132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:34]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýran málflutning hér í dag. Ekki er þar með sagt að innihaldið hafi verið gott eða gleðilegt. Reyndar þykir mér mjög dapurlegt að heyra hve höll ríkisstjórnin er undir stefnu núverandi Bandaríkjastjórnar. Það var gott, og ég gat þess í andsvari fyrr í dag við ræðu hæstv. ráðherra, að fá greiningu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar á þeim breytingum sem átt hafa sér stað innan NATO.

Ég ætla að gera þetta að umræðuefni hér á eftir og rökstyðja jafnframt hvers vegna ég tel að lausnir ríkisstjórnarinnar, og þess vegna einnig annarra stjórnmálaflokka hér á Alþingi, að undanskilinni Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, í varnarmálum gangi ekki upp. Þá er ég að vísa til NATO-flokkanna allra. Ég er að vísa til Sjálfstæðisflokksins, ég er að vísa til Framsóknarflokksins, ég er að vísa til Frjálslynda flokksins og ég er að vísa til Samfylkingarinnar. Allir þessir flokkar setja traust sitt á NATO. Ríkisstjórnin leggur höfuðkapp á að ná tvíhliða samningum við Bandaríkin en aðrir flokkar, og þá sérstaklega Samfylkingin, horfa á faðm NATO og líta á hann sem eins konar náðarfaðm.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem fer fyrir þingmannanefnd Íslands hjá NATO, hefur vakið máls á því að núverandi formaður þingmannaráðs NATO, Pierre Lellouche, horfi með velvilja til Íslands í þessu samhengi. Ég vek athygli á að sá maður hefur sýnt velvilja þegar grófustu mannréttindabrot hafa verið framin víðs vegar um heiminn, og vísa ég þar sérstaklega til innrásar Bandaríkjanna í Írak. En þegar henni var andæft á franska þinginu skar þessi NATO-foringi sig úr hvað varðaði eindreginn stuðning við Bandaríkin. Ég ætla að víkja að þessu öllu saman síðar og þá sérstaklega í lokin að þeim tillögum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram, bæði varðandi viðskilnað við Bandaríkjamenn og einnig mengunarvarnir sérstaklega í því efni.

Fyrst um þann skýra tón sem fram kemur í ræðu hæstv. ráðherra og er samhljóma stefnu núverandi Bandaríkjastjórnar. Byrjað er á að víkja að tilraunum Írana, eða meintum tilraunum Írana, til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hvers vegna skyldu Íranar vilja koma sér upp kjarnorkuvopnum? Ætli það sé ekki sama ástæða fyrir því og varð til þess að Bandaríkjamenn komu sér upp kjarnorkuvopnum á sínum tíma, til að verjast og til þess að ógna. — Það hefur verið talað um ógnarjafnvægi í þessu efni. — Sama ástæða og þegar Bretar ákváðu að koma sér upp kjarnorkuvopnum og Frakkar, Rússar, Kínverjar, Indverjar, Pakistanar, Ísraelsmenn, Suður-Afríkumenn hugsanlega. Að öllum líkindum Norður-Kórea. Einnig hefur verið talað um að Ástralar og Suður-Kóreumenn séu að fikta eitthvað í þessum efnum þó minni líkur séu taldar á því. Allar þær þjóðir sem ég nefndi hafa sannarlega komið sér upp kjarnorkuvopnabúrum til að verjast og til að ógna öðrum.

Skyldu menn nú vera að hjálpa Írönum í þessu efni, draga úr ótta þeirra við að á þá verði ráðist? Er stefna Bandaríkjamanna gagnvart Íran í þessu efni líkleg til að draga úr vilja þeirra til að koma sér upp vopnabúri til að verjast og ógna öðrum? Nei. Hér fyrir nokkru voru í fréttum viðtöl við fólk sem er nýkomið frá Íran, Íslendinga. Það segir að þar óttist menn nú mjög yfirvofandi árás á landið. Menn hafa dæmin fyrir sér nú nýlega frá Írak. Hverjir voru þar í fararbroddi? Það var eina ríkið sem hefur beitt kjarnorkuvopnum. Það var Bandaríkjastjórn. Það voru Bandaríkin sem beittu kjarnorkuvopnum gegn Japönum árið 1945. Þetta er samhengi hlutanna sem við hljótum að verða að horfa á þótt ég taki fyrir mitt leyti undir að það á að reyna að stuðla að því að Íranar komi sér ekki upp kjarnorkuvopnum enda hafa þeir fallist á það í sáttmála sem þeir undirrituðu fyrir rúmum 35 árum, árið 1970, en það var sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Þar eru þeir sér á báti varðandi hin ríkin sem ég nefndi hér áðan. En þetta er bara ekki leiðin.

