132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:19]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta ræðu sína þar sem hann öðru fremur dró upp af mynd af stöðu alþjóðastjórnmála nú um stundir. Sem von var lagði hæstv. utanríkisráðherra mesta áherslu á varnarmál okkar Íslendinga og í ljósi þessarar óvissu stöðu sem upp kom eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti um brottflutning varnarliðsins. Í umræðunni sem hefur fylgt hafa eins og eðlilegt er varnarmálin verið þungamiðjan. En við höfum í þessum sal áður rætt þetta gjörbreytta landslag í öryggismálum eftir lok kalda stríðsins og árásanna á tvíburaturnana í New York. Í hugum okkar flestra er það þetta tvennt ef við lítum til baka til sögunnar sem markar afgerandi tímamót.

Eitt af því sem hæstv. utanríkisráðherra fjallaði um í sinni ágætu ræðu var hvernig þyrfti að gera sér skýra grein fyrir því hvernig ný heimsmynd með nýjum ógnum hefði orðið til þess að bæði Bandaríkjamenn og NATO hefðu gerbreytt varnarviðbúnaði sínum og allri hugsun í öryggismálum. Eins og við vitum er hætta á hefðbundnum styrjöldum þjóðríkja ekki lengur helsta ógnin við öryggi alþjóðasamfélagsins. Hins vegar hefur varnarviðbúnaður þjóða og hernaðarbandalaga lengst af miðast við að svara slíkri hættu. En hinar nýju ógnir, svo sem hryðjuverk og skipuleg glæpastarfsemi kalla auðvitað á nýjar lausnir. Ég held að ég sé ekkert að taka of stórt upp í mig um það með því að segja að ekki bara við heldur alþjóðasamfélagið almennt er stöðugt að reyna að fóta sig á því hvernig bregðast eigi við þessu breytta öryggisumhverfi eða þessum breyttu og nýju ógnum.

Það sem hryðjuverkaógnin gerir og felur í sér hversu erfitt er að fóta sig stundum er að hún nýtir sér þessa veikleika sem felast í styrk þjóðfélagsgerðar okkar. Það kann að hljóma þversagnarkennt en helsti styrkur og grunngildi vestrænna þjóða: frelsi, lýðræði, jafnrétti og mannréttindi gera það jafnframt að við stöndum jafn berskjölduð og við gerum stundum gagnvart hryðjuverkamönnum vegna þess að það er mun auðveldara fyrir hryðjuverkamenn að leyna sér og vega úr launsátri í opnu og frjálsu samfélagi sem við viljum standa vörð um en þar sem skorður eru settar við frelsi manna.

Gagnvart hryðjuverkum hafa bein varnarviðbrögð Vesturlanda annars vegar falist í að fara með hernaði á hendur hryðjuverkamönnum og hins vegar hafa þær falist í því vandasama verki að auka mátt og svigrúm lögregluyfirvalda heima fyrir og þá bæði svigrúm lögregluyfirvalda til eftirlits og rannsókna. Vandinn sem nýlega var ræddur í þessum sal í tengslum við frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram felst í að efla varnirnar án þess að þrengja að grunngildum eins og mannréttindum og réttarstöðu borgaranna.

Víða í hinum vestræna heimi og hjá nánustu nágrannaríkjum okkar hefur milljónum og milljörðum verið varið í að styrkja heri, leyniþjónustur og löggæsluyfirvöld. Sá viðbúnaður hefur eftir því sem fréttir segja komið í veg fyrir margar hrottalegar og alvarlegar árásir. En við höfum líka dæmi um voðaverk sem ekki hefur tekist að koma í veg fyrir, eins og hryðjuverkin í London og Madrid.

Bandaríkjastjórn horfir til þessara breyttu aðstæðna og þær liggja til grundvallar umfangsmiklum breytingum sem Bandaríkjastjórn hefur gert á herafla sínum. Í ljósi þess að vettvangur óstöðugleika og átaka hefur færst til í heiminum er stefnt að því í Bandaríkjunum að fækka um helming í herliði þeirra í Evrópu með tilheyrandi lokun varanlegra stórra herstöðva. Í staðinn er í stefnu Bandaríkjamanna lögð aukin áhersla á uppbyggingu og þjálfun viðbragðssveita sem hægt er þá að beita með litlum fyrirvara hvar sem er í heiminum með því að taka á ógnum sem eru fjarlægar slíkum höfuðstöðvum.

