132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu þar sem komið var að ýmsum stórum málum sem lúta að utanríkismálum og mig langar til að leggja orð í belg eftir því sem tími leyfir og ástæða er til að fara yfir af því fjölmarga sem hægt er að taka til umfjöllunar undir þessum lið.

Ég vil fyrst staðnæmast við þá stöðu sem uppi er í samningum við Bandaríkjamenn um dvöl erlends herliðs hér á landi. Það er mjög athyglisvert að það skuli hafa orðið niðurstaðan hjá Bandaríkjamönnum að taka einhliða ákvörðun um að kalla hersveitir sínar heim. Það er líka mjög athyglisvert sem fram kemur í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að í raun hafi engin hætta verið skilgreind hér á landi eftir að múrinn hrundi árið 1989 eða þegar Sovétríkin féllu saman tveimur árum síðar. Þetta er í raun og veru í samræmi við sjónarmið mín í þessum efnum, að eftir að þeir atburðir urðu sem ég nefndi þá hafi ekki verið neinar forsendur til að halda því fram að hér á landi væri nokkuð hættuástand sem kallaði á að við þyrftum að hafa erlent herlið hérlendis okkur til varnar.

Það er líka athyglisvert sem kemur fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og alveg í samræmi við skoðanir mínar eða mat mitt, en hér kemur fram að eftir að þessir atburðir gerðust fyrir hálfum öðrum áratug þá stafi engin hætta af Rússlandi.

Ég vil rifja það upp að þegar Íslendingar féllust á að hér yrði erlent herlið skömmu eftir síðari heimsstyrjöld þá var það sammæli allra þeirra sem að því stóðu að íslenskur her yrði hér ekki á friðartímum. Ég hygg að almenn sátt hafi verið meðal þjóðarinnar um að hafa þann skilning á málinu að herinn væri hér okkur til varnar meðan ófriðlega horfði í okkar heimshluta og þegar það ástand hefði breyst og friðvænlegt væri orðið væri engin ástæða til að hafa her og hann ætti þá að fara. Miðað við þetta stöðumat er nú orðið ljóst, hálfum öðrum áratug eftir að þeir atburðir gerðust sem leiddu til þess að hingað kom her, að eðlilegt er að herinn fari og ég fagna því. Ég hef ætíð verið í hópi þeirra manna sem líta svo á að sjálfstæð þjóð eigi ekki að hafa erlendan her í sínu landi nema þegar aðstæður eru með þeim hætti að hún þurfi á því að halda til að verja sína hagsmuni. En það er að mínu mati hluti af sjálfstæði þjóðar að vera ekki með erlendar hersveitir í landinu jafnvel þó þær séu vinveittar.

Ég held að í þeirri stöðu sem við erum í núna þurfum við auðvitað að svara ákveðnum spurningum. Það liggur fyrir að það er ekki nein hætta sem að okkur steðjar og það er ekki ástæða til að hafa hér erlendan her og þá þurfa menn að vita, eins og hæstv. ráðherra varpar fram í ræðu sinni, hvað telst fullnægjandi og æskilegur varnarviðbúnaður okkar vegna. Ég held að íslensk stjórnvöld eigi að kappkosta að svara því fyrir sitt leyti, marka sér ákveðna stefnu í þeim efnum þannig að við höfum sjálfstætt mat á því hvað við teljum nauðsynlegt að sé fyrir hendi og síðan geta þau unnið út frá þeirri stefnumörkun. Ég tel að aðild að NATO sé ef til vill fullnægjandi. Ég er að mörgu leyti sammála því sem fram kemur í ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann lítur á NATO sem nokkurs konar vátryggingafélag og ég hygg að það megi færa sannfærandi rök fyrir því að aðildin að NATO ein og sér sé fullnægjandi til að tryggja hagsmuni okkar um þessar mundir.

