132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[15:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé talsverður munur þarna á. Ég gæti kannski spurt hv. þingmann til baka: Telur hann ekki t.d. í sambandi við Íbúðalánasjóð að það mundi skipta máli þar hvort bara væri verið með beinar lánveitingar eða ábyrgðir? Í þessu tilfelli erum við að tala um Byggðasjóð og hann hefur þá heimild samkvæmt ákveðnum skilmálum að ábyrgjast lán frá bönkunum. Þetta er fyrirkomulag sem nágrannaþjóðir okkar hafa notað, mjög margar Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn reyndar líka.

Ég tel að þetta sé framför miðað við þær breyttu aðstæður á markaði sem eru staðreynd. Byggðastofnun hefur misst frá sér áhugaverða viðskiptavini á síðustu árum vegna þess að bankarnir hafa sinnt landsbyggðinni betur. Ekkert nema gott er um það að segja, og í raun mjög jákvætt, en engu að síður viljum við ekki sleppa alveg hendinni af málinu með því að þessi sjóður hafi þá möguleika á að ábyrgjast lán bankanna þegar skortur er á veðum eða öðru.