Þessi endurskipulagning á herafla Bandaríkjamanna er um margt skiljanleg og boðar brotthvarf varnarliðsins, ber að skoða í því ljósi. Þrátt fyrir að friðvænlegt sé um að litast í okkar heimshluta nú um stundir og ekki liggi endilega ljóst fyrir hvaðan okkur stafar mest hætta þá eru hinar nýju óhefðbundnu ógnir einmitt þess eðlis að þær gera ekki boð á undan sér. Til skamms tíma þótti hryðjuverkaógnin mjög fjarlæg okkar norðlægu slóðum. En nú er hún staðreynd vegna þess að deilur, átök og skemmdarverk í kjölfar birtingar Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni minna okkur óþyrmilega á að hætta getur steðjað að okkar heimshluta, ekkert síður en öðrum heimshlutum. Við verðum að vera undir það búin að mæta þessum hættum.

Áhersla ríkisstjórnarinnar á loftvarnir er að þessu leyti að mínu mati hárrétt. Við verðum að hafa í huga að tugþúsundir flugvéla fljúga um íslenska flugstjórnarsvæðið á hverju ári. Við þekkjum annars staðar frá í heiminum hrikalegar afleiðingar þess að hryðjuverkamenn nái flugvélum á sitt vald. Þess vegna finnst mér alveg ljóst að Íslendingar geti ekki verið án varna.

Þegar við tölum um varnir og nýjar ógnir verðum við á ákveðinn hátt að gera greinarmun annars vegar á því sem ógnað getur lögsögu og fullveldi íslenskrar þjóðar og þá erum við að tala um árásir óvinaríkja. Hins vegar tel ég að við þurfum í þeirri umræðu sem fram undan er að greina á milli þessa og hins vegar almannavarna í mjög víðtækum skilningi þess orðs, þ.e. vörnum almennra borgara gagnvart þessum nýjum ógnum og hvers konar annarri vá. Þótt við séum að ræða utanríkismál finnt mér ástæða til að halda þessu til haga vegna þess að segja má að utanríkismál fyrst og fremst fjalli um hernaðarógnir og varnarmálaumræðan sem tengist varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og brottflutningi þess fjallar fyrst og fremst um það og það eru utanríkismál. Svo eru almannavarnir almennt á ákveðinn hátt líka utanríkismál vegna þess að í nútíð og framtíð hljótum við að standa vörð um varnir borgaranna gagnvart öðrum ógnum í víðtæku samstarfi og með samningum við önnur ríki. Hvort sem við horfum þar til okkar næstu nágranna eða annarra Evrópuþjóða eða á vettvangi þeirra þjóða sem starfa innan NATO. Það eru innanríkismál í rauninni sem það varðar. Það lýtur að innra öryggi borgaranna gagnvart annarri vá og öðrum ógnum en beinlínis hernaðarlegum ógnum.

Í þessari umræðu ekki síst nú á dögunum þegar við vorum m.a. að ræða nýtt frumvarp frá ríkislögreglustjóra sem fjallaði um að fækka og stækka lögregluumdæmum landsins og koma á fót svokallaðri greiningardeild þá er þetta öryggi borgaranna stundum haft í flimtingum. Höfð m.a. í flimtingum þessi greiningardeild sem talað var um að koma á fót og hvort þörf væri fyrir hana. Það er stundum gefið til kynna í umræðunni um varnarmál að ekkert hafi verið gert af hálfu stjórnvalda. Við höfum ekkert hugað að því að mæta breyttum tímum, annars vegar því að varnarliðið færi brott og hins vegar að bregðast við þessum breyttu tímum og þessum nýju ógnum.

Mig langar í þessari umræðu, frú forseti, að nefna nokkur atriði sem mér finnst mjög mikilvæg í þessu samhengi og mér finnst að við ættum meira að hafa í þessari umræðu og horfa þá til þess sem við þá þegar höfum gert. Þar á meðal má nefna nýja fjarskiptastöð lögreglunnar sem er samræmd landsdekkandi öryggis- og neyðarfjarskiptakerfi fyrir alla þá viðbragðsaðila sem koma almennt að öryggismálum þjóðarinnar. Það er eitt sem hefur verið komið á fót og hefur verið unnið að mörg undanfarin ár. Þeir sem koma að þessari samhæfingarstöðu eru allir þeir aðilar sem þurfa að koma að almannavörnum í víðasta skilningi þess orðs, þ.e. lögreglustjórarnir, Flugmálastjórn, Landhelgisgæslan, slysavarnafélög, Neyðarlínan, landlæknir, sóttvarnalæknir, Rauði krossinn og fleiri, Vegagerðin og svo ýmsar vísindastofnanir.

