132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það veldur mér verulegum vonbrigðum að heyra að hv. þingmaður ætlar ekki að styðja þetta góða mál, framfaramál fyrir land og þjóð. Satt að segja var mjög erfitt að átta sig á hver skoðun hans er á þeim málaflokki sem er til umfjöllunar þar sem ræða hans var full af þröngsýni og í raun ákveðinni íhaldssemi, ef ég má orða það þannig.

Hann talar um að Byggðastofnun sé ekki að standa sig. En samt má ekki sameina hana öðrum stofnunum. Þetta finnst mér mjög einkennilegt. Ég tel að með því að raða hlutum betur upp, hlutum sem varða stuðning við atvinnulífið og atvinnuþróunarmál getum við náð miklu meiri árangri. Þetta hafa nánast allir verið sammála um sem hafa fengið kynningu á þessu máli á síðustu vikum, að þetta geti horft mjög til framfara. Þessu vil ég halda til haga.

Hv. þingmaður lagði fram nokkrar spurningar. Af hverju er ekki stjórn yfir Nýsköpunarmiðstöðinni? Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ríkisstofnanir skuli ekki hafa yfir sér stjórn heldur heyri þær beint undir viðkomandi ráðuneyti. Þar að auki verður stefna í þessum málaflokki mótuð í Vísinda- og nýsköpunarráði, sem verður til með breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð.

Af hverju eru stjórnir yfir sjóðunum? Það er vegna þess að þeir eru sjálfstæðir. Þeir eru það sjálfstæðir að þeir mega ekki taka mið af því sem er hugsanlega niðurstaða í atvinnuþróun eða tækniþróun í Nýsköpunarmiðstöðinni sjálfri.

Hvers vegna ekki meiri einkavæðing? heyrðist mér hv. þingmaður spyrja um líka. Eins og kom fram í máli mínu áðan munum við fara yfir hvaða starfsemi megi hugsanlega úthýsa af þeirri starfsemi sem fer fram í þessum stofnunum. Ég tel að þar séu ákveðin sóknarfæri líka.