Um samhljóminn við stefnu Bandaríkjanna. Það er það sem sagt er um Palestínu og Ísrael. Þar er ráðist sérstaklega á Yasser Arafat, nýlátinn leiðtoga Palestínumanna, og sagt að hann hafi verið þrándur í götu friðar. Það er vissulega stefnan frá Pentagon að tala svona. Aðrir hafa litið á Yasser Arafat sem fulltrúa hinna hófsömu afla. Hann viðurkenndi Ísrael, gagnstætt því sem ýmis önnur öfl innan Palestínu hafa gert. Hann viðurkenndi grænu línuna svokölluðu sem var dregin upp eftir hin blóðugu átök við stofnun Ísraelsríkis 1948–49. Hann viðurkenndi þá línu sem Sameinuðu þjóðirnar byggja sínar yfirlýsingar síðan á, og þýða að Palestínumönnum eru ætluð 22% af því landsvæði sem áður var Palestína, rúmur fimmtungur þessa lands. Nú stefnir hins vegar í að þeir fái innan við 10%, 9%, í sundurtættu landi og sundurgröfnu af apartheid-kynþáttamúr sem Ísraelsmenn eru að reisa og ætla að viðhalda. Ekki orð um það heldur er nú talað um öfgasamtökin Hamas.

Hvað hafa Hamas-samtökin aðhafst? Þau vinna sigur í lýðræðislegum kosningum. Þau hafa vissulega verið öfgafull á undanförnum árum en eru að draga þar úr, hafa einhliða lýst yfir vopnahléi, hafa gert það í eitt ár. En þegar þeir komast til valda nýtir hernámsliðið í Ísrael sér þá stöðu að svipta Palestínumenn öllum tekjum sínum. Halda skatttekjum til baka og gera stjórnvöld þannig fjárvana til að sinna skyldum sínum gagnvart almenningi og halda uppi einhverjum vísi að velferðarþjónustu. Eru menn búnir að gleyma hvers vegna uppreisnin í Palestínu, sú síðasta, hófst? Var það ekki eftir að Sharon — fyrrverandi böðullinn sem fór fyrir hryðjuverkasveitum sem myrtu menn tugum og hundruðum saman, bæði í átökunum við stofnun Ísraelsríkis og síðar í Líbanon — fór fyrir 2.000–3.000 manna liði upp á Musterishæðina í Jerúsalem og fór inn í Al Aqsa-moskuna en það varð þess valdandi að uppreisnin, hin síðasta, hófst. Ekki orð um þessa þætti heldur bara öfgafull stefna frá Pentagon.

Síðasta atriðið sem hæstv. ráðherra nefnir er framlag Íslands til viðlagasjóðs á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna náttúruhamfara. Það finnst mér hið besta mál. Jafngott og hitt er slæmt að íslenska ríkisstjórnin skuli láta fé af hendi rakna til öryggissveita í Írak. Við ættum frekar að beina okkar kröftum og fjármunum í uppbyggilegt mannúðarstarf. Láta hina um hernaðinn og reyna þvert á móti að koma þeim úr þessu landi. Það vakti athygli mína að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra Íslands segja að Írakar væru nú betur komnir en þeir voru fyrir fáeinum árum. Ekki ætla ég að leggja blessun mína yfir verk Saddams Husseins en að það heyrist ekki múkk, ekki eitt gagnrýnisorð, eftir pyntingarnar sem hernámsþjóðirnar hafa orðið uppvísar að í Abu Ghraib í Írak, eftir fjöldamorðin í Falluja, 700 manns, konur, börn, og karlar, lágu í valnum eftir að her Bandaríkjamanna fór að hætti nasista inn í borgina og drap menn af handahófi. Þetta gerðist eftir að fjórir bandarískir hermenn höfðu verið myrtir þar. Ekki orð um þetta.

