132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:26]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í dagsetningar. Eins og ég sagði áðan var það sem sagt fyrir um ári sem ég fékk greiningu fyrirtækisins Stjórnhátta ehf. um Byggðastofnun.

Ég vil bara halda því til haga að það er ekki þannig að Byggðastofnun sé gjaldþrota. Byggðastofnun var komin á það stig að farið var út í þessa vinnu, komin niður fyrir 8% regluna hvað varðar eigið fé.

Síðan ætla ég að segja að hv. þingmaður telur að það væri affarasælla að fara út í styrki til fyrirtækja en lánveitingar. Það kemur mér mjög á óvart að hv. þingmaður skuli halda þessu fram. Okkur eru mjög mikil takmörk sett í sambandi við að styrkja atvinnulífið með beinum styrkjum, m.a. út af EES-samningnum og samkeppnismálum. Við getum ekki styrkt fyrirtæki sem er í samkeppni við annað fyrirtæki. Það er augljóst. Hins vegar er ákveðið svigrúm sem varðar fyrirtæki á landsbyggðinni en það þarf þá að vera einhver nýsköpun í því eða annað sem samræmist reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Það að fara í að styrkja fyrirtæki með beinum fjárframlögum er eitthvað sem ég hélt að væri ekki mikið uppi í umræðunni í dag.