132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[16:53]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn eitt frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, sem snýr að byggðamálum og byggðaþróun. Þann 1. janúar árið 2000 tóku í gildi ný lög um Byggðastofnun sem m.a. færðu þann málaflokk úr forsætisráðuneytinu yfir í iðnaðarráðuneytið. Hæstv. ráðherra hefur hér flutt frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, þar sem stofna á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og það er vissulega fallegt nafn. Ef það verður að lögum, og þau taka gildi eins og áætlað er 1. janúar árið 2007, verður sá dagur útfarardagur Byggðastofnunar. Það er ekki hægt að líta á það öðruvísi en svo að Byggðastofnun verði lögð niður og það hafi þá verið á ráðherraferli hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, sem ég hef oft gagnrýnt fyrir framgöngu í byggðamálum og annað slíkt. Þá verður verkið fullkomnað og Byggðastofnun endanlega lögð af í sinni mynd.

Aumt er það hlutverk, virðulegi forseti, að mínu mati. En kannski um leið staðfesting á, ég var næstum búinn að segja á aumingjagangi, því dugleysi sem þar hefur verið. Ég skal þó taka það skýrt fram að ég held að það sé m.a. stundum vegna þess að ráðherrann kemst ekki áfram með sum mál sem hún hefur kannski áhuga á vegna samstarfsflokksins Sjálfstæðisflokksins. En oft og tíðum held ég að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið er ekki rétta ráðuneytið til að fara með þennan málaflokk eins og komið hefur á daginn. Iðnaðarráðuneytið hefur verið allt of upptekið af öðrum málum og byggðamálin sem slík hafa verið olnbogabarn hæstv. iðnaðarráðherra frá því hún tók við þeim. Áður en barnið fer í grunnskóla verður það svo borið út. Aumt er það.

Það er hægt að hugga sig við að sá tími sem hæstv. iðnaðarráðherra fer með þennan málaflokk styttist óðum. Við kjósum næsta vor og vonandi lýkur þessu þá. En segjum nú að svo ólíklega fari að ríkisstjórnin haldi völdum og hæstv. iðnaðarráðherra fái að sitja áfram í ráðuneyti sínu. (KÓ: Enginn vafi.) Þetta frammíkall frá hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Kjartani Ólafssyni, sýnir að hugur hans stendur til að starfa með Framsóknarflokknum og skil ég það vel enda hefur sjálfstæðismönnum tekist vel að reka hann til ýmissa óhæfuverka.

En aftur að því sem ég sagði. Mér sýnist að verkið verði fullkomnað þegar búið er að leggja Byggðastofnun niður. Hæstv. iðnaðarráðherra þarf ekki lengur að standa skil á byggðaáætlun, hvað þá skýrslu um byggðaáætlun eins og hún á að flytja Alþingi núna samkvæmt lögum um Byggðastofnun — sú skýrsla hefur verið í „copy/paste“-formi eins og frægt varð þegar hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram í þriðja skiptið sömu skýrsluna og flutti hana sem skýrslu um byggðamál. Þetta hef ég gagnrýnt mjög og ráðherra hefur tekið það mjög óstinnt upp þegar fjallað hefur verið um byggðamál á þann hátt. Vitna ég þá til frægrar lokaumræðu um byggðaáætlun hér við fyrri umræðu í þinginu. Ég ætla ekki að hafa það eftir en fræg urðu þau ummæli.

Virðulegi forseti. Fyrsti liður í athugasemdum við lagafrumvarpið er undir fyrirsögninni Aðdragandi. Þar kemur fram að hinn 15. september 2004 skipaði hæstv. ráðherra starfshóp til að gera tillögur um endurskipulagningu tæknirannsókna. Síðan er því lýst hvernig það var gert. Þessi nefnd, þessi starfshópur, sem skipaður var skrifstofustjóra iðnaðarráðuneytisins, einum deildarstjóra í Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og forstöðumanni á Iðntæknistofnun, skilaði niðurstöðum til iðnaðarráðherra 5. nóvember 2004. Það varð niðurstaða hópsins að unnt væri að efla opinberar tæknirannsóknir með því að sameina starfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Síðan fer þetta í ákveðinn feril eða ofan í skúffu og bíður. Nema hvað að næst gerist það að iðnaðarráðherra skipar 2. febrúar 2005 nefnd sem skyldi m.a. gera tillögur um verkefni um innra skipulag nýrrar stofnunar um tæknirannsóknir. Gott og vel. Þar er áfram unnið og skipað í nefnd. Þar voru m.a. forstjóri Iðntæknistofnunar og forstjóri Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og fleiri. Sú nefnd skilaði niðurstöðu sinni til ráðherra með greinargerð dagsettri 30. september 2005. Með leyfi forseta stendur hér:

„Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu nefndarinnar ákvað iðnaðarráðherra að undirbúa sameiningu stofnananna. Þeirri ákvörðun var þó frestað þegar nánari skoðun leiddi í ljós að enn meiri ávinningi mætti ná með víðtækari sameiningu á allri starfsemi ráðuneytisins að nýsköpun og atvinnuþróun.“

Síðan kemur kaflinn um Byggðastofnun og það sem Byggðastofnun á og ætti að gera í sambandi við atvinnuþróun og byggðamál. Þá kemur kaflinn þar sem fjallað er um að erfiðleikar séu í rekstri Byggðastofnunar og fjallað er um hvernig eiginfjárhlutfall þeirra fór niður fyrir ásættanlega prósentu o.s.frv. Svo kemur, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessarar stöðu fól iðnaðarráðuneytið ráðgjafafyrirtækinu Stjórnhættir ehf. að greina helstu valkosti varðandi framtíðarþróun Byggðastofnunar. Í skýrslu fyrirtækisins: Framtíðarþróun Byggðastofnunar – Greining á meginvalkostum, frá 5. maí 2005, segir m.a.: „Meginniðurstaða greiningar á stöðu Byggðastofnunar er að þrátt fyrir að ýmsar jákvæðar umbætur hafi verið gerðar á undanförnum árum á stofnunin samt sem áður við alvarlegan vanda að stríða. Stofnunin er ekki það forustuafl í málaflokknum sem ætla mætti og sinnir ýmsum grundvallarhlutverkum ekki nægilega vel. Fjárhagsstaðan er mjög erfið og fátt bendir til þess að fjármögnunarstarfsemin geti orðið fjárhagslega sjálfbær.““

Í frumvarpinu sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur fram er sagt að stofnunin sé ekki það forustuafl í málaflokknum sem ætla mætti og erfiðleikar steðji að. Það er á þeim tímapunkti sem menn smella saman fingrum, setja á nýja nefnd stjórnarliða, framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, undir forustu Páls Magnússonar að fara í gegnum þetta mál. Þeir skila frá sér ákveðnum tillögum. En þeir skila hvergi frá sér tillögum um að sameina t.d. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun. Það dettur einhvers staðar af himnum ofan á lokastigi málsins og er ekki farið í gegnum það á jafnfaglegan hátt og ég gerði að umtalsefni áðan í þeim nefndum sem getið er um hér áður. Þess vegna vakti það athygli mína hvers vegna þetta dettur svona fram. Því var það sem ég í stuttu andsvari við hæstv. iðnaðarráðherra, eftir að hún hafði flutt flutningsræðu sína, spurði um þetta. Þá kom fram að Byggðastofnun er þarna bætt við vegna þessara erfiðleika hennar sem hér er m.a. fjallað um og sett er fram á svo skilmerkilegan hátt. Ekki af mér, sem þingmanni, nú þýðir ekki að skamma mig, virðulegi forseti, heldur af því fyrirtæki sem var falið að fara í gegnum þetta, sem heitir Stjórnhættir ehf.

Virðulegi forseti. Ég held ég geti tekið undir og verið dálítið hlynntur þeim tveimur þáttum sem ég hef gert að umtalsefni, þ.e. sameiningu Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar. Ég held að það sé ekki óskynsamlegt. En mér finnst alveg út í hött að ætla að leggja Byggðastofnun sem slíka niður, setja hana þarna inn í þetta og leysa vandann með því.

