132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:08]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli, máli sem er brýnt að verði leyst nú þegar af hálfu ríkisstjórnarinnar, af hálfu heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, og það verði nú þegar samið þannig um kjör fólks sem vinnur á þessum hjúkrunarheimilum að þangað fáist fólk til starfa og að aðstæður þeirra sem þar starfa verði viðunandi.

Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson, sagði í fjölmiðlum í gær að ríkisstjórnin hefði verið í samfelldu 10 ára setuverkfalli í málefnum aldraðra og það er auðvitað alveg rétt því að það er alveg sama hvar borið er niður, hvort við tölum um lífeyristryggingar aldraðra, þann skort sem er á þjónustu inni á hjúkrunarheimilum, launakjör starfsmanna sem þar starfa eða hvort við erum að tala yfirleitt um skort á hjúkrunarrýmum í landinu og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Á öllum þessum sviðum hefur ríkisstjórnin vanrækt þennan málaflokk, hún hefur vanrækt málefni aldraðra og nú koma þeir og halda því fram að þeir ætli að setja þennan málaflokk í sérstakan forgang eftir 10 ára samfellt setuverkfall.

Ég ætla að minna á það að ég gerði samkomulag sem borgarstjóri við þáverandi heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson árið 2002. Þáverandi fjármálaráðherra og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sagði þá að engar fjárhagslegar forsendur væru fyrir því samkomulagi sem gert var — og sú hefur reynst raunin. Þeir hafa tekið Framkvæmdasjóð aldraðra í rekstur, notað helminginn af honum í rekstur í stað þess að fara í uppbyggingu á málefnum aldraðra. Þeir hafa tekið þetta fé úr málaflokknum og notað það í annað og þess vegna (Forseti hringir.) er raunin sú núna að það er samfellt 10 ára setuverkfall í málefnum aldraðra.