132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Eins og vænta má hefur víða verið komið við í þeirri umræðu sem nú er að ljúka. Það er í samræmi við uppleggið í ræðu minni að meginumræðuefni þessarar reglubundnu umræðu um utanríkismál hefur verið staðan í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar í kjölfar nýjustu tíðinda um varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þar er vissulega margs að gæta og að mörgu að hyggja eins og fram hefur komið í dag.

Eitt atriðið í þeim efnum eru atvinnumálin á Suðurnesjum. Þau eru náttúrlega sérmál sem ég tel að okkar efnahagslíf og hagkerfi muni fyllilega ráða við að leysa úr, eins og fram kom m.a. hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hér áðan, þó það kunni að taka einhvern tíma að leiða þau mál öll til lykta. Hér er ákveðið aðlögunartímabil á ferðinni en það er líka mjög mikilvægt að staðið verði þannig að þeim málum að sérhæfður starfskraftur glatist ekki og það verði hægt að ganga frá ráðningarmálum manna sem fyrst um leið og þessi mál skýrast öll.

Margt er hins vegar enn óljóst í þessum efnum og mun ekki skýrast fyrr en nánar liggur fyrir hvernig varnarsamstarfinu sjálfu verður fyrir komið í framtíðinni. Það er einmitt um það sem viðræðurnar milli Íslands og Bandaríkjanna snúast en þær munu halda áfram eftir fáar vikur eins og fram hefur komið af minni hálfu. Eitt af því sem er óljóst í því efni, sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi og ég hygg að fleiri hafi drepið á, er spurningin um ratsjárstöðvarnar. Það er auðvitað mjög mikilvægt mál. Bandaríkjamenn kosta reksturinn á þessum stöðvum. Þær eru mikilvægur hluti af loftvarnaeftirliti á Norður-Atlantshafi í þágu Bandaríkjanna, Íslands og annarra bandalagsþjóða en þær skipta reyndar líka miklu máli fyrir okkar flugumferðarsvæði vegna þess að þær gera kleift að reka það með hagkvæmari hætti en ella væri. Það er minna bil á milli flugvéla, þær geta farið tíðar um o.s.frv. sem skiptir máli í rekstrinum á flugumsjónarsvæðinu okkar. Því miður er ekki alveg ljóst hvernig þessu máli verður fyrir komið til framtíðar en ég tek undir að það er mjög brýnt að fá botn í það mál og við erum að vinna í því að reyna að fá svör og komast að niðurstöðu um þessar stöðvar.

Ég vil hins vegar segja það varðandi sjálfan varnarþáttinn í þessu að mér finnst það hafa komið fram í þessari umræðu, og mér finnst það mjög mikilvægt, að þrátt fyrir allt virðist svo vera að hægt sé að ná samstöðu um tvö grundvallaratriði milli þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi. Fjórði stjórnmálaflokkurinn hefur jafnframt lagt á það mikla áherslu í þeirri umræðu að aðgreina sig frá þeirri samstöðu, vill ekki vera með í henni. Það er að mörgu leyti alveg rökrétt og í samræmi við það sem áður hefur komið fram um þessi mál, ekki bara núna þessa dagana heldur um langa hríð. En þessi tvö atriði sem flokkarnir þrír virðast vera alveg sammála um eru aðildin að Atlantshafsbandalaginu og það að halda eigi áfram varnarsamstarfi við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Mér finnst það mjög mikilvægt að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylking virðast vera sammála um og enginn hefur kannski undirstrikað það betur en hv. þm. Ögmundur Jónasson í áhuga sínum og ákafa við að draga fram sérstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Reyndar vil ég bæta því við að ég heyri ekki betur en Frjálslyndi flokkurinn sé sama sinnis og stærri flokkarnir þrír hvað þetta varðar. Þetta er náttúrlega mikilvægt.

Hins vegar verður síðan að láta á það reyna, og það er það sem varnarviðræðurnar snúast um, með hvaða hætti fyrirkomulag þessara mála verður í framtíðinni. Um það snúast viðræðurnar.

