132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sem skipti meginmáli í umræðunni sem hér hefur snúist að mestu leyti um varnar- og öryggismál sé að breið samstaða takist með sem flestum flokkum um burðarásana í utanríkisstefnu Íslands. Það hefur tekist í áratuganna rás. Nokkuð víðtæk samstaða hefur verið um það sem kalla má grundvallarþætti í utanríkisstefnu Íslendinga. Að því er varnir og öryggi áhrærir hafa flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og jafnaðarmenn á síðustu öld verið í stórum dráttum sammála um að grundvallarásinn í vörnunum hafi verið Atlantshafsbandalagið. Útfærsla varnarsamningsins við Bandaríkin hefur sömuleiðis verið hinn öxullinn og kannski sá sem segja má að hafi fólgið í sér hina raunverulegu útfærslu.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hefur margsinnis komið fram, að það skipti miklu máli að viðhalda þessari breiðu samstöðu. Hv. þm. Birgir Ármannsson gat þess í ræðu sinni áðan að andstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri ljós í þessum efnum. Það er alveg rétt. Þarna er alveg klár munur á Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við í Samfylkingunni höfum talið að Atlantshafsbandalagið eigi að vera ein af grundvallarstoðunum þarna og tvíhliða samningurinn líka.

Þetta er það sem skiptir máli í upphafi umræðunnar að minnsta kosti af minni hálfu. Ég tel að í þeirri stöðu sem nú er komin upp sé það alls ekkert sjálfgefið að menn haldi áfram þessum tvíhliða samningi. Ég held hins vegar að við eigum að skoða alla þá kosti sem felast í stöðunni, þar á meðal hvaða kostir felast í að útfæra hann með nýjum hætti. Það er hugsanlegt að það fullnægi þeim þörfum sem við höfum í dag. En það er líka hugsanlegt að út úr þeim samningaviðræðum sem nú eru í gangi við Bandaríkjamenn komi einhver niðurstaða sem leiði til þess að hvorki sé þörf á þessum tvíhliða samningi né heldur rétt sé af okkur við þessar aðstæður að byggja varnir okkar á honum. Mér finnst skipta mestu að við skoðum hvaða kosti við eigum. Einn af þeim kostum er sá að útfæra tvíhliða samninginn. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt að í krafti þeirra skuldbindinga sem koma fram í samningnum og Bandaríkjamenn hafa ítrekað að þeir vilji standa við, sé líklegt að við náum niðurstöðu sem feli í sér nægilegar varnir a.m.k. varðandi hugsanlega hernaðarvá. Það kann vel að vera að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða.

Á hinn bóginn hafa líka komið fram hugmyndir um að við eigum að skoða samstarf á annan hátt. Ég er t.d. einn af þeim sem eru þeirrar skoðunar að við þessar aðstæður eigi menn að kanna hvaða kostir felast í aukinni samvinnu núna og síðar við Evrópusambandið. Ég er að þessu leytinu til sammála formanni Framsóknarflokksins sem hefur sagt alveg skýrt að þetta sé eitt af því sem eigi að kanna. Hitt vil ég þó segja alveg skýrt að eins og staðan er í dag innan Evrópusambandsins er enginn vafi í mínum í huga að Evrópusambandið núna er ekki fært um að tryggja varnir Íslendinga. Við þurfum hins vegar að skoða hvaða þróun er þar í gangi.

Ég tel af þeirri takmörkuðu vitneskju sem ég hef en þó nokkra af þróun þeirra mála að hún sé slík að það gæti orðið breyting á þessu innan tiltekins tíma. Það eru sennilega fáir málaflokkar innan Evrópusambandsins þar sem þróunin er jafnör og nákvæmlega í þessum efnum. Innri kjarni Evrópusambandsins, Frakkland, Þýskaland og Benelux-löndin hafa alltaf verið drifkraftur breytinga innan Evrópusambandsins. Við þurfum ekki annað en að horfa til myntbandalagsins til að sjá það. Hægt er að nefna fleiri dæmi. Reynslan hefur sýnt að það sem þessi lönd vilja, því ná þau fram. Ef þau ná ekki samstöðu innan Evrópusambandsins um þætti sem þau telja knýjandi fara þau ein af stað. Reynslan sýnir að þau rífa Evrópusambandið með sér. Staðan innan Evrópusambandsins í varnarmálum er breytt að því leyti til líka að fleiri ríki eru komin þar inn sem horfa með nokkuð jákvæðum hætti til þess að Evrópusambandið taki að sér aukið varnarhlutverk. Það er nauðsynlegt í þessum efnum að gera sér grein fyrir að þegar undirbúningur var í gangi fyrir stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem síðar var felld, voru ákveðin atriði sem enginn ágreiningur ríkti um. Það ríkti t.d. enginn ágreiningur um að stefna bæri að sameiginlegri varnarstefnu.