Mig langar aðeins að drepa á eitt atriði sem tengist þessu sem hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum en minna í þessari umræðu í dag en það eru áhrifin af brottför hersins á atvinnumál. Mig langar að draga fram nokkrar staðreyndir í þeim efnum til að benda á að áhrifin eru minni en ætla mætti og ekki ástæða til að menn fyllist miklum ótta um að alvarlegt ástand kunni að vera fram undan á Suðurnesjum þar sem af eðlilegum ástæðum hefur verið mest um störf á vegum hersins.

Í upphafi síðasta árs voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins um 640. Ef við skoðun þróun á Suðurnesjum á síðustu 6 árum, frá 1998–2004, þá hefur þeim sem starfa þar samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgað um 540 á þeim sex árum. Ég hygg að ég geti fullyrt að þeim hafi fjölgað á síðasta ári líka því það er mjög mikill þróttur í byggingarstarfsemi á Suðurnesjum eins og allir sjá sem þar keyra um, þar er verið að byggja gríðarlega mikið af íbúðum og verið að gera lóðir byggingarhæfar, þannig að það hefur verið mikil fjölgun á störfum á síðustu árum og svo líka hitt að Suðurnesin eru auðvitað hluti af vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins og um það bil helmingur þeirra sem starfa á vegum hersins eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu þannig að áhrifin á íbúafjölda á Suðurnesjum verða þá ekki nema í mesta lagi um það bil helmingurinn af þessum störfum ef allt fer á versta veg, um 300 störf sem eru þá ekki nema 3% eða 4% af heildarvinnuafli svæðisins.

Því til viðbótar vitum við að allmörg störf verða áfram við flugvöllinn þrátt fyrir að herinn fari þannig að ef við tökum tillit til allra þessara þátta og svo þess sem ég hygg að allir séu sammála um, að ríkisstjórnin beiti sér fyrir aðgerðum til að koma til móts við hugsanlegan samdrátt í störfum þá held ég að sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum á næstu árum. Þó hugsanlega kunni að vera eitthvað um skamman tíma þá á ég ekki von á því miðað við þessa tölu og það ástand sem er í dag í atvinnumálum.

Það væri meiri ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifunum á atvinnumál á öðrum stöðum landsins þar sem umsvif hersins hafa verið, og þar er ég fyrst og fremst að tala um ratsjárstöðvarnar. Það hefur verið umtalsverður hlutur í fámennum byggðarlögum eins og í Bolungarvík, á Norðausturlandi og við Hornafjörð þannig að ég hygg að eðlilegt væri að ríkisstjórnin beitti aðgerðum til að koma til móts við samdrátt sem kann að verða á þeim stöðum því hann er ekki minni. Ég hygg að hlutfallslega sé hann meiri og jafnvel erfiðari fyrir þessi byggðarlög en það sem kann að verða á Suðurnesjum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af því að það komi ekki neitt fram í ræðu hans um framtíð ratsjárstöðvanna, hvernig staða þess máls er, hvort búið sé að ákveða að með brottför hersins verði þeim lokað eða hvort þær verði starfræktar áfram.

Ég vil taka undir áform um að Íslendingar bregðist við brottför hersins og þyrlusveita hans með því að koma sér upp eigin sveitum, öflugum þyrlusveitum sem geta þjónustað bæði land og mið, sem er full ástæða til. Við vitum að vísu að þetta mun kosta verulegt fé en við erum vel í stakk búin til að takast á við þann kostnað bæði stofnkostnað og rekstur. Við erum eitt af ríkustu þjóðfélögum veraldar og getum vel staðið að öryggismálum með myndarlegum hætti.

Mig langar að leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að þyrlusveitin verði öflug, 3–4 þyrlur og að þær verði staðsettar um landið í samræmi við hlutverk þeirra þannig að það verði ævinlega þyrlur sem næst fiskiskipaflotanum eða siglandi umferð um landið þannig að sem styst sé að fara til að sækja veika og sjúka ef það þarf að gerast eða skipbrotsmenn og koma þeim til lands, til sjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það væru skynsamleg áform að Landhelgisgæslunni með öflugri þyrlusveit væri dreift um landið í samræmi við þetta og hefði starfsstöðvar eða viðbragðsstöðvar, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur á Vestfjörðum og Norðurlandi. Þetta kunna að verða að einhverju leyti færanlegar starfsstöðvar eftir því hvernig staðsetningin er á flotanum og því sem á að fylgjast með en ég held að þetta væri nauðsynlegt til að veita gott öryggi.

