132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:42]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir lokaorð síðasta ræðumanns, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, um ræðu utanríkisráðherra eða þann þátt sem vék að framtíðarrekstrarfyrirkomulagi á Keflavíkurflugvelli sem ég held að sé fyrir utan þessa almennu varnarmálaumræðu sem hefur átt sér stað í dag sennilega mesta fréttin sem fram hefur komið í umræðunum vegna þess að sú sýn sem hæstv. utanríkisráðherra lýsti er ný framtíðarsýn varðandi rekstrarfyrirkomulagið.

Ég er sammála hv. þm. Drífu Hjartardóttur um að það er mikilvægt til framtíðar að tryggja að einkaaðilar geti komið að þeim þáttum í rekstri sem þeir eru betur færir um að sinna en opinberir aðilar. Eins og dæmi frá fjölmörgum öðrum nágrannalöndum ber vitni um er rekstur flugvallar einmitt þáttur í því. Þar er ekki um að ræða opinbera stjórnsýslu eða aðra slíka þætti sem eðli málsins samkvæmt hljóta að liggja hjá hinu opinbera. Þarna er um að ræða rekstrarþætti sem mikilvægt er að einkaaðilar hafi með höndum. Ég fagna því þessu atriði sérstaklega í ræðu hæstv. utanríkisráðherra.

Að öðru leyti vil ég líka þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir umfjöllun hans um aðra þætti, þ.e. um stöðuna í öryggis- og varnarmálum. Ég held að það sé mikilvægt að stefna ríkisstjórnarinnar liggi skýr fyrir um næstu skref í viðræðunum við Bandaríkjamenn. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi lýst þeirri stefnu mjög hreinskilið og skynsamlega áðan. Það er langt í frá að um eitthvert pukur eða leynd sé að ræða í þeim efnum eins og sumir talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið í veðri vaka, bæði í umræðunni í dag og eins á liðnum dögum, langt í frá. Það liggur ljóst fyrir með hvaða hætti ríkisstjórnin nálgast þessi mál og mér finnst með ólíkindum að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geti haldið því fram að hægt sé með einhverjum skynsamlegum hætti að nálgast þau mál öðruvísi.

Eins og hér hefur margoft verið rakið stöndum við frammi fyrir nýjum aðstæðum eftir yfirlýsingu Bandaríkjamanna frá 15. mars síðastliðnum. Við þurfum að takast á við að breytingar verða á fyrirkomulagi varnarmála ef þær áætlanir Bandaríkjamanna ganga eftir að draga burtu flugsveit sína héðan. Í ljósi þess stöndum við frammi fyrir því verkefni sem vissulega hefur verið viðvarandi verkefni íslenskra stjórnvalda í þessum efnum að meta þörfina fyrir varnir hér, hverjar þær eru, gegn hvaða ógnum við þurfum að búa okkur og með hvaða hætti það verði skynsamlegast gert.

Enginn efast um að varnarþörfin hefur breyst frá dögum kalda stríðsins. Veruleikinn hefur endurspeglað það. Það hefur komið fram í breyttum viðbúnaði varnarliðsins á síðastu árum. Það hefur komið fram í þeim bókunum sem hafa verið gerðar við varnarsamninginn bæði 1993 og 1996. Auðvitað er fráleitt að halda því fram eins og gert hefur verið af hálfu margra talsmanna stjórnarandstöðunnar í dag að íslensk stjórnvöld hafi með einhverjum hætti sofið á verðinum og ekki fylgst með þróuninni. Öðru nær. Þessi mál hafa stöðugt verið á dagskrá ríkisstjórnar Íslands, íslenskra stjórnvalda og menn verið að takast á við breyttar aðstæður.

Hinu er ekki að leyna að það hefur skort á að af hálfu stjórnarandstöðunnar hafi komið fram skynsamlegt eða efnislegt innlegg í þá umræðu. Það hefur fremur verið kvartað yfir formsatriðum, kvartað yfir nefndarskipunum og einhverjum slíkum þáttum en það hefur ekki mikið efnislegt komið frá stjórnarandstöðunni í þeim efnum.

