132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:22]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Með þeim frumvörpum sem rædd eru í dag hvort í sínu lagi, má segja að við stöndum að sumu leyti yfir brunarústum byggðastefnu stjórnarflokkanna sem hefur beðið skipsbrot á síðustu árum. Hér er verið að leggja Byggðastofnun niður í þeirri mynd sem við þekkjum hana án þess að farið hafi fram nein pólitísk stefnumarkandi (Gripið fram í.) umræða um hlutverk, árangur og framtíðarsýn stjórnvalda í byggðamálum. Það er alveg klárlega ýmislegt ágætt í þeim málum sem hér eru til umræðu og mun ég fara yfir það, en þar er ekki tekið á því sem mestu máli skiptir og mun ég greina það á eftir.

Fyrst vildi ég lýsa sérstaklega eftir hægri uppreisnarmönnunum, sjálfstæðismönnunum sem fóru hér mikinn fyrir helgina en virðast nú hafa koðnað algerlega niður, enda voru þeir fjórir sem fyrir uppreisninni fóru hver með sína skoðunina. Einn vildi flytja þetta allt í Eyjafjörðinn, annar vildi selja þetta og einkavæða og sá þriðji eitthvað enn annað. Þannig að sú sýndarmennska Sjálfstæðisflokksins í byggðamálum fór fyrir lítið og undirstrikaði kannski betur en nokkuð annað stefnuleysið sem flokkurinn hefur í byggðamálum og þann tvískinnung sem uppi er í Sjálfstæðisflokknum í byggðamálum.

Segja má Framsóknarflokknum til hróss að hann hefur þó nokkuð trúverðuga málafylgju í byggðamálum og hefur á liðnum árum að mörgu leyti barist fyrir því að efla byggðir landsins þó að árangurinn sé jafnlítill og raun ber vitni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þvælst fyrir þessari þróun, þessum ágætu stefnumiðum Framsóknarflokksins og þó að þau hafi fæst gengið eftir og séu kannski mörg orðin ansi úrelt og gamaldags, og minni meira á byggðastefnu fortíðarinnar, var þó a.m.k. heill hugur á bak við þau.

Þess vegna hlakkaði ég sérstaklega til þess í dag að hlusta á uppreisnarmennina úr Sjálfstæðisflokknum, (Gripið fram í: Hvar eru þeir?) iðnaðarnefndarmennina og fleiri sjálfstæðismenn í þinginu, fara hér mikinn fyrir þeirri nýju byggðastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar og hlýtur að vera að berja trumburnar og kalla eftir með þeirri uppreisn sem hér var boðuð fyrir helgina en hefur nú koðnað niður í eitt lítið andsvar við ráðherra byggðamála þegar hún hélt ræðu sína áðan. Svo dapurleg er framganga Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og svo dapurleg er sýndarmennska sjálfstæðismanna í málinu að það er bókstaflega átakanlegt að ganga inn í þessa umræðu í dag, hafandi orðið vitni að því hvernig uppreisnin frá hægri koðnaði niður og varð að engu eða kannski verra en að engu. Þeir höfðu nákvæmlega ekkert fram að færa annað en það að einn vildi fara með stofnunina norður í Eyjafjörð, annar á Krókinn og sá þriðji vildi selja, einkavæða allt heila klabbið.

En þessi sýndarmennska Sjálfstæðisflokksins í byggðamálum verður að sjálfsögðu eins og rauður þráður í gegnum þær umræður sem hér munu fara fram um þessi frumvörp til laga, annars vegar um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun og hins vegar um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þar í raun og veru er um að ræða eitt af stóru málunum í íslenskri pólitík, hvernig til hefur tekist í byggðamálum. Því skyldi maður ætla að fram færi umræða á Alþingi, líka af hálfu sjálfstæðismannanna sem leiddu uppreisnina í nokkra klukkutíma á föstudaginn um það hvernig koma eigi byggðamálunum fyrir í framtíðinni. En það kom ekkert út úr því, nákvæmlega ekki neitt. Það er það sem við eigum að ræða í dag um leið og við ræðum frumvarp til laga frá iðnaðarráðherra sem kveður á um að Byggðastofnun verði lögð niður án þess að fram hafi farið stefnumarkandi umræða um hvað taki við, hver árangurinn sé af starfi Byggðastofnunar síðustu árin og hvernig viljum við haga því í framtíðinni.