Ég tel að þetta hljóti að vera einn þeirra þátta sem þurfi að skoða á þeim tímamótum sem Íslendingar standa í dag. Við þurfum í því ferli að gera okkur grein fyrir hvaða möguleikar eru með auknu samstarfi við Evrópusambandið. Ég vísa sérstaklega til þess í þessu samhengi að innan Alþingis Íslendinga eru stjórnmálaflokkar sem vilja ganga nær Evrópusambandinu. Samfylkingin hefur sagt alveg skýrt að hún telur að láta eigi á það reyna. Ég hef mörgum sinnum sagt að ég tel að Íslandi væri betur borgið innan sambandsins en utan. Ég tel að þróunin í varnarmálunum auki frekar á gildi slíkrar þátttöku. En formaður Framsóknarflokksins hefur líka sagt þetta. Hann hefur meira að segja gengið lengra og sagt það alveg skýrt að hann telji að árið 2015 verði Ísland komið inn í Evrópusambandið. Þetta þurfum við allt að skoða þegar við förum yfir þá mynd sem blasir við núna. Þá skiptir máli að gera sér grein fyrir því.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur áréttað mjög rækilega í ræðu sinni fyrr í dag að allt umhverfið er breytt. Hann nefndi sérstaklega að hefðbundnir óvinir á hernaðarsviði, eins og Rússar, eru ekki lengur fyrir hendi. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega að okkur stafaði ekki lengur nein ógn af þeirri þjóð. Samningsaðili okkar í þeim tvíhliða samningi sem nú er í gangi gengur lengra og segir það hreint út að okkur stafi engin hernaðarógn af neinni þjóð í okkar heimshluta. Þá er spurningin við þessar aðstæður hvort við getum ekki gefið okkur góðan tíma til að vega og meta þá kosti sem eru fyrir hendi og velta því fyrir okkur hvort hugsanlega í framtíðinni væri hægt að ná svipuðu stigi öryggis og varna í tengslum við Evrópusambandið alveg eins og Eystrasaltslöndin hafa í dag. Þetta er auðvitað ekki sjálfgefið. Ég er ekki að slá því föstu að þetta sé afdráttarlaust mögulegt. En ég tel að þetta sé sterkur möguleiki og ég er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé að þróast með þessum hætti

Þegar ég nálgast þessi varnar- og öryggismál skipti ég þeim, ólíkt hv. þm. Jónínu Bjartmarz, gjarnan fyrir sjálfum mér í tvennt. Annars vegar varnarþáttinn og hins vegar öryggisþáttinn. Ljóst er að það er miklu brýnni tímanlegri nauður sem rekur okkur til einhvers konar lausnar á þeim vanda sem blasir við í öryggismálunum núna þegar sú staða er allt í einu komin upp að Bandaríkjamenn ætla í burtu. Við höfum í áranna rás byggt upp mjög mikilvægt samstarf við þá varðandi öryggi á hafinu. Þetta samstarf hefur bjargað hundruðum mannslífa. Við sem fiskveiðiþjóð getum að sjálfsögðu ekki hugsað til þess að fara inn í veturinn þegar veður eru válynd án þess að vera búin að binda alla hnúta þar. Við þurfum að gera þetta tiltölulega hratt en hefðum getað gefið okkur meiri tíma til að undirbúa þetta. En við þurfum líka að horfa til framtíðar í þessum efnum.

Þá verðum við að skoða landfræðilega legu Íslands. Við verðum líka að skoða hvaða breytingar eru að verða í kringum okkur. Í umræðunni kom fram hjá tveimur eða þremur hv. þingmönnum að staða Norðmanna er að breytast að því leyti til að þeir hyggja nú á miklu meiri olíu- og gasvinnslu í norðurhöfum en áður og umferð um íslenska hafsvæðið frá norðri verður meiri af þeim sökum. Það leggur okkur ríkari skyldur á herðar, en líka þeim. Við þurfum að sjá um öryggið á því mikla hafsvæði, en það leggur líka ákveðnar skyldur þeim á herðar.

Norðmenn eru þess vegna þjóð sem við hljótum að skoða samstarf við varðandi öryggið á hafinu. Sömuleiðis blasir það við að jafnvel þó við mundum verða okkur úti um þau tæki sem Landhelgisgæslan hefur skilgreint að þurfi til að geta tryggt nægilegt öryggi á hafinu, þá eru ákveðin svæði sem við munum eigi að síður eiga erfitt með að sinna. Ég nefni t.d. svæði sem er syðst í efnahagslögsögu okkar og utan hennar á Reykjaneshrygg og suður fyrir suðurodda Grænlands. Það gerir að verkum að við hljótum líka að leita samstarfs þá við Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands. En síðan má ekki gleyma öflugum nágranna okkar í vestri sem við rekjum nú mikinn skyldleika til, þ.e. Kanadamenn. Það er líka ljóst að umferð af þeirra hálfu á þessu svæði mun aukast. En landfræðileg lega þeirra er líka þannig að óhjákvæmilegt er annað en að við skoðum við þessi tímamót með hvaða hætti og hvort við getum tekið upp einhvers konar öryggissamstarf við þá á hafinu.