Ef við veltum fyrir okkur þeim þáttum sem við þurfum að hafa í huga varðandi varnarskipulagið þá hefur það breyst frá dögum kalda stríðsins að innrás erlends herafla eða árás af hálfu óvinveitts ríkis, sú ógn er ekki sú sama og áður. En breyttar aðstæður hafa kallað á ný viðfangsefni eins og líka hefur verið rakið. Með þessu er ég hins vegar alls ekki að segja að þörfin fyrir hefðbundnar varnir og í okkar tilviki sérstaklega loftvarnir sé horfin. Hún hefur vissulega breyst vegna breyttra aðstæðna. En sú þörf að verja landið yfirvofandi ógn er alls ekki horfin. Ég mun koma nánar inn á það síðar í þessari umræðu en hins vegar held ég að á þessari stundu sé rétt að benda á að ef flugsveit Bandaríkjanna fer frá Keflavíkurflugvelli og ekkert kemur í staðinn þá er Ísland eina aðildarríki NATO, eina landið í hinum vestræna heimi sem ekki býr við einhverjar loftvarnir. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem tala kæruleysislega um að við þurfum engar varnir af þessu tagi. Að ekkert ógni okkur. Það gefur okkur tilefni til að spyrja: Hvað þá með nágrannaþjóðirnar? Hvað með Norðmenn? Hvað með Dani? Hvað með Svía? Allar þessar þjóðir telja sig þurfa að halda uppi landvörnum, þar á meðal loftvörnum, með ýmsum hætti og talsverðum tilkostnaði.

Það má spyrja alveg eins og þeir hv. þingmenn gera sem spyrja hvað ógnar okkur? Hvaða þörf fyrir varnir höfum við? Þá getum við snúið spurningunni upp á nágrannaþjóðirnar. Hvað er það nákvæmlega sem er að ógna Norðmönnum sem gerir að verkum að þeir halda úti öflugum herafla miðað við stærð landsins og fjölda þjóðarinnar? Hvað með Dani? Hvað með Svía? Auðvitað er það svo að allar þjóðir tryggja varnir sínar með einhverjum hætti, ekki bara með yfirlýsingum heldur líka með raunverulegum varnarviðbúnaði. Það sama á við um okkur Íslendinga. Þótt ógnin sé önnur en áður þá verðum við með viðbúnaði að tryggja okkur gegn hugsanlegri ógn sem getur komið með litlum fyrirvara, óvænt og úr óvæntum áttum.

Svo maður noti líkingu þá getum við sagt: Við læsum húsinu okkar þó við vitum ekki nákvæmlega um einhvern tiltekinn þjóf sem ætlar að að brjótast inn til okkar. Við höldum uppi löggæslu þó við vitum ekki fyrir fram hverjir muni brjóta af sér, hvernig og hvenær. Það eru ákveðnir grunnþættir í starfsemi ríkisvaldsins sem verður að halda uppi. Það sama á við um varnir og aðra slíka þætti

Ef við víkjum örfáum orðum að þeim þáttum sem geta ógnað okkur í nýjum heimi þá eru sumar þessar hættur á mörkum þess að vera hernaðarlegs eðlis eða lögreglumálefni. Skýrasta dæmið um það er hættan sem stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi eins og hefur raunar verið komið inn á í umræðunni. Þessi ógn af hryðjuverkastarfsemi er raunveruleg gagnvart okkur eins og öðrum vestrænum ríkjum þótt enginn geti sagt fyrir með vissu hversu mikil eða aðkallandi sú ógn er. En hún er raunveruleg. Dæmin frá undanförnum árum sem hér hafa verið rakin sanna það. Við verðum að hafa viðbúnað til að bregðast við slíkri starfsemi.

Önnur ógn sem er vissulega í eðli sínu löggæsluverkefni en snertir öryggi ríkisins með beinum og óbeinum hætti er alþjóðleg glæpastarfsemi. Alþjóðavæðing og breyttar aðstæður í umheiminum gera að verkum að hættur af því taginu eru nær okkur Íslendingum en nokkru sinni fyrr.

Í þriðja lagi má svo nefna hættur sem kalla fyrst og fremst á borgaraleg viðbrögð, svo sem hættur sem steðja að flugöryggi, öryggi sjófarenda, mengunarvörnum og slíkum þáttum. Í því sambandi liggur fyrir, eins og hér hefur verið rakið, að þessir þættir eru sérstaklega mikilvægir fyrir okkur Íslendinga sem eyju í norðanverðu Atlantshafi þar sem miklar flugsamgöngur og miklar skipaferðir eiga sér stað og kalla á viðbrögð með ýmsum hætti af okkar hálfu. Þessir þættir eru utan við hið hefðbundna svið öryggis- og varnarmála. En þeir snerta þó varnir eða öryggi almennings og hagsmuni þjóðarinnar með þeim hætti. Það er eðlilegt að gefa þeim nokkurn gaum í þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra fór vel yfir í ræðu sinni með hvaða hætti við Íslendingar höfum í auknum mæli gefið þessum nýju ógnum gaum og hvernig við getum enn aukið okkar þátt í að halda uppi öryggi almennings í þessum efnum. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta en vil þó undirstrika að þessar breyttu aðstæður munu óhjákvæmilega kalla á meiri viðbúnað okkar Íslendinga á ýmsum sviðum. Um leið verðum við að búa okkur undir meiri útgjöld á þessum sviðum.