Það má segja í rauninni sem svo að það sem við þurfum að gera sé að koma á fót skipulagi sem miðar að því að vernda og aðstoða borgarana og tryggja vernd þeirra gagnkvæmt ýmsum öðrum ógnum, takast á við afleiðingar slysa og náttúruhamfara og svo auðvitað það sem alltaf er verið að ræða aftur og aftur og mönnum finnst ekki endilega nærtækast, þ.e að takast á við hættur eða ógn af mannavöldum vegna hryðjuverka. Ég held að óhætt sé að halda því fram að við búum að einu besta almannavarnaskipulagi til að glíma við hvers konar svona afleiðingar og ekki eingöngu vegna stríðsástands heldur vegna annarra ógna og erum meðal fyrstu þjóða til að beita almannavarnaskipulagi gagnvart öðrum ógnum en stríðsástandi.

Ég vil líka í þessu samhengi leggja áherslu á að það var búið að koma á fót svokallaðri sérsveit lögreglunnar strax árið 1982. Tilefni þess var ærið á sínum tíma og sýndi þörfina á að íslenska lögreglan hefði burði til að takast á við alvarlegustu tilvik, hryðjuverkatilvik. Síðan hefur statt og stöðugt og síðast að mig minnir á síðasta ári verið leitast við og veitt fjármagn til að efla þessa sérsveit. Við verðum í þessu samhengi að hafa í huga að á Norðurlöndunum öllum og reyndar í öllum löndum Evrópu er það fyrst og fremst hlutverk lögreglu að takast á við hryðjuverkastarfsemi. Það gætir oft þess misskilnings í almennri umræðu að það sé hlutverk herja landanna. En meira að segja í sumum löndum er lögreglu heimilt að leita aðstoðar hers í svona tilvikum. Í öðrum tilvikum er það bannað. Herinn höfum við engan.

Þetta er það sem ég vildi, frú forseti, leggja aðaláhersluna á að við reynum að dýpka og víkka aðeins þessa umræðu þegar við erum að tala um öryggismálin og ógnirnar sem að okkur steðja. En að við bindum okkur ekki og festumst í þeim hjólförum að tala einungis um varnarliðið í því samhengi. Það er margt annað sem við þurfum að gefa góðan gaum í þessu samhengi.

Mig langaði að endingu, frú forseti, vegna þess að orð hæstv. utanríkisráðherra um rekstur Keflavíkurflugvallar virðast hafa vakið mesta athygli og kannski að ófyrirsynju. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því sem sinni framtíðarsýn að rekstur flugvallarins yrði einkarekinn og jafnframt að hann yrði einkavæddur til lengri tíma litið. Það er spurning hvort það er fyrsta og fremsta viðfangsefnið í dag að horfa til rekstrarformsins á Keflavíkurflugvelli. Ég held að það sé ýmislegt annað sem standi okkur nær en. En sjálfsagt að hæstv. ráðherrann geri grein fyrri sinni framtíðarsýn.

Ég verð hins vegar að segja hvað varðar rekstur og rekstrarþætti flugvallarins sem slíks, snjómokstur, slökkvilið og annað að ég svo sem ekkert því til foráttu að það sé rekið í einhverju öðru rekstrarformi en beinlínis undir formennsku ríkisins. Ég vil hins vegar árétta að allt sem lýtur að rekstrinum þarna og Keflavíkurflugvelli sem landamærastöð og öryggiseftirlitinu sem þarna fer fram, hvort sem það er hlutverk til viðbótar hlutverki lögreglu og tollgæslu, þá samræmist það ekki minni framtíðarsýn að það sé einkavætt. Ég tel að slík verkefni eigi áfram sem hingað til að vera á höndum ríkisins og bý kannski að þeirri reynslu sem líður mér seint úr minni þegar ég fór í gegnum tiltekinn flugvöll í Boston, Logan-flugvöll, einum þremur vikum eftir hryðjuverkaárásirnar í New York og sá og þóttist skilja hvers vegna flugræningjarnir sem flugu á tvíburaturnana höfðu valið þennan flugvöll vegna þess hve öryggiseftirlitinu var þar háttað. Ég las seinna að hann hefði fengið lægstu einkunn allra flugvalla í Bandaríkjunum. Svo þegar ég spurðist nánar út í þetta var mér sagt að þetta væri einkarekstur. Einkavædd öryggisgæsla.

Ég gæti lýst því með ýmsu látbragði hvernig staðið var að því að leita að vopnum bæði í farangri og líka á okkur sem fórum þarna í gegn. Það má eiginlega segja að eftir þessa reynslu mótaðist þessi afstaða mín sem ég held að verði seint breytt: Flugvöllinn getum við rekið, snjómokstur, verslanir og aðra þjónustu sem einkarekstur en allt sem lýtur að öryggi og landamæravörslu lít ég þannig á að til lengri tíma litið eins og nú eigi að vera verkefni ríkisins.