132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:57]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú kannski eðlilegra að tala um gömlu forsendurnar sem ég nefndi sem gömlu hornsteinana tvo í utanríkis- og öryggismálastefnu Íslands. Ég ætla að halda mig við það framvegis í umræðum um þetta en ég hins vegar vakti bara athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur markað sér algjöra sérstöðu hvað þessa hornsteina varðar og vill ekki styðja sig við þá, ólíkt hinum flokkunum fjórum. Þar er sú sérstaða sem ég dró fram og ég hygg nú að þingmaðurinn harmi það ekkert að sú sérstaða sé fram dregin af mér eða öðrum.

Varðandi Palestínu og Ísrael vona auðvitað allir friðelskandi menn að það takist að leiða menn þar að samningaborði og til sátta. En ein forsendan fyrir því að slíkt geti gerst, miðað við úrslit kosninga á báðum þessum stöðum, er sú að Hamas-hreyfingin viðurkenni tilverurétt Ísraels og að hún hafni valdbeitingu og þeim aðferðum sem hún hefur beitt hingað til. Hvorugt hafa þeir viljað gera og þess vegna hafa Ísraelsmenn gripið til þess ráðs sem þeir hafa nú gripið til, sem vissulega er óyndisúrræði. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort það sé réttlætanlegt við þær aðstæður sem þarna eru núna. En aðalatriðið er það að báðir þessir aðilar gangi þannig til verks að þeir geti talað saman og að þeir geti komist að niðurstöðu sem hægt verður að lifa við og sem heimsbyggðin öll þráir að geti orðið.