Ég er, virðulegi forseti, ekki mikill áhugamaður um aukin opinber útgjöld en hins vegar eru þetta þættir sem snerta grunnskyldur ríkisvaldsins og þess vegna verðum við að leggja það á okkur sem til þarf til að hafa þessa þætti í lagi. Þá erum við auðvitað að tala um löggæslu. Við erum að tala um landhelgisgæslu. Við erum að tala um almannavarnir og aðra þá þætti sem snúa að því að vernda öryggi borgaranna með ýmsum hætti.

Ég vil líka minna á að þegar á undanförnum árum stjórnvöld hafa beitt sér fyrir ráðstöfunum til að bregðast við hinum breyttu aðstæðum í heiminum og tryggja öryggi borgaranna hefur slíkum hugmyndum oftar en ekki verið mætt af hálfu stjórnarandstöðunnar á þingi með jafnvel flissi og útúrsnúningum um íslenskan her, íslenska leyniþjónustu og margt þess háttar. Ég spyr: Muna hv. þingmenn eftir umræðunni fyrir tveimur árum um eflingu sérsveitar lögreglunnar? Muna menn eftir umræðum fyrir fáum vikum um nýja greiningardeild ríkislögreglustjóra? Þau viðbrögð bera að mínu mati annaðhvort vott um fullkomna pólitíska tækifærismennsku eða lýsa algeru skilningsleysi á þeim breyttu ógnum sem að öryggi Íslendinga geta steðjað. Ég velti líka fyrir mér hvort af sama toga sé andstaða sumra hv. þingmanna við atriðum eins og þátttöku okkar Íslendinga í hermálanefnd NATO eða friðargæslustörfum eða svo dæmi sé tekið uppbyggingarstarfi í Írak. Ég bendi þessum hv. þingmönnum á að með aðgerðum af þessu tagi eru íslensk stjórnvöld að takast á við breytta heimsmynd, takast á við breyttar aðstæður, nýjar ógnir.

Ég nefndi í upphafi, hæstv. forseti, að í rauninni hafi í þessari umræðu fátt nýtt komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessum efnum. Ég verð þó að segja að hugsanlega, ef marka má orð hv. formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er stefna þess flokks eitthvað að skýrast. Það hefur valdið okkur áhugamönnum um þessi málefni töluverðum áhyggjum á undanförnum árum hversu Samfylkingin hefur verið reikandi í afstöðu sinni til öryggis- og varnarmála. Það er eins og sá flokkur hafi verið gersamlega ófær um að móta sér skýra stefnu á þessu sviði. En það er kannski að gerast núna. Ég vil leyfa Samfylkingunni að njóta vafans í þeim efnum. Ég las það út úr orðum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur áðan að það væri eindregin skoðun Samfylkingarinnar að það bæri að standa vörð um samstarf okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Það er auðvitað fagnaðarefni. Ég gat ekki skilið orð hennar öðruvísi en svo að hér væri að þeirra mati þörf fyrir sýnilegar varnir af einhverju tagi. Það finnst mér töluvert skref. Ef ég hef skilið orð hennar rétt finnst mér það töluvert skref frá þeirri umræðu sem oft hefur átt sér stað um að allt væri óljóst um hvort sú þörf væri fyrir hendi.

Ég velti fyrir mér hvort Samfylkingin hafi algerlega varpað fyrir róða þeim hugmyndum sem voru vissulega uppi innan þess flokks, alla vega fyrir fáeinum missirum og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir m.a. orðaði á fundum, að Evrópusambandsaðild gæti komið í stað varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Ég velti fyrir mér hvort þeirri skoðun hafi algerlega verið lagt og hvort Samfylkingin geri sér nú grein fyrir að varnarhagsmunum Íslendinga sé best borgið í varnarsamstarfi við Bandaríkin og á grundvelli Atlantshafsbandalagsins. Mér finnst það mikilvægt vegna þess eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti í ræðu sinni er Evrópusambandið alls ekki valkostur að þessu leyti.

Hæstv. forseti. Það eru fleiri þættir sem vert væri að koma inn á og mun ég hugsanlega gera það í umræðum á eftir. Ég legg þó áherslu á að mikilvægt er að við náum samstöðu um að (Forseti hringir.) tryggja hagsmuni okkar Íslendinga að þessu leyti en til þess verðum við að gera okkur grein fyrir hvaða ógnir eru (Forseti hringir.) fyrir hendi og hvernig eigi við þeim að bregðast.