132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Út af ummælum hv. þm. Birgis Ármannssonar til hv. þm. Ögmundur Jónassonar þá væri þingmanninum hollt að minnast þess að hér voru einu sinni merkir stjórnmálaleiðtogar sem sögðu að hér ætti aldrei að vera her á friðartímum. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því mjög vel í ræðu sinni í morgun að hann teldi að nú væru friðartímar. Það væri ekki hætta á árásum frá hinum hefðbundna gamla óvini úr kalda stríðinu.

Hv. þingmaður sneri eiginlega á haus gamalli aðferð úr alþjóðastjórnmálum og hann skammaði Kína en átti við Albaníu. Hv. þingmaður spurði nefnilega út í áherslu Samfylkingarinnar á Evrópusambandið hvaða varnir áhrærði. Nú er það svo að aðallega tveir flokkar hafa nefnt þetta. Samfylkingin lítillega en sá sem hefur lagt mesta áherslu á þetta undanfarið er hæstv. forsætisráðherra. Það er Framsóknarflokkurinn.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að til skamms tíma tjóir ekki að leita til Evrópusambandsins um varnir Íslands. Þeir eru ekki í færum til að veita þær. Hins vegar ef horft er til lengri tíma hygg ég að það yrði önnur niðurstaða. Varnarmálin eru í mikilli gerjun innan Evrópusambandsins. Það var ekki jafn mikil samstaða um neitt í undirbúningi stjórnarskrárinnar — sem ekki var samþykkt að lokum — og um þörfina fyrir sameiginlega varnarstefnu. Innri kjarninn í Evrópusambandinu: Frakkland, Þýskaland og Benelux-löndin hefur ráðið öllum breytingum sem þar hafa orðið síðustu 20 árin. Þessar þjóðir eru algerlega sammála um nauðsyn sameiginlegrar varnarstefnu og þótt ekki sé hægt að finna innan Evrópusambandsins svipað ákvæði og 5. gr. í Atlantshafsbandalagssamningnum er alveg ljóst að eins og þróunin er kynni þetta geta orðið að veruleika fyrir árið 2015 sem er (Forseti hringir.) einmitt árið sem „albanían“ í huga hv. þingmanns hefur nefnt sem ár inngöngu í ESB.