Ég held að núna við þær aðstæður sem ríkja þurfum við að skoða þennan þátt, öryggisþáttinn, og þá séu það þessar fjórar þjóðir sem við þurfum sérstaklega að kanna hvort hægt sé að ná öflugu samstarfi við á næstu árum til að tryggja öryggi þeirra sem fara um hafsvæði okkar. Síðan þurfum við að einbeita okkur að því hvernig vörnum landsins verður best við komið. Það er tvíhliða samningurinn, eins og fram hefur komið hjá hæstv. utanríkisráðherra. En við verðum líka að skoða þá möguleika sem felast í aukinni samvinnu við Evrópuþjóðirnar.

Þetta eru þeir þættir sem ég vildi leggja mesta áherslu á. Ég hef áður gagnrýnt hæstv. utanríkisráðherra fyrir að mér finnst ríkisstjórnin hafa verið ákaflega sein til varðandi öryggisþáttinn. Það mátti vera ljóst fyrir lifandis löngu í hvað stefndi. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur ítrekað í dag spurt eftir stefnu Samfylkingarinnar. Hann hefur talað eins og Samfylkingin hafi ekki lagt fram neinar hugmyndir í þessum efnum. Samfylkingin tók einmitt sérstaklega fyrir öryggisþáttinn og nauðsynlegt samstarf sem þyrfti til að Íslendingar gætu tekið það að sér, sem var tillaga Samfylkingarinnar í skýrslu sem hún sendi frá sér, að mig minnir í mars árið 2004. Því er með engu móti hægt að segja að ekki hafi verið aðdragandi að þessu. Sömuleiðis er óhjákvæmilegt þegar menn ræða öryggismálin að rifja upp að Landhelgisgæslan gerði seint á síðasta ári opinskáar ákveðnar hugmyndir sem hún hafði um nauðsynlegan tækjabúnað sem þyrfti að afla svo Íslendingar gætu tekið þetta að sér. Mér er reyndar kunnugt um að slíkar áætlanir hafi verið töluvert lengur á ferli á djúpu hafi innan Landhelgisgæslunnar. Menn hafa vitað í hvað stefndi. Hún lagði jafnframt fram kostnaðargreiningu og miðað við þær tölur sem þar komu fram, 7–8 milljarðar, mætti ætla að ýmsu viðbættu að kostnaður við það væru 10 milljarðar.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra var spurður út í þetta í lok nóvember á síðasta ári talaði hann með þeim hætti að þetta væri óþarft. Hann var spurður sérstaklega að því af fréttamanni Ríkisútvarpsins hvort ekki væri þörf á úttekt af þessu tagi. Hæstv. ráðherra svaraði því einfaldlega til að það væri ekki tímabært. En auðvitað var það fyrir lifandis löngu tímabært.

Frú forseti. Það eru örfáir þættir aðrir sem mig langar í lok ræðu minna að drepa á. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í andsvari fyrr í dag hvort hann væri ekki sammála þeirri skoðum sem hefur komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að ef menn hefðu haft í höndunum þá vitneskju sem þeir hafa nú um stöðu gereyðingarvopna við upphaf innrásarinnar í Írak í því landi, þá hefðu þeir ekki veitt stuðning Íslands við innrásina. Þá kom alveg skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra, hann talar með þeim hætti að ég get ekki dregið aðra ályktun af því en hann telji að innrásin og stuðningur við hana hafi verið mistök. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að þessu í morgun og mér til mikillar furðu sat hann fast við sinn keip. Hann er bersýnilega þeirrar skoðunar að enn sé hægt að réttlæta stuðning Íslands við innrásina í Írak.

Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa algerri andstöðu við það sjónarmið. Ég tel að það sé svartasti bletturinn á ferli núverandi ríkisstjórnar. Ég tel að ekkert hafi gerst í sögu hennar sem hefur verið jafnskammarlegt og sem hefur verið jafnilla staðið að og einmitt það. Við sjáum afleiðingarnar. Landið er á barmi borgarastyrjaldar. Enginn endir er í augsýn varðandi átökin sem þar eru. Írak er orðið að gróðrarstíu fyrir hermdarverkamenn og þaðan streyma menn í önnur lönd sem eru reiðubúnir til að inna af höndum hræðilega glæpi. Auðvitað sáu menn þetta ekki fyrir. En hins vegar hefðu menn á þeim tíma átt að fara að lögum og þeir hefðu átt að taka þessa ákvörðun með öðrum hætti en í skjóli nætur bara af tveimur mönnum eftir samráð við sendiherra Bandaríkjanna.

Það er rétt að rifja hér upp að innan Framsóknarflokksins hefur verið mikil andstaða við þetta. Yfirgnæfandi hluti fylgismanna flokksins, þeirra sem eftir eru, eru á móti þessum kafla í sögu flokksins. Einstakir þingmenn hafa reifað andstöðu sína við það, m.a. varaformaður flokksins.

Frú forseti. Ég tel að nauðsynlegt sé að læra af þessu. Eitt af því sem við eigum að læra er að ráðamenn eiga aldrei að hrapa að ákvörðunum eins og þessari. Þeir verða að sinna lögunum og leggja svona ákvarðanir undir utanríkismálanefnd á þann hátt sem lög kveða á um.