En ég vil líka halda því til haga, virðulegi forseti, sem ég hef sagt hér að ég er samt ekkert yfir mig hrifinn af starfsemi Byggðastofnunar. Hef ekki verið það og hef fengið staðfestingu á því í frumvarpinu sem hæstv. ráðherra setur fram þar sem hún fjallar um Byggðastofnun í greinargerð sinni og ég las hér áðan: „Stofnunin er ekki það forustuafl í málaflokknum sem ætla mætti og sinnir ýmsum grundvallarhlutverkum ekki nægilega vel.“

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi síðast komið inn í Byggðastofnun haustið 1999. Ég man ekki hvort ég hef átt eitt símtal þangað síðan. Það símtal olli mér jafnmiklum vonbrigðum og annað sem ég hef leitað til þeirrar stofnunar með. Þess vegna get ég ekki sagt að Byggðastofnun hafi verið að standa sig og ég hef fengið staðfestingu á því í áliti hæstv. ráðherra sem hún setur fram í frumvarpi sínu.

En ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa Byggðastofnun en að lagfæra þurfi hana mikið frá því sem nú er. Það má alveg skoða að breyta henni í takt við breytingar sem hafa átt sér stað í bankakerfinu og öðru. Fræg eru ummæli ýmissa sem hafa hætt að sækja til Byggðastofnunar eftir lánum því þeir hafa einfaldlega fengið betri lán í bönkum. En svo eru aðrir aðilar á landsbyggðinni sem ekki hafa fengið lán í bönkum og er úthýst þar. Fá ekki fyrirgreiðslu. Þeim er jafnmikið úthýst í Byggðastofnun en fá svo aðgerðir og lausn á málum sínum í gegnum sparisjóðina, sem er stjórnað á svolítið á annan hátt en stóru bönkunum þegar kemur til ýmissa þátta á landsbyggðinni.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að það skal enginn halda því fram að ég sé að mæla með lánum eða framlögum til einhverra þeirra hluta sem eru vonlausir. Það er bara til að kasta peningum út um gluggann. Það er ekki meiningin. Það þarf að gera þetta öðruvísi. Það er full þörf á að hafa Byggðastofnun í breyttri mynd, öflugri en hún hefur verið og taka jafnvel upp ýmsa aðra þætti. Ég hef t.d. alltaf saknað þess að Byggðastofnun gæti ekki haft meira fé til að kaupa hlutafé í fyrirtækjum, fyrirtækjum sem verið er að stofna eða fyrirtækjum sem verið er að endurskipuleggja fjárhagslega. Hlutafé væri þá til sölu á sanngjörnu verði og um leið og viðkomandi fyrirtæki færi að ganga gætu aðrir hluthafar eða nýir keypt það og peningunum væri svo rúllað inn.

Sama má eiginlega segja um stofnstyrki. Ég sakna þess oft, virðulegi forseti, og hef sagt það áður að mér finnst það dálítið góð aðferð sem Norðmenn tóku upp þegar þeir höfnuðu Evrópusambandsaðild, þeir tóku upp ýmsa hluti úr byggðastarfsemi Evrópusambandsins og eru með það hjá sér. Þar á meðal t.d. stofnstyrki. Við höfum séð á eftir fyrirtækjum fara til Noregs vegna þess að stofnstyrkjasjóðir eru notaðir þar til að efla atvinnustarfsemi og koma nýrri á. Það höfum við ekki séð hér nægjanlega gert.

Virðulegi forseti. Tími minn í 1. umr. um þetta mál er að renna út en ég hef nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra sem ég vona að hún svari á eftir þegar við erum búin að ræða málið. Í þeim köflum þar sem fjallað er um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, t.d. í fyrsta kafla, tek ég eftir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem slík á ekki að hafa sjálfstæða stjórn. Hvers vegna á ekki að vera stjórn yfir henni? Byggðasjóður á að hafa fimm manna stjórn. Tækniþróunarsjóður á að hafa sjö manna stjórn. Tryggingarsjóður útflutnings á að hafa fimm manna stjórn. Ég held ég sé búinn að fara yfir þetta það vel að ég sjái ekki fleiri apparöt sem á að mynda út úr þessu. En stofnunin sem slík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þetta fallega nafn, á ekki að hafa stjórn yfir sér. Hvers vegna er það? Einhver ástæða er fyrir því og hlýtur að vera rétt að fá hana fram hér á eftir.

