132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:24]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir að það sé ekkert hægt að komast undan skuldbindingum stofnunarinnar. Ég ímynda mér ekki að hægt sé að komast undan þeim með því að snara henni inn í þennan hóp sem hér er um að ræða. Það hlýtur að þurfa að uppfylla þær skuldbindingar sem stofnunin hefur tekið á sig.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að lánamál stofnunarinnar eigi auðvitað að taka til endurskoðunar. Ég hef um það efasemdir að það sé rétta leiðin að vera mikið í þessari lánastarfsemi. Ég held að styrkir gætu verið skynsamlegri, aðkoma ríkisins að því að styðja við starfsemi á veikum svæðum gæti verið skýrari en lánastarfsemi.

Svo er hitt sem hæstv. ráðherra var að segja, að þetta hefði ekki gerst bara yfir vetrarmánuðina. Það sem stendur í þessu plaggi sem við höfum hér fyrir framan okkur er að sú nefnd sem undirbjó sameiningu þessara tveggja stofnana, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, skilaði niðurstöðum sínum 30. september 2005. Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu nefndarinnar ákvað iðnaðarráðherra að ákveða sameiningu stofnananna. Það er þá sem menn skila af sér. Það getur ekki hafa verið fyrr en í framhaldi af því sem hæstv. ráðherra ákvað að starfsemi hinnar nefndarinnar sem er að fjalla um Byggðastofnun ætti að fara í að sameina störf þessara tveggja nefnda í því frumvarpi sem hér er komið fram.

En þetta er nú bitamunur en ekki fjár. Það er a.m.k. ljóst að þessi sameining byrjar ekki að ganga fyrr en eftir að sú nefnd sem hæstv. ráðherra nefndi skilar af sér. Það hefur verið að gerast í vetur og ég segi að mér (Forseti hringir.) finnst þetta ekki trúverðug niðurstaða.