132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:07]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þá skilagrein frá framtíðarhópnum sem ég vitnaði í hér áðan og þingmaðurinn tók upp þá kemur þar fram, og það er heiðarlegt og rétt að það komi fram, að ekki eru allir á eitt sáttir innan flokksins í því máli, en stefnan er algjörlega skýr.

Ég geri ráð fyrir því að í Evrópumálum séu nú ekki allir á eitt sáttir í Sjálfstæðisflokknum. Innan vébanda flokksins eru ýmsir menn sem gjarnan mundu vilja stefna að aðild að Evrópusambandinu. Það veit ég og það veit Birgir Ármannsson og það er auðvitað alveg sjálfsagt að viðurkenna það. En stefna flokksins er skýr, þ.e. menn ætla ekki inn í Evrópusambandið og vilja ekki ljá því máls að sótt sé um aðild þar.

Í Samfylkingunni er fólk sem er andstætt veru hers hér á landi, það er alveg ljóst. En stefnan er skýr, þ.e. að við viljum að Ísland sé aðili að Atlantshafsbandalaginu og við teljum ekki að það eigi að stefna að því að segja upp varnarsamningnum ef menn hafa ekki unnið að öðrum vörnum og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þessi vinna hefur ekki farið fram á vegum stjórnmálaflokkanna eins og þurft hefði að gera. Það vinnur þetta enginn einn flokkur út af fyrir sig. Þetta er eitthvað sem við eigum að sameinast um og markmið okkar á að vera að tryggja þetta öryggissamfélag okkar þegar til framtíðar er litið.

Hver voru markmið sjálfstæðismanna í viðræðunum við Bandaríkjamenn? Jú, fyrst voru það sýnilegar varnir, fjórar þotur. Svo voru það lágmarksvarnir og það var ekki sagt hvað í þeim fólst. Nú eru það orðnar táknrænar varnir. Þetta hefur nú verið stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum viðræðum við Bandaríkjamenn á undaförnum missirum og árum, fyrst sýnilegar varnir, svo lágmarksvarnir og svo táknrænar varnir. Það hefur orðið algjör kúvending í stefnu þessa flokks í þessu ferli (Forseti hringir.) eins og bent var á í umræðunni áðan.