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt í lokin að fjalla um það sem kom fram áðan hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þar sem hann m.a. ræddi um Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun og taldi að það mætti, ef ég skildi hann rétt, háeffa þær eins og menn segja stundum og jafnvel taka þær frá ríkissjóði og gera þær að sjálfstæðum stofnunum sem seldu þjónustu sína eins og þær gera í dag sem ríkisstofnanir. Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort það hafi verið rætt vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra hefur verið dugleg að flytja frumvörp um að háeffa ýmislegt en ekki þetta. Hvers vegna er það ekki gert?

Ég tek t.d. eftir að Iðntæknistofnun Íslands er með heildartekjur upp á 530 millj. kr. Sértekjur upp á 330 millj. kr. og ríkissjóður gefur með þeirri stofnun 200 millj. kr. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins er með um 300 milljónir á fjárlögum en sértekjur eru 200 millj. kr. Ríkissjóður er að greiða þar með 100 millj. kr. Þarna er verið að greiða 300 millj. kr. með þessum tveimur stofnunum, ef svo má að orði komast. Sem betur fer, og ég tek undir það sem hér hefur komið fram, eru þær stofnanir með mikla þjónustu sem seld er út á markaðinn til þeirra sem kaupa þjónustu og því eru þessar miklu sértekjur sem þarna eru. En engu að síður kostar þetta 300 milljónir. Var það skoðað í nefndarvinnunni að gera þetta? Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að Byggðastofnun, þ.e. byggðaáætlunin var með rétt um 340 milljónir, ef ég man rétt, og eitthvað var það eitt í viðbót sem var með um 300 milljónir þannig að samtals voru um 650 millj. kr. sem fara í gegnum þessa tvo fjárlagaliði. Ég veit að iðnaðarráðherra mun vafalaust svara því á eftir að byggðamál séu líka í öðrum ráðuneytum, það er sannarlega rétt, að einhverjar upphæðir, engar stórupphæðir, en eitthvað er það samt sem fer í gegnum önnur ráðuneyti til byggðamála. Til dæmis menningarsamningar úr menntamálaráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram tvær, þrjár spurningar til hæstv. ráðherra. Ég er mjög ósáttur við að það skuli vera nauðsynleg að búa þetta til svona, að gera það með því að leggja niður Byggðastofnun og ráðast svona að byggðaaðgerðum ef svo má að orði komast.

Ég minni á, virðulegi forseti, að við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt um það frumvarp á Alþingi að taka þennan málaflokk frá iðnaðarráðuneytinu og færa hann yfir í forsætisráðuneytið. Ég hef sannfærst enn meira um það, ef einhvern tíma hefur verið efi í mínum huga, að það er hin rétta leið. Að betra sé að fara aftur fyrir 1. janúar árið 2000 þegar málaflokkurinn var þar, þó að það hafi ekki verið neitt sérstakt heldur hjá þeim hæstv. forsætisráðherra sem þá var. En held ég samt sem áður að betra sé að hafa byggðamálin þar vegna yfirstjórnar forsætisráðherra á öllum þeim ráðuneytum og ráðherrum þar sem byggðamálin eru því þau koma við ýmis ráðuneyti. Það er kannski hluti sem hæstv. byggðamálaráðherra hefur stundum kvartað yfir, þ.e. að ráðuneytin fylgi ekki eftir þeim málum sem samþykkt eru í byggðaáætlun. Ég tók nokkur dæmi af atriðum sem falin voru öðrum ráðuneytum í síðustu byggðaáætlun, eins og t.d. menntamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, en ekkert var gert með. Það var eins og það hefði ekki verið ætlun þeirra ráðuneyta og ráðherra að fylgja þeim málum eftir. Það kom fram síðast, virðulegi forseti, og var rætt þá og ótal atriði tekin sem dæmi um það í þessari 21 spora áætlun, eða hvað á að kalla það, sem var í gildi síðast.

Virðulegi forseti. Ég held, því miður, að ég geti ekki stutt þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. (Gripið fram í: Nú!) Ég vona að hæstv. ráðherra virði það að ég geti ekki veitt henni stuðning í þessu. En ég hef reynt að færa fyrir því rök eins og ég hef verið að gera og ég vænti þess að við fáum ekki önnur eins fúkyrði yfir okkur eins og voru í restina af umfjöllun um byggðaáætlun hér fyrir skömmu.