Ég vil þá aftur víkja að því sem ég gat um hér í andsvari fyrr í dag. Ég tel að það hafi verið snúið út úr ummælum mínum á þann veg að ég hafi sagt að Íslendingar ætluðu að láta Bandaríkjamönnum eftir allt mat á varnarþörf hér vegna þess að við hefðum ekki sérfræðiþekkingu í þeim efnum. Ég sagði að við gætum ekki gert hernaðarlegar varnaráætlanir vegna þess að við hefðum ekki sérfræðiþekkingu hvað það varðar. Það er málefni sem herforingjunum er alls staðar látið eftir, það er sjálft varnarskipulagið sem byggist svo auðvitað á pólitískum forsendum sem m.a. við setjum. (Gripið fram í.) Bókagjöfin skiptir engu máli í þessu sambandi og það er nú eiginlega ótrúleg tilviljun að þessar bækur, sem löngu var búið að ákveða að gefa, skuli hafa verið afhentar í gær. Ég saknaði þess reyndar að sjá engan fulltrúa frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við það tækifæri en það er kannski hægt að bæta úr því með því að Vinstri hreyfingin bregði sér í Þjóðarbókhlöðuna.

Í alvöru talað, virðulegi forseti, þá er náttúrlega mikilvægt að það er upplýst að í grunninn eru stóru flokkarnir þrír sammála um gömlu forsendurnar í þessu máli, þ.e. aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Hitt er úrvinnsluatriði sem nú er upp komið, hvernig við getum tryggt hér fullnægjandi varnir eða varnarviðbúnað við þessar breyttu aðstæður. Um það munu viðræðurnar snúast og ég geri mér góðar vonir um að við náum þar ásættanlegri lendingu eða niðurstöðu áður en langt um líður.

Ég ætla ekki að víkja frekar að einstökum atriðum öðrum. Ég hef ekki talað mikið um ESB-aðild Íslands, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti athygli á, og það er vegna þess að ég er nýbúinn að flytja ræðu um það á öðrum vettvangi, sem liggur fyrir á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, og tala þar að sjálfsögðu fyrir sjálfan mig og mitt ráðuneyti.

Ég vil síðan undirstrika það, vegna ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér áðan, að það sem ég hef sagt hér um rekstur á flugvellinum eru hugmyndir sem engar ákvarðanir hafa verið teknar um. Ég geri mér alveg grein fyrir því að skoðanir kunna að vera skiptar um það í hvaða formi eigi að reka sjálfan flugvöllinn. En eitt er að annast þar eðlilega stjórnsýslu í samræmi við skuldbindingar sem við höfum gengist undir, m.a. á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, og þær skyldur sem við höfum í því efni, og hitt er síðan hinn almenni rekstur á vellinum, þar á meðal á flugstöðinni og því sem henni tilheyrir. Alls staðar á nálægum flugvöllum er litið á slíkt sem atvinnurekstur og þess vegna á að búa því búning sem hæfir slíkri starfsemi að mínum dómi. Það er síðan til nánari útfærslu hvernig það verður best gert, hvernig það verður hagkvæmast, hvernig hægt er að koma því best fyrir gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum. Viðskiptavinir eru þá ekki bara farþegarnir, það eru líka flugfélögin og aðrir sem eiga leið um völlinn, en þetta tel ég að séu mál sem hljóti að vera hægt að finna niðurstöðu á áður en langt um líður. Þar er lykilatriði, eins og ég sagði hér í andsvari fyrr í dag, að ganga fordómalaust að verki en ekki hlaðinn fordómum eins og mér heyrist stundum hv. þm. Ögmundur Jónasson vera þegar kemur að tilteknum rekstrarformum sem eru bara tæki til þess að komast að góðri niðurstöðu en ekki markmið í sjálfu sér, tæki en ekki markmið.

Að öðru leyti vil ég þakka þingmönnum fyrir ágætar umræður sem hafa endurspeglað ákveðna hluti og ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega óánægður með. Ég er auðvitað óánægður þegar snúið er út úr fyrir mér eða hermt upp á mig eitthvað sem ég hef ekki sagt. Það er nú eitt af því sem við búum við í þessum bransa, nóg um það. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.