132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleðst yfir þeirri blessun sem hv. þingmaður leggur yfir pólitíska skólagöngu mína. Nú man ég ekki lengur hvaða ár hv. þingmaður er fæddur en sennilega í kringum þann merkisatburð í mannkynssögunni lauk ég grunnskólaprófi mínu í pólitík og vil ekki af tillitssemi við mína góðu félaga í Samfylkingunni upplýsa í hvaða stjórnmálaflokki það var.

Hitt verð ég að segja að enn er hv. þingmaður að rekja það fyrir þingheimi hvað það sé fáránlegt að tengja saman varnir og Evrópusambandið. Ég velti fyrir mér af hverju hann leggi svona mikla áherslu á það. Er það vegna þess að það er einn maður sem í þessari umræðu hefur öðrum fremur nefnt aukin tengsl við Evrópusambandið sem lið í auknu öryggi Íslands? Það er hæstv. forsætisráðherra. Er þetta enn einn parturinn af þeim dulda ágreiningi sem virðist vera að koma upp millum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í varnar- og öryggismálum? Ég velti því fyrir mér. (Forseti hringir.)