132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Við ræðum þetta mál í framhaldi af nokkrum sviptivindum milli stjórnarliða í kringum þetta mál. Þegar ég fór að kynna mér það áttaði ég mig á að það væri að mörgu leyti eðlilegt að svolítil átök hefðu orðið um málið, einfaldlega vegna þess að hér er á ferðinni mál sem hefur tekið snöggum breytingum undir lokin á undirbúningi þess.

Til að byrja með ætla ég að segja að mér líst alveg prýðilega á þá hugmynd að sameina í Nýsköpunarmiðstöð Íslands þá starfsemi sem er hjá Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Ég tel að það mál hafi verið mjög vel undirbúið enda setti hæstv. ráðherra nefnd í málið, ef ég man rétt, einhvern tímann seinni partinn á árinu 2004. Nefndin vann vel að þessu máli og síðan komu fram þessar tillögur. Já, það var í september 2004 sem hæstv. ráðherra skipaði þessa nefnd og síðan kom tillaga Vísinda- og tækniráðs sem tók undir tillögu starfshópsins um að sameina þessar tvær stofnanir í desember 2004. Síðan er unnið í framhaldi af þessum niðurstöðum alveg þangað til í lok september árið 2005, en þá er niðurstöðum skilað með greinargerð til hæstv. ráðherra um sameiningu þessara tveggja stofnana sem ég nefndi hér áðan.

Svo segir í þessari greinargerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu nefndarinnar ákvað iðnaðarráðherra að undirbúa sameiningu stofnananna. Þeirri ákvörðun var þó frestað þegar nánari skoðun leiddi í ljós að enn meiri ávinningi mætti ná með víðtækari sameiningu á allri starfsemi ráðuneytisins að nýsköpun og atvinnuþróun.“

Hins vegar er ekki gerð nein grein fyrir því hver þessi „nánari skoðun“ var, hvernig hún fór fram. Hvergi er á það minnst að einhver vinna hafi verið lögð í það að skoða eitthvað nákvæmlega hvort þetta væri góð hugmynd. Hins vegar er greinilegt að ákvörðun var tekin í haust sem leið um að bæta Byggðastofnuninni þarna við, ofan á þessa miklu ágætu vinnu sem hafði farið fram. Það má eiginlega lýsa þessu þannig að þegar búið er að teikna og vanda vel til húss, hanna það og byggja, sé allt í einu hrönglað upp einhverjum skúr við hliðina. Það er gert bara á augalifandi bragði, timbrað upp einhverri viðbót við hugmyndina. Það er það sem við erum að sjá hér. Og allt þetta plagg ber þess merki að svona hafi verið unnið að málinu enda var það þannig að Byggðastofnun, eins og menn muna, rak upp á sker í haust sem leið. Þá var allt í einu allt þrotið þar enda full ástæða til því að ekki hefur verið staðið þannig að rekstri þeirrar stofnunar á undanförnum árum að vel gæti farið. Það hlaut að enda með vandamálum þar.

Þá bregða menn fyrir sig því bjargráði að taka þetta ágæta mál sem hér hafði verið undirbúið og bæta vandamálinu við sem menn höfðu í höndunum þegar þar að kom. Í ljósi þess verða menn auðvitað að skoða hvort þetta sé skynsamlegt. Ég segi fyrir mitt leyti að til að byrja með líst mér ekki mjög vel á þetta. Auðvitað verðum við að fara yfir þetta í starfi nefndarinnar og velta fyrir okkur með hvaða hætti þetta gæti orðið skynsamlegt. Ég geld mikinn varhuga við því að framlögum til byggðamála og þeirri starfsemi sem hið opinbera hefur með höndum til að styrkja hinar veiku byggðir landsins sé blandað með einhverjum þokukenndum hætti saman við aðra starfsemi eins og stefnir í að menn geri þarna.

Ég held að það sé ákaflega hættulegt og muni geta valdið því að sú starfsemi sem átti að sameina í þessum tveimur stofnunum verði fyrir einhvers konar tortryggni og geti jafnvel orðið fjötur um fót að hluta til þeirri ágætu starfsemi sem þar er á ferðinni. Ég tel líka að það sé mjög nauðsynlegt að þegar menn fást við byggðamálefni þar sem þarf að koma til móts við byggðir sem eiga í vanda með fjárframlögum eigi menn ekkert að vera feimnir við að gera það. Það á hiklaust að gera það og koma til móts við byggðir og hjálpa þeim í vandamálum. Það þarf að vera skýrt og klárt hvað menn eru að gera þar. Þess vegna vil ég grípa tækifærið og nefna að ég tel að það þurfi að skoða mjög vandlega hvort sú leið að taka ábyrgð á lánum sé sú rétta. Mín skoðun hefur lengi verið sú að þetta ætti fyrst og fremst að gera með styrkjum til fyrirtækja á þeim svæðum þar sem vandinn er uppi. Ef koma þarf til móts við hugmynd sem menn hafa um rekstur eða stofnun fyrirtækja á slíkum svæðum og það vantar upp á að slík starfsemi fái fjármögnun af því að menn telja grundvöllinn ekki nægilega góðan getur styrkur Byggðastofnunar orðið til þess að hugmynd verði áhugaverð og standi undir sér. Þá vita menn líka alveg hvað verið er að leggja fram. Það er allt skýrt um það. Þegar hins vegar er lánað, veruleg áhætta tekin vegna hugmyndar sem er kannski ekki allt of ljóst hvort muni ganga upp vita menn mjög lítið hver áhættan er. Það er óljós áhætta og það er sams konar áhætta á ferðinni þegar kemur að einhvers konar ábyrgðarhlutverki eins og því sem verið er að lýsa hér. Þess vegna tel ég ástæðu til að menn skoði þessa hluti mjög vandlega í framhaldinu og velti þeim fyrir sér.

