132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:56]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þrátt fyrir hina ágætu orða-akróbatík hv. þm. Birgis Ármannssonar sem klifar á því að stefna Samfylkingarinnar sé óljós í þessum efnum þá hefur hún legið fyrir sennilega fjögur síðustu ár. Það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að skömmu eftir stofnun Samfylkingarinnar hafi hún ekki verið með niðurneglda stefnu í þessum málum. En a.m.k. töluvert inn í það tímabil sem ég var formaður Samfylkingarinnar lá það alveg ljóst fyrir að Samfylkingin byggði á ferns konar stoðum í utanríkisstefnu sinni, aðild að Norðurlandaráði, Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og um varnir og útfærslu tvíhliða samningsins. Þetta hefur legið alveg skýrt fyrir. Það sem hefur hins vegar vantað á að þetta hafi verið fullnægjandi er auðvitað sú staðreynd að utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins hefur verið fylgt með þeim hætti (Gripið fram í.) að það hefur ekki tekist að ná útfærslu á tvíhliða samningnum. Hæstv. utanríkisráðherrum Sjálfstæðisflokksins og þar á undan Framsóknarflokksins mistókst í að tryggja samstarfið við Bandaríkin. Allt sem þeir hafa sagt um mikilvægi þess að hafa hér herþotur hefur hæstv. utanríkisráðherra étið ofan í sig, síðast í dag. Nú er engin nauðsyn á því. Allar þær bumbur sem barðar voru um nauðsyn þess að hafa amerískt herlið á Íslandi eru sprungnar, þær liggja eins og hráviði, brotnar úti í móa. Nú koma talsmenn Sjálfstæðisflokksins og segja án þess að blikna að það sé nægilegt að hafa, eins og mig minnir að hæstv. utanríkisráðherra hafi orðað það í morgun, „færanlegar flugsveitir“. Er það virkilega svo að við eigum að láta það duga sem varnir að það séu hugsanlega einhverjar sveitir í Englandi eða Ameríku sem komi hingað stundum? Eigum við að fallast á að hér á landi verði einhvers konar fjórða flokks herstöð, þ.e. tóm hús og ein flaggstöng, og svo geti Ameríkanar komið þegar þeir vilja og þegar þeim hentar? Það finnst mér ekki sæmandi (Forseti hringir.) sjálfstæðri fullvalda þjóð.