkingu, en þá er líka við utanríkisráðuneytið og ríkisstjórnina að sakast að hafa vanrækt að byggja upp þessa þekkingu hér innan lands.

Við höfum orðið átakanlega vör við skort á þessari þekkingu í umræðunni í kringum Íraksmálin. Eitt símtal frá Bandaríkjaforseta — eða ég veit ekki hvort það var kannski einhver annar sem hringdi — dugði til að tveir ráðherrar hlupu upp til handa og fóta og settu Ísland á lista þjóða sem voru viljugar til að fara í stríðsrekstur í Írak, allt undir því falska yfirskyni að Saddam Hussein ætti gereyðingarvopn sem hann gæti beitt með mjög litlum fyrirvara. Hans Blix, hinn sænski vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna, hafði miklar efasemdir um að þetta væri rétt, hann hafði ekkert fundið sem benti til þess þrátt fyrir ítarlega leit. Hann bað um lengri frest en hann var hæddur og spottaður af ráðamönnum í Bandaríkjunum. Það var dapurlegt að fylgjast með því einelti sem Hans Blix varð fyrir á þessum tíma og íslensk stjórnvöld dönsuðu með. Þau dönsuðu með af því að þau höfðu hvorki pólitíska burði né faglega þekkingu til að takast sjálfstætt á við málið. Og eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til hér í gær, orða Hans Blix í Sjónvarpinu í gær, þá gagnrýndi hann að íslensk stjórnvöld skyldu ekki kynna sér þessi mál ofan í kjölinn eins og þau hefðu auðvitað getað gert.

Í viðræðum undanfarinna ára og missira við íslensk stjórnvöld hafa bandarískir ráðamenn sjálfsagt orðið átakanlega varir við þann skort sem hér er á sérfræðiþekkingu í ýmsu sem lýtur að utanríkis- og varnarmálum. Þess vegna hafa þeir auðvitað ákveðið að gera sitt til að bæta úr þessu með þeirri bókagjöf sem sendiherra Bandaríkjanna afhenti Þjóðarbókhlöðunni í gær, 200 bækur. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að í fréttatilkynningu frá bandaríska sendiráðinu sagði einmitt að tilgangurinn með gjöfinni væri að hjálpa Íslendingum að byggja upp sérþekkingu á varnarmálum sem skortur væri á hér á landi. Þetta stóð í fréttatilkynningunni frá sendiráði Bandaríkjanna og staðfestir það sem utanríkisráðherra hefur sagt að sérfræðiþekking er ekki til staðar, hana skortir.

Það var líka einhvers staðar haft eftir bandaríska sendiherranum að það ætti ekki að leggja varnarmál í hendur hershöfðingjanna og ég er sammála sendiherranum í því efni. Það á ekki að leggja varnarmálin í hendur hershöfðingjanna. Stefna í varnar- og öryggismálum er pólitísk stefna sem snýst um að skilgreina það sem ógnað getur öryggi og fullveldi þjóðar, að átta sig á váboðunum og velja sér varnarviðbúnað. Varnar- og öryggismál lúta sömu lögmálum og löggæslumál, almannavarnir eða tryggingamál. Þegar við mótum stefnu á þessum sviðum þurfum við vissulega á margvíslegri sérfræðiaðstoð og fagþekkingu að halda en hún á að fara fram og vera veitt á forsendum þess sem ætlar að verða sér úti um varnir en ekki hins sem ætlar að veita þær.

Í nóvember minntist ég lítillega á hvernig Írar hefðu staðið að málum við að móta sér varnarstefnu um síðustu aldamót og það er athyglisvert að skoða það vegna þess að þeir eftirlétu það ekki hershöfðingjunum. Þeir byrjuðu þessa vinnu 1996, það lágu fyrir drög að stefnumótun 1998. Þeir buðu félagasamtökum og einstaklingum að koma með ábendingar og athugasemdir og það bárust 46 athugasemdir við þetta frá 27 einstaklingum og 19 stofnunum eða hópum. Síðan var fundað með allnokkrum fjölda þessara aðila sumarið 1999 og stefnan, sem var sameiginleg stefna írsku þjóðarinnar, lá fyrir árið 2000, unnin á þennan hátt.

