132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:03]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í raun og veru ekkert óskaplega ósammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Það er alveg rétt eins og hann bendir á að Norðmenn t.d. hafa byggt upp öflugar varnir á ýmsum sviðum. Sama má segja um margar aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins, nágrannaþjóðir, jafnvel fremur litlar þjóðir sem þrátt fyrir smæð sína í heimssamhenginu hafa lagt töluvert til varnarmála og hafa talið að þrátt fyrir endalok kalda stríðsins væri mikilvægt að halda uppi öflugum vörnum. Um þetta erum við sammála.

Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að Bandaríkin eru langsamlega öflugasta ríki Atlantshafsbandalagsins. Það ríki sem býr yfir langsamlega bestum tækjum til að standa að vörnum. Þess vegna er rökrétt að fyrst sé reynt að tryggja varnirnar á grundvelli varnarsamstarfs við Bandaríkin áður en aðrir kostir eru skoðaðir.