132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:15]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði í lokin, sem mér finnst bera merki innan úr ráðuneytinu, kannski aðstoðarmanns hennar sem unnið hefur mest að málinu. Hvaða verkefni sjá þau fyrir sér að úthýsa megi úr Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins? Mér finnst af svörum hæstv. ráðherra að það sé búið að skoða það töluvert mikið. Af hverju fylgir það þá ekki með í greinargerðinni til rökstuðnings fyrir þessu máli?

Er það kannski þannig, vegna þess að þau verkefni sem þarna er um að ræða hafa verið mikið á verkefnalista aðstoðarmanns iðnaðarráðherra, má ég kannski spyrja, af því að ég nefni hann, er eitthvað til í því sem sagt hefur verið og spurt hefur verið um og getum við fengið svar við því í ræðustóli Alþingis: Er forstjórastarf Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands kannski ætlað aðstoðarmanni hæstv. iðnaðarráðherra?

Ég kippi mér svo sem ekkert upp við það virðulegi forseti, þó að ég valdi hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, vonbrigðum. Ég get því miður ekki annað. Það er vegna þess sem ég fór yfir hér, slæms ástands í byggðamálum, slæms reksturs Byggðastofnunar, eins og kemur fram í greinargerð ráðherrans. (Gripið fram í.) Það kemur fram þar. Það getur verið að ráðherra telji sig vera hér með góð mál, en ég segi það alveg hiklaust, og það er ekki nein þröngsýni, það er engin íhaldssemi, að ég er mjög ósáttur við margt í starfsemi Byggðastofnunar. En ég sagði það líka í ræðu minni að ég vildi efla hana enn meira sem sjálfstæða stofnun vegna ástandsins í byggðamálum frekar en að leggja hana niður, kasta rekum á hana 1. janúar 2007 eins og ætlað er, frekar en að steypa henni inn í þetta apparat vegna þess að ég held að það verði ekki betra fyrir minni byggðarlögin í landinu. (Forseti hringir.)