132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:51]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gjarnan hefur verið gortað af því hér að atvinnuþróunarfélögin hafi haft mikið að segja, sem þau og hafa gert.

Ég tel að þeim sé ekki betur borgið með því að búa til þetta nýsköpunarmiðstöðvarbatterí. Ég vil miklu frekar að Byggðastofnun verði miðlæg í því að stýra vinnu út í atvinnuþróunarfélögin. Þar erum við komin með eina stofnun sem er kannski í mun meira sambandi við atvinnuþróunarsjóðina en einhver ein deild í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Ég er ekkert viss um að það sé betra kerfi til að takast á við þau verkefni sem atvinnuþróunarfélögin sýsla við hvert á sínum stað. Að tengja atvinnuþróunarfélögin, byggðastefnuna, við Byggðastofnun, við háskólana og þau þekkingarsetur sem við erum með — þetta er allt saman hægt að tengja inn í Byggðastofnun sem er að mínu viti betra en að þetta verði einhver ein deild inni í stóru nýsköpunarbatteríi.