Ég tel það vera ákveðinn skaða að þetta skuli hafa borið að með þeim hætti, það mál sem hér er til umræðu. Ég held að jafnvel þótt menn hefðu orðið dálítið fangnir af þeirri hugmynd að sameina Byggðastofnun þessum tveimur stofnunum hefðu menn áður en það var gert átt að ganga það til enda að sameina þær tvær stofnanir sem þarna var hugmyndin að sameina og skoða það síðan í framhaldinu, úr því aðdragandinn var ekki lengri en þessi, hvort hugsanlegt væri að sameina einhverja hluta af Byggðastofnun, eða Byggðastofnun alla, við þá stofnun sem þarna stóð til að gera. Ég hef reyndar miklar efasemdir um að öll starfsemi sú sem á að tilheyra Byggðastofnun geti orðið hluti af þessari stofnun. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að hafa þessi mál í skýrari farvegi en hann verður með þessu.

Við fengum, og það var nokkuð tekið eftir því, kom í fjölmiðlum — okkur var boðið, aldrei þessu vant, stjórnarandstöðunni, að fá kynningu á málinu áður en því var dreift í þinginu. Við fengum tækifæri til að spyrja út í málið. Sú kynning var ágæt. Það hittist að vísu þannig á að hún lenti á þannig tíma að ekki margir höfðu tækifæri til að vera við hana. Ég var þar og mér fannst það sem kom út úr þeirri kynningu ekki breyta þessari skoðun sem ég hef verið að lýsa. Ég fékk reyndar að hluta til svolitla staðfestingu á því sem ég óttaðist sem er það að litið verði á þessa stofnun í framhaldinu að einhverju leyti sem Byggðastofnunina, með ákveðnum greini, að það muni þá valda ákveðinni tortryggni þegar kemur að því að beina kröftum hennar til einstakra mála. Það væri mjög vont ef sá áróður yrði uppi að nú væru menn búnir að stofna eitthvert enn þá stærra bákn sem væri með byggðamálin og það væri óljóst hvað þessi stofnun setti í raun og veru mikið af kröftum sínum og fjármunum til byggðamála og hvað færi í raun og veru til þeirra mála atvinnuþróunar sem hér er á ferðinni, sem allt er gott um að segja.

Ég hef ekkert nema gott að segja um starfsemi þá sem Byggðastofnun hefur haft undir höndum nema að því leyti til að mér finnst að á undanförnum árum hafi verið grafið undan þeirri starfsemi. Henni hefur verið tvístrað út og suður og það hefur ekki verið skynsamlega að þeim hlutum staðið. Ég hefði talið miklu nær að menn reyndu að skýra hlutverk Byggðastofnunar en nota hana áfram sem það verkfæri sem menn hafa í höndunum til að koma þeim verkefnum áfram sem Alþingi hefur tekið ákvörðun um að styrkja. Þetta finnst mér vera aðalinntakið í því sem ég vil koma hér á framfæri.

Það kom síðan líka fram í andsvörum áðan og hefur komið fram í fjölmiðlum — hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór í andsvar við hæstv. ráðherra og í þeim spurningum sem hann bar fram kom með svipuðum hætti fram tortryggni hvað það varðar að slá saman þeirri starfsemi sem þarna er hugsað að gera. Reyndar lagði hann fram spurningu um hvort ekki væri ástæða til að einkavæða eitthvað af þessu. Hæstv. ráðherra tók undir að sumt af þessu mætti einkavæða eða fela öðrum aðilum með einhverjum tilteknum hætti heldur en að þessi stofnun sæi um þá hluti sjálf.

Það er auðvitað ekki hægt að útiloka neina slíka hluti. Það verður alltaf að skoðast á hverjum tíma hvað er skynsamlegt að svona stofnanir láti vinna sjálfar með sínu starfsfólki og hvað er skynsamlegt að kaupa sem þjónustu af öðrum aðilum. Ég hef ekki neina fordóma gagnvart því að þjónusta sé keypt af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum og það er sjálfsagt að menn skoði það alltaf á hverjum tíma hvað er skynsamlegast í því.

