132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skoða þetta út frá þeirri þróun sem er innan Evrópusambandsins. Ég sagði alveg skýrt að ég teldi að í bráð væri staðan innan Evrópusambandsins þannig að það gæti ekki tryggt varnir Íslands. En hv. þingmaður má ekki gleyma því að við erum innan Atlantshafsbandalagsins og 5. gr. þess bandalagssamnings veitir okkur vörn. Hún segir að verði ráðist á eitt ríki sé það árás á þau öll. Við njótum sem sagt verndar Atlantshafsbandalagsins.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt það sjálfur að engir hernaðarváboðar séu í augsýn. Ég er því þeirrar skoðunar að innan tíu ára hafi Evrópusambandið breyst að því leyti til að það yrði kleift fyrir sambandið að veita okkur þá tryggingu sem á þarf að halda. Við yrðum samt innan Atlantshafsbandalagsins fram að því og eftir það og nytum eftir sem áður þeirrar verndar sem 5. gr. í stofnsamningi bandalagsins veitir okkur. Það ættu því ekki að vera hundrað í hættunni.

Ég tel að varnar- og öryggismálin séu aukin ástæða fyrir okkur til að skoða aðild að Evrópusambandinu. Það ásamt þeim sérkennilegu hræringum sem orðið hafa á stöðu íslensku myntarinnar ætti líka að vera önnur ástæða. Niðurstaða mín er sú að eins og tímarnir eru að þróast og eins og staðan er í dag séu komin upp ýmis atriði sem gera það að verkum að við ættum að skoða aðild að Evrópusambandinu miklu nánar en áður. Það er í fyrsta lagi staða krónunnar og nauðsyn okkar að taka upp evru hér á landi, ég tel að það sé ekki hægt nema við göngum í Evrópusambandið. Í öðru lagi eru það varnar- og öryggismálin. Ég tel að eftir tíu ár verði Evrópusambandið komið með sameiginlega varnarstefnu og nægilegt afl til þess að geta tryggt öryggi þjóðar eins og Íslendinga, sérstaklega miðað við þá stöðu sem er í okkar heimshluta. Í þriðja lagi tel ég að sú vernd sem við höfum af veru okkar í Atlantshafsbandalaginu hljóti að vera mikil trygging fyrir öryggi okkar ef í einhvers konar odda skerst með ófyrirséðum hætti í dag.