132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert sérstaklega að halda uppi málsvörn fyrir Hamas-samtökin en í tilefni þeirra orða að menn gangi þannig til verks að þeir geti talað saman: Eiginkona leiðtoga Hamas er í hjólastól, lömuð, eftir árás ísraelska hersins á heimili þeirra. Hamas lýsti fyrir ári síðan einhliða yfir vopnahléi. Hamas er kjörið í lýðræðislegum kosningum. Nú er það þrándur í götu friðarviðræðna, áður var það Yasser Arafat. Sjá menn ekki hvað er að gerast?

Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað — nú er talað fjálglega um samþykktir Sameinuðu þjóðanna — um Ísrael. Palestína átti samkvæmt grænu línunni, sem dregin var eftir blóðuga styrjöld 1948–1949, að vera sem nemur 22%, rúmum fimmtungi, af gömlu Palestínu. Nú er hún komin innan við 10%, 9% sundurtætt. Og hernámsliðið heldur skattheimtum, Ísraelar innheimta skatta í Palestínu og þegar kosin eru stjórnvöld sem ekki eru þeim að skapi er peningunum haldið til baka. Síðan er talað um það að menn þurfi náttúrlega að koma þannig fram að þeir geti talað saman. Hvar er ábyrgðin, hvar liggur ábyrgðin? Ég bara spyr. Og ætla Íslendingar virkilega ekki að fordæma svona aðfarir apartheid-stjórnar, ofbeldisstjórnar, hernámsliðs? Ég bara spyr.

Það gildir mig einu hvort menn tala um gamlar forsendur eða gamalt grjót. En það er alveg rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er greinarmunur, mikill munur, grundvallarmunur, á stefnu þeirra flokka sem horfa fyrst og fremst til hernaðarbandalagsins NATO um öryggi Íslands og hinna sem vilja (Forseti hringir.) leita nýrra leiða og tryggja öryggi Íslands utan hernaðarbandalaga.