Þetta er í takti við það sem Samfylkingin hefur lagt til sem vinnuaðferð í varnar- og öryggismálunum en Samfylkingin hefur talað hér fyrir tillögu oftar en einu sinni og líklega oftar en tvisvar um opinbera nefnd um öryggi og varnir landsins en fengið lítinn hljómgrunn vegna þess að hér eru mál lokuð inni í ráðuneytum og ráðherrar telja það til óþæginda að þurfa að hafa samráð við fólk sem er hugsanlega ekki sömu skoðunar og þeir, hvort sem það fólk kemur úr hópi sérfræðinga, hagsmunaaðila eða stjórnarandstöðu.

Samfylkingin hefur lagt mikla vinnu í að skoða utanríkismálin og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og það hefðu aðrir flokkar átt að gera líka. Ástæðan fyrir þessari vinnu er einfaldlega sú að það urðu straumhvörf eftir að kalda stríðinu lauk. Heimurinn breyttist landfræðilega, hugmyndalega og hernaðarlega og Evrópa er allt önnur en hún var, staða Íslands og lega landsins hefur allt aðra þýðingu en hún hafði. Það er allt á hreyfingu nema Sjálfstæðisflokkurinn sem er fastur í hugmyndaheimi kaldastríðsáranna.

Það hefur reyndar orðið aðeins vart við það, virðulegi forseti, að það sé ákveðinn áherslumunur meðal stjórnarflokkanna í utanríkis- og varnarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hallari undir samstarf eða öryggissamfélag við Bandaríkin og Framsóknarflokkurinn hallari undir öryggissamfélag við Evrópu. Formaður Framsóknarflokksins hefur sérstaklega gagnrýnt að það hafi ekkert nýtt komið fram í viðræðum við bandarísku sendinefndina í síðustu viku og hann hefur áður kvartað yfir seinagangi í þessum málum af hálfu utanríkisráðuneytisins. Hann hefur sem sagt litið meira til Evrópu og talað um öryggissamfélag við Evrópu en Sjálfstæðisflokkurinn er fastur í fortíðarviðjum og kemst ekki frá öllum stóru orðunum sem hann hefur haft uppi í þessum málum.

Virðulegur forseti. Hugtakið öryggissamfélag er mikilvægt þegar talað er um varnar- og öryggismál. Það tengist auðvitað varnarhagsmunum okkar en líka pólitískum og efnahagslegum hagsmunum. Öryggissamfélagið er þríþætt og það er ansi trosnað ef þetta þrennt fer ekki saman, þ.e. varnarhagsmunir, pólitískir hagsmunir og efnahagslegir hagsmunir.

Það er engum blöðum um það að fletta, virðulegur forseti, að við munum í framtíðinni fremur tengjast Evrópu en Bandaríkjunum. Þar verður okkar öryggissamfélag þegar til framtíðar er litið. Það er einfaldlega staðreynd sem leiðir af sífellt nánari tengslum okkar við Evrópu eins og í gegnum EES-samninginn og Schengen-samstarfið. Í þessu felst engin höfnun á samstarfi við Bandaríkin þar sem það á við en þetta er einfaldlega sú staðreynd sem leiðir af þeim ákvörðunum sem hér hafa verið teknar um stefnumótandi samstarf við Evrópu á mikilvægum sviðum í stjórnmálum, efnahagsmálum og borgaralegum vörnum.

Virðulegur forseti. Ég tel mjög mikilvægt að betur sé staðið að stefnumótun í öryggis- og varnarmálum en hér hefur verið gert á undanförnum árum af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og það verður einfaldlega verkefni Samfylkingarinnar í næstu ríkisstjórn að standa fyrir þeirri stefnumótun og útfæra hana þegar þar að kemur. Í utanríkis- og alþjóðamálum eigum við Íslendingar að vera frjálshuga boðberar nýrra hugmynda en láta ekki fyrir berast áttavillt í þoku kaldastríðsáranna.