Virðulegi forseti. Það væri ástæða til að fara yfir margt fleira. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra víkur ekkert að aðildinni að Evrópusambandinu sem er auðvitað eitt af stóru pólitísku viðfangsefnunum í utanríkismálum og hefði auðvitað verið ástæða til að fara yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum en út af fyrir sig skil ég það sem svo að stefnan sé skýr hvað það varðar. Það eru ekki nein áform um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég er sammála þeirri stefnu og tel að við ættum ekki að huga neitt að því á næstunni. Það er ekkert sem kallar á að við þurfum að fara þar inn fyrir dyr til að tryggja hagsmuni okkar. Þvert á móti hygg ég að hagsmunum okkar sé líklega betur borgið utan Evrópusambandsins. Það væri þá frekar viðfangsefni til að velta fyrir sér á komandi árum hvort við ættum að vera áfram aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eða ganga úr því og standa algerlega utan við.

Ég vil nefna Íraksmálið aðeins sem er örlítið drepið á í ræðu hæstv. utanríkisráðherra. en ráðherrann dregur fram stöðuna eins og hún er í dag. Þar hefur ekki náðst að mynda ríkisstjórn, ofbeldisverk, mannrán og dráp eru daglegt brauð og það má segja að borgarastyrjöld sé í landinu sem er auðvitað afleiðing af innrásinni. Innrásin var mikil mistök sem Bandaríkjamenn og Bretar hefðu ekki átt að standa að og hefðu betur fylgt þeim alþjóðlegu leikreglum sem þeir hafa undirgengist og að sumu leyti haft forgöngu um að koma á fót eftir síðari heimsstyrjöldina. Ef þeim hefði borið gæfa til að fylgja þeim reglum sem þjóðir heims hafa komið sér saman um og er að finna í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna þá hefðu menn ekki anað út í þetta vanhugsaða stríð sem því miður hefur ekki skilað neinum árangri til góðs fyrir einn eða neinn. Það má segja eins og ég held að Hans Blix hafi nefnt að hið eina jákvæða væri kannski að Hussein er ekki lengur við völd en það er ansi miklu kostað til að koma honum frá. Tugir þúsunda manna látnir og þar að auki hermenn og ég held að það sé gjald sem menn séu ekki tilbúnir til að halda fram að hafi réttlætt þá aðgerð. Þetta ætti að vera mönnum lexía í þeim efnum að skynsamlegt sé að beita sér fyrir því að þjóðir heims fari að alþjóðareglum sem þær hafa komið sér saman um. Íslendingar eiga ekki að vera í því hlutverki að styðja við bakið á þjóðum sem brjótast út úr þeim leikreglum og veita þeim pólitískan og siðferðilegan stuðning í þeim efnum. Þvert á móti. Við eigum að vera í hópi þeirra þjóða sem ævinlega hvetja þjóðir heims, sérstaklega herveldin, til að virða þær leikreglur sem settar hafa verið því það er okkar öryggistæki fyrst og fremst að fá herveldi samtímans til að fallast á leikreglur í alþjóðasamskiptum og virða þær. Það er afleitt þegar ýtt er undir að einstök ríki eins og Bandaríkin komist upp með að sniðganga þessar reglur og endurskilgreina mikilvæg hugtök í alþjóðasáttmálum eins og varðandi stríðsglæpamenn og annað slíkt sem Bandaríkjamenn hafa gert og er þeim satt að segja til verulegrar skammar svo ég víki kannski aðeins að því sem nærtækast er að minnast á, þ.e. fangelsið í Guantanamó og allt sem því fylgir.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn að sinni þannig að ég læt umfjöllun minni lokið. Það er af svo mörgu að taka og því er margt ósagt í þessu en ég læt staðar numið.