132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki skilið mig til fulls, enda kem ég betur að þessu máli seinna. Hvað fyrir mér vakir er hversu mjög eigi þá að efla Sauðárkrók sem miðstöð byggðamála í landinu, ekki hvort störfin verði þar óbreytt. Ég vil sjá að þessu sé þá fylgt eftir með þeim hætti að þarna verði efling, þarna verði raunmiðstöð byggðamála. Ég vildi fá ítarlegri svör frá hæstv. ráðherra hvað það varðar.

Einnig sakna ég þess hér að ekki skuli vera minnst á möguleika á öflugu samstarfi við Hólaskóla sem er á svæði höfuðmiðstöðva Byggðastofnunar á Sauðárkróki ef það verður svo áfram, sem ég vona. Það er minnst á samstarf við Þekkingarsetrið á Ísafirði, Háskólann á Akureyri og á Egilsstöðum sem er bara hið besta mál. Einmitt í Skagafirði er þó einn öflugasti byggðaskóli landsins, að öllum hinum ólöstuðum, og mér hefði fundist að þetta ætti að tengja (Forseti hringir.) með mjög rækilegum hætti saman til eflingar (Forseti hringir.) hvoru tveggja.