132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:49]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæst. forseti. Það eru helst tvö atriði í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem mig langar til að staldra við. Annars vegar mátti ráða af ræðu hans breytta afstöðu Samfylkingarinnar, að því er ég tel, gagnvart því að einhverja lausn sé að finna á öryggis- og varnarmálum Íslands í sambandi við Evrópusambandið. Hann hefur raunar greinilega þá framtíðarsýn að Evrópusambandið kunni einhvern tíma í óskilgreindri framtíð að verða þess eðlis að það hafi eitthvert afl á þessu sviði en hv. þingmaður viðurkennir að það sé ekki raunsætt að líta til sambandsins í því samhengi, a.m.k. ekki að svo stöddu eða til skemmri tíma. Mér finnst áhugavert að heyra þetta frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni vegna þess að á undanförnum árum hafa ýmsir flokksfélagar hans talað á þann veg að þarna mætti finna einhverja lausn á breyttri stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Varðandi þetta atriði eða framtíðarsýnina að þessu leyti þá nefndi ég áðan í umræðunni að mér sýnist hafa komið verulegir hikstar í þróunina í átt til dýpkunar á samstarfi Evrópusambandsríkjanna og til útvíkkunar á starfssviði þess um leið. Ég held að það sé með engu móti hægt að spá því eins og hv. þingmaður gerir að þróunin verði í þá veru, sem ýmsir stjórnmálamenn og embættismenn innan Evrópusambandsins vissulega vilja, að Evrópusambandið taki öryggis- og varnarmálin yfir. Ég á ekki von á því, ég held að þróunin verði í aðra átt.

Varðandi hitt atriðið verð ég að gera athugasemd við þau ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar (Forseti hringir.) að stefna Samfylkingarinnar hafi verið skýr í þessum efnum og (Forseti hringir.) minni á að á flokksþingi 2005 reyndist (Forseti hringir.) flokknum ómögulegt að koma sér saman um niðurstöðu í þeim efnum.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða ræðutímann.)