Þetta er hins vegar ekki gagnrýnin frá minni hendi, heldur er mín gagnrýni fyrst og fremst fólgin í því sem ég hef fært hér fram. Við höfum t.d. annað mál í höndunum sem er uppkast að stefnumótandi byggðaáætlun. Í þeirri áætlun er, þó svo að það sé ekki sett fram með nægilega skilmerkilegum og skýrum hætti í tillögugreininni, gert ráð fyrir stóru hlutverki Byggðastofnunar í framkvæmd þeirrar áætlunar.

Ég tel að þess vegna sé full ástæða til að menn skoði í samhengi hvernig eigi að fara með þessa hluti og hvort það sé skynsamlegt að leggja niður Byggðastofnun og fella starfsemi hennar undir aðra þá starfsemi sem þarna er. Það er líka ákveðið að hafa allt öðruvísi samsetningu stjórnar Byggðasjóðs, eða hvað hann á nú að heita í þessu plaggi. Þar er gert ráð fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra skipi þrjá menn en fjármálaráðherra tvo. Menn geta velt fyrir sér hvernig samsetning slíkrar stjórnar verður. Ég ætla ekki að vera með getgátur hér um það hvernig hún verður en það virðist nokkuð ljóst að hún verður með einhverjum öðrum hætti en stjórn Byggðastofnunar hefur verið fram að þessu. Spurningin er hvort hæstv. ráðherra fer yfir það hér hvernig hún lítur á og hvaða markmiðum hún telur að þurfi að ná með skipun þessarar stjórnar eða hvort Byggðasjóður, eða starfsemi hans, sé allt í einu orðinn af allt öðru tagi en byggðastuðningurinn sem var fólginn í starfsemi Byggðastofnunar, eða hefur verið á undanförnum árum.

Ég tel að Alþingi hefði haft miklu betra af því að fara í gegnum einhvers konar tillögur um endurskoðun á Byggðastofnuninni sjálfri og starfsemi hennar sem Byggðastofnunar og glíma við það að ná pólitískri samstöðu um hvað slík stofnun ætti að gera, hver væru verkefni hennar, því að ég er svo sannarlega sammála því að margt mætti endurskoða og færa til betri vegar af því sem stofnunin hefur verið að gera. Ég tel t.d. að lánastarfsemin þurfi algerrar endurskoðunar við.

Það sem mér finnst skipta mestu máli í tengslum við Byggðastofnun og mér finnst vera mikilvægast í starfsemi hennar er að hún sé sjálfstæð og að hún verði gerð sjálfstæð með þá möguleika að skoða hugmyndir um byggðaþróun, um tækifæri einstakra svæða og byggða, um þá þróun sem hægt er að spá fyrir um, fara yfir hugmyndir um t.d. samgöngubætur og meta hvað þær geta gert fyrir einstök svæði. Svo má nefna alls konar hugmyndir um atvinnuþróun, átök í menntamálum eða öðru slíku sem hægt er að gera til að koma til móts við veikar byggðir. Þetta er allt saman sagt að sé hægt að gera í þessari stóru nýju stofnun sem hér á að fara að samþykkja. Ég efast ekkert um að jákvæður vilji til að koma til móts við veikar byggðir búi að baki. Ég held hins vegar að þetta sé aðferð sem menn þurfi að skoða mjög vandlega, og það er full ástæða til að muna eftir að undirbúningurinn að málinu hvað þetta varðar hefur haft mjög skamman aðdraganda. Það er í raun verið að bæta Byggðastofnun inn í þetta á þessum vetrarmánuðum. Það er ekki góður aðdragandi að málinu. Ég tel þess vegna að það sé ýmislegt sem iðnaðarnefndin þarf að skoða þegar málið kemur til hennar. Ég er á þeirri skoðun að þá þurfi menn fyrst og fremst að fara yfir það hvort sú leið að bæta Byggðastofnun þarna við sem slíkri sé skynsamleg, hvort það væri skynsamlegt að taka einhvern hluta af þeirri starfsemi sem hefur verið tengd Byggðastofnun og hafa inni í þessari nýju stofnun og hafa Byggðastofnun þá minni í sniðunum en með afmarkaðra hlutverk en hún hefur haft, eða hvort Byggðastofnun eigi að leggjast þarna inn með alla sína starfsemi. Hvernig í ósköpunum ætla menn þá að sjá til þess að það sé allt skýrt sem viðkemur kostnaði vegna byggðamála og kostnaði vegna annarrar starfsemi sem þarna er á ferðinni?

Það sem aldrei má gerast er að tortryggni verði vakin upp sem geti komið niður á annarri starfsemi þessarar stofnunar vegna þess að menn líti þannig á að verið sé að nýta stofnunina í þeim tilgangi að ná einhverjum markmiðum í byggðamálum og að ekki sé alveg ljóst með hvaða hætti það verði gert. Í því er engin skynsemi og getur vakið upp tortryggni gagnvart annarri þeirri starfsemi sem þarna á að fara fram, og vandamálum sem engin ástæða er til.

Ég ætla ekki að hafa þetta meira núna, hæstv. forseti. Það hefði auðvitað verið gaman að ræða svolítið um þessi vandamál stjórnarliða í málinu en ég fæ tækifæri til þess síðar.