132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:27]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa vitneskju um að það sé leyfilegt að styrkja fyrirtæki með fjárframlögum. Ég veit ekki betur en að það hafi líka verið gert þótt það hafi verið í smærra mæli en lánastarfsemin sjálf. Auðvitað eru ábyrgðir og lánveiting þar sem áhætta er tekin langt fram yfir það sem verið er að gera á hinum almenna markaði ekkert annað en styrkjastarfsemi. Menn geta ekki haldið einhverju öðru fram. Það eru auðvitað styrkir fólgnir í því. Sú ábyrgðarhugmynd sem hér er sett fram í frumvarpinu er styrkur og auðvitað eru ábyrgðir peningar þegar kemur að því að þær muni að einhverju leyti falla á viðkomandi ábyrgðartaka.

Þess vegna hljóta menn að þurfa að skoða þetta í heildina. Niðurstaða nefndarinnar sem fjallaði um Byggðastofnun var sú að gerð yrði grundvallarbreyting á fjármögnunarstarfsemi Byggðastofnunar þannig að hún yrði fjárhagslega sjálfbær. Ég held að þetta sé jafngildi þess að komast að þeirri niðurstöðu að leggja eigi þessa lánastarfsemi niður. Ef menn ætla að reka lánastarfsemi vegna þess að veikar byggðir þurfi á meiri stuðningi að halda en annars staðar er til staðar hlýtur það að kosta peninga. Þá hljóta menn að ganga lengra en er gert annars staðar. Ef á að líta þannig á að þetta sé ekki sjálfbært nema að sams konar árangur náist af lánastarfseminni og hjá öðrum lánafyrirtækjum er alveg klárt að það þýðir ekkert að reka slíka lánastarfsemi. Menn geta ekki gert sömu kröfu ef þeir ætla sér að styðja við atvinnulíf á landsbyggðinni til að fá arð af lánastarfseminni eins og annars staðar.