132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:10]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að fleiri séu sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni en kjósa hann. Hins vegar er það svo að við höfum haft samanburðinn í gegnum tíðina milli þeirra flokka sem hafa lagt áherslu á að standa vörð um varnir landsins með varnarsamstarfi við Bandaríkin og með aðild að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar þeirra stjórnmálaafla sem barist hafa gegn slíkri aðild. Niðurstaða kosninga í gegnum 60 ár hefur verið afskaplega skýr í þessum efnum. Það er sá mælikvarði sem lagður verður á vilja þjóðarinnar í þessum efnum. En vissulega kann að vera að það séu eitthvað fleiri sem eru sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni en greiða flokki hans atkvæði í kosningum.

Ég efast þó um að hann hafi meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig í þessu máli frekar en í öðrum málum þar sem hann (Forseti hringir.) talar stundum digurbarkalega um mikinn stuðning við sinn (Forseti hringir.) málstað.