132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:17]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson eigi ekki að vera að leggja aðra merkingu í orð mín en beinlínis má lesa út úr þeim. Varðandi afstöðu hæstv. forsætisráðherra til Evrópusambandsins hef ég áður sagt úr þessum stól að ég deili ekki þeirri framtíðarsýn hans að Ísland verði komið í Evrópusambandið árið 2015.

Ég held líka að það sé rangt mat hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að Evrópusambandið verði í færum um það árið 2015 að halda uppi öflugri öryggis- og varnarstefnu. Það er fullkomlega óvíst hvert framhaldið á því verður. En mér sýnist að þróunin innan Evrópusambandsins sé ekki í þá átt að þeir sem þar vilja ganga lengst í átt til sameiginlegrar stefnu á þessum sviðum og raunar sameiginlegrar stefnu og dýpkunar sambandsins að öðru leyti, mér sýnast aðstæður og tíðarandinn ekki (Forseti hringir.) vera þeim í hag. Mér finnst því ólíklegt að þróunin verði í þá átt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir.