132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:57]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti ágæta, skýra og skorinorða ræðu og ég var að mörgu leyti mjög sammála því sem kom fram í máli hans. Hins vegar hnaut ég um eitt og það var þegar hann var að alhæfa um stjórnarandstöðuna og hvernig stjórnarandstaðan hefði hagað málflutningi sínum í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði eitthvað á þá leið að fátt hefði verið um fína drætti varðandi það sem hugsanlega gæti komið í stað þeirrar stefnu sem íslensk stjórnvöld hefðu lagt áherslu á. Að ásakanir um að íslensk stjórnvöld hefðu sofið á verðinum væru með öllu tilhæfulausar og annað þar fram eftir götunum. Þá brá ég nú við og þess vegna langaði mig að koma í ræðustól til að benda einmitt hv. þm. Birgi Ármannssyni á að við í Frjálslynda flokknum sættum okkur ekki við að sitja undir þessum ásökunum.

Strax sumarið 2003 talaði ég fyrir því að við Íslendingar yrðum að leita nýrra leiða til að leysa þessi mál því það væri augljóst að Bandaríkjamenn væru á förum og við yrðum að gera okkur grein fyrir því. Þá hvatti ég mjög til þess, skýrt og skorinort á opinberum vettvangi, að Íslendingar leituðu annarra leiða í varnarsamstarfi og þá innan NATO. Ég get bent hér á tvær greinar. Annars vegar útvarpserindi sem ég flutti í Speglinum í ágúst 2003 og er á vefsíðu Frjálslynda flokksins þar sem ég fer yfir þessa hluti og kem með tillögur sem ég fæ ekki betur séð en íslensk stjórnvöld séu að fylgja nánast orðrétt eftir núna þegar ljóst er að Bandaríkjamenn eru að fara, þ.e. að leita hófanna um hvort ekki sé hægt að finna einhverja fleti á áframhaldandi samstarfi við aðrar NATO-þjóðir. Þetta vildi ég sagt (Forseti hringir.) hafa, virðulegi forseti. Mér fannst ekki rétt að vega að okkur með þessum hætti.