132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:07]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki var það ætlun mín að gera hv. þm. Ögmundi Jónassyni eða öðrum flokksfélögum hans í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði rangt til í þessum efnum. Ég þekki vel afstöðu þess flokks sem hefur verið skýr í gegnum tíðina og falist í að óþarft væri fyrir okkur Íslendinga að hafa sérstakan varnarviðbúnað eða eiga aðild að varnarbandalagi eins og Atlantshafsbandalaginu. Þetta er alveg skýr og klár afstaða sem enginn hefur verið að velkjast í vafa um í gegnum árin.

Þegar ég sagði að ekki hefðu komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að mínu mati skýrar tillögur um hvernig ætti að bregðast við varnarþörf í breyttu umhverfi ætlaðist ég ekki til þess af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að sá flokkur kæmi með innlegg í það vegna þess að sá flokkur hefur sagt að slíkur viðbúnaður sé óþarfur.

Eins og ég segi er þetta afskaplega heiðarleg afstaða og í sjálfu sér virðingarverð af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en að mínu mati er þetta ekki raunsæ afstaða vegna þess að í heiminum er margs konar vá sem menn þurfa að bregðast við og verja sig gegn. Þótt menn sjálfir séu friðelskandi og friðsamir er staðan samt sem áður sú að menn geta þurft að bregðast við og verjast öðrum sem ekki eru eins innréttaðir. Það er sá veruleiki sem við búum við. Þótt yfirlýsingar um ævarandi hlutleysi eða vopnleysi séu vissulega virðingarverðar þá held ég að þær veiti okkur lítið hald í ótryggum heimi.