Síðan, hæstv. forseti, víkur hæstv. utanríkisráðherra að þeirri eðlisbreytingu sem er að verða á NATO. Það er ágætlega um það fjallað. Að nú þurfi menn að horfa til heimsins alls. Áður hafi menn þurft að verjast ríkjum sem réðust á NATO-ríkin. Nú sé öldin önnur. Við lifum á hryðjuverkaöld. Það er talað um í ræðunni að til þess geti komið að grípa þurfi til aðgerða til að forða því að illviljaðir aðilar nái að láta til skarar skríða. Þar er vísað til hryðjuverkasamtaka.

Hér er vísað til breytinga sem orðið hafa á NATO á alllöngum tíma eða á 10. áratugnum og var stimplað rækilega inn á hálfrar aldar afmælinu í Washington árið 1999 og síðan ítrekað á Pragfundinum í kjölfarið að stefna að meiri sveigjanleika, að sveitum sem geti brugðist við og þá einnig brugðist við ógn. Þetta er grundvallarbreyting á þeim vinnureglum sem NATO hefur byggt á. Nú er það ekki árás sem skiptir máli heldur fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir ógnir.

Hverjum skyldi nú helst verða ógnað í heiminum? Skyldi það nú ekki vera það hernaðarveldi sem fer víðast með sínar klær? Það eru Bandaríkjamenn sem eru að verja sína olíuhagsmuni og hernaðarhagsmuni um heiminn allan. Það er gegn þeim sem þau öfl sem vísað er til eru að berjast. Bandaríkjamenn eru jafnframt ráðandi aðilar í NATO. Það er í þessu kompaníi sem við ætlum að finna vörn og öryggi fyrir Ísland. Ég held að þessi eðlisbreyting á NATO eigi að verða okkur til varnaðar. Við eigum að koma okkur út úr þessu bandalagi. Við eigum að segja skilið við NATO og treysta hagsmuni Íslands með öðrum hætti. Það gerum við best með því að fylgja réttlátum málstað og segja skilið við þá sem fara með ójöfnuði um heiminn.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Ég hef velt því fyrir mér hvernig á því standi að við skulum vera eini flokkurinn á Alþingi sem hefur viljað sýna fyrirhyggju hvað snertir viðskilnað Bandaríkjamanna frá Íslandi. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnarflokkarnir, hvernig stendur á því að Frjálslyndi flokkurinn og hvernig stendur á því að Samfylkingin hefur aldrei tekið undir málatilbúnað okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði á undanförnum árum þegar við höfum aftur og ítrekað sett fram mál sem lúta að þeirri stöðu sem nú er komin upp. Við höfum viljað markvissar og þverpólitískar viðræður í samráði við heimamenn á Suðurnesjum til að finna leiðir og vera við því búin að bandaríska herliðið yrði dregið til baka, sem var fyrirsjáanlegt og hefur verið fyrirsjáanlegt allar götur frá því kalda stríðinu lauk í byrjun 10. áratugarins. Hvernig stendur á að við vorum ein um þetta?

Ég held að ástæðan sé sú að menn hafi verið feimnir við NATO. Menn hafa verið feimnir við þessa umræðu um NATO. Við erum eini flokkurinn sem höfum aðgreint okkur frá þessari NATO-hyggju. Ég held að á þeim tímamótum sem við stöndum nú eigum við að opna hugann, og það ber öllum að gera það. Við eigum ekki að einblína á þann farveg sem NATO-flokkarnir eru að reyna að læsa okkur inni í. Ísland á að segja skilið við þetta hernaðarbandalag, standa utan hernaðarbandalaga og leita eftir að tryggja öryggi sitt með öðrum hætti. Ég mun víkja að þessu nánar í síðari ræðu minni, hæstv. forseti.