132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. varaformanni utanríkismálanefndar finnist það boðlegt að á forsíðum dagblaða séu vangaveltur um hvað gerst hafi í samningaviðræðum Bandaríkjamanna og Íslendinga, m.a. um fjórar ratsjárstöðvar. Þessar fregnir eru bersýnilega byggðar á einhvers konar heimildum, ekki koma þær frá stjórnarandstöðunni. Hvaðan hljóta þær að koma? Úr samninganefndinni eða úr utanríkisráðuneytinu. Af hverju er ekki gert hreint borð í þessum efnum og af hverju er ekki sagt frá því í þeim trúnaði sem ríkir í utanríkismálanefnd um hvað verið er að ræða? Það er það sem skiptir máli, frú forseti.

Sömuleiðis er mjög óljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar er í samningunum við Bandaríkjamenn. Það kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að hann telji, með vísan í formann síns flokks, að það eigi að leita eftir samstarfi við aðrar þjóðir. Hann nefndi þessar þjóðir í ræðu sinni. Það hefur hins vegar komið fram, síðast í dag, hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann telji að fyrst eigi að reyna til þrautar samninga við Bandaríkjamenn.

Ég spyr hv. þm. Magnús Stefánsson hvort ekki sé skynsamlegt að leita allra leiða, svo ég vísi beint í orð hæstv. forsætisráðherra, og kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni, hafa allt á borðinu, alla valkosti þegar menn eru að reyna að ná einhvers konar lendingu. Ég tek eftir því að hæstv. utanríkisráðherra virðist vera annarrar skoðunar. Hann talar bara um Bandaríkjamenn á meðan Framsóknarflokkurinn talar um Evrópusambandið og hæstv. formaður Framsóknarflokksins hefur sérstaklega talað um að leita samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki mál sem leita ætti álits utanríkismálanefndar á. Ég hefði talið það. Er ekki hv. (Forseti hringir.) varaformaður nefndarinnar sammála mér um það?