132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held reyndar að auðveldlega væri hægt að koma því fyrir að einkavæða Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og gera bara sérstakan samning við ríkið varðandi þá starfsemi sem lýtur að því og þjónustu við fyrirtæki þess en hleypa restinni út á markað.

Varðandi síðan Byggðastofnun og Byggðasjóð, í þessu frumvarpi kemur fram að Byggðasjóði er ætlað að veita ábyrgðir á lán. Fram til þessa hefur Byggðastofnun sem forveri Byggðasjóðs veitt lán til atvinnuuppbyggingar og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Mig langar til að uppfræðast um það hjá hæstv. ráðherra hvaða munur sé annars vegar á lánum frá ríkinu og hins vegar á lánsábyrgð. Telur ráðherra að það sé í eðli sínu einhver munur á þessu tvennu? Ég á erfitt með að koma auga á þann mun.