Byggðastofnun var að sjálfsögðu ekki komið á fót til að verða að pólitískri vinnumiðlun fyrir stjórnarflokkana. (Gripið fram í.) Það er alveg á hreinu þó að sumum hafi kannski að einhverju leyti virst hún breytast í það þá er það ekki byggðapólitíkin sem við eigum að ná sátt um, heldur um alvörubyggðastofnun eða byggðapólitískt fyrirkomulag byggðamála sem skiptir máli og er leiðandi afl í því að rétta hlut þeirra byggða sem á þurfa að halda og byggir undir vaxtarsvæðin í jaðri höfuðborgarinnar á Vesturlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum og á þessum 50–70 km radíus í kringum höfuðborgina. Síðan á að sjálfsögðu að marka stefnu til framtíðar í því.

Það er ýmislegt sem við verðum að koma inn á í þeirri umræðu sem skiptir verulegu máli og það er ekki síst stuðningur við nýsköpun og sprotafyrirtæki sem er allt of lítill og enginn. Það er þar sem ég hef mestar efasemdirnar um þau frumvörp sem við ræðum í dag, þ.e. að steypa saman annars vegar sértækum byggðaaðgerðum og hins vegar almennum stuðningi við nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Ég held að það eigi ekki saman, það kallar á tortryggni um starfsemina. Þó að þetta frumvarp sé ágætt um margt og markmiðslýsingin ágæt hef ég mjög djúpstæðar efasemdir um að við eigum að leggja niður Byggðastofnun, steypa henni saman við Nýsköpunarsjóðinn og stuðninginn við atvinnulífið, sprotafyrirtæki nýsköpunar, án þess að fram hafi farið umræða um það. Ég held að þetta eigi ekki heima og saman í einni stofnun, að byggðastuðningur, skýr og gagnsær í þeim farvegi, eigi ekki heima með stuðningi og fjármagni inni í sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Stuðningskerfi atvinnulífsins á að standa þar fyrir utan þótt því sé haldið úti að einhverju leyti af hinu opinbera og á ekki að skarast við byggðastuðninginn og byggðaþróunarrannsóknir sem eiga að vera hlutverk Byggðastofnunar.

Þá vildi ég aðeins koma inn á hvernig við ættum að styðja við nýsköpunar- og sprotafyrirtækin sem er hlutverk Nýsköpunarsjóðsins að byggja undir. Ég held að við ættum að fara norsku leiðina þar. Í stað þess að einblína á lán og styrki eigum við að endurgreiða sprota- og nýsköpunarfyrirtækjunum tiltekinn hluta af þróunarkostnaði, 20% eins og gert er í Noregi. Af þessum 20% eru 70% launakostnaður. (Gripið fram í: … Evrópusambandinu.) Þetta er að sjálfsögðu eitt af leiðarljósunum frá Evrópusambandinu sem er svo gagnlegt að taka inn í umræðuna um byggðamál. Þetta er sú þróun og þær leiðir sem farnar hafa verið erlendis og koma í staðinn fyrir misvelheppnaðan fjáraustur af einhverri tegund. Það er miklu heilbrigðara og eðlilegra að endurgreiða þróunar- og rannsóknarkostnað hjá sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem oft eru að þróa framleiðsluvöru sína í ár og áratugi og þurfa á þolinmóðu fjármagni að halda. Það er algjört grundvallaratriði til að byggja undir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki að mínu mati.

Þegar kemur að beinum framlögum tel ég að það eigi frekar að fara þá leið að styrkja fyrirtæki sem verið er að stofna, hvort sem í hlut eiga fyrirtæki sem hægt er að styrkja út frá byggðasjónarmiði eða nýsköpunar- og sprotafyrirtæki á suðvesturhorninu og vaxtarsvæðum þar í kring. Það á að láta þeim í té styrki í stað lána eða lánsábyrgða. Það er miklu gegnsærra og skýrara að styrkja nýsköpunarfyrirtækin beint, að styrkja fyrirtækin úti á landi beint, þau fyrirtæki sem Byggðastofnun eða viðkomandi atvinnuþróunarsjóður telur að séu vænleg og styrkja þurfi. Beinir styrkir eru miklu skilvirkari og vænlegri leið auk þess að endurgreiða fyrirtækjunum eins og ég gat um áðan. Það er leið sem víða er farin í Evrópu og hefur gefist sérstaklega vel í Noregi — að endurgreiða nýsköpunar- og sprotafyrirtækjunum allt að 20% af þróunarkostnaði af tiltekinni og skilgreindri upphæð, sem þar eru 10 millj. kr. á ári. Slík framlög og slíkar ívilnanir skipta þessi fyrirtæki mjög miklu máli og er mikilvægt að það komi til.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra í fyrirspurnartíma í þinginu fyrir helgi hvort sú leið, hin norska leið endurgreiðslu þróunar- og rannsóknarkostnaðar, kæmi að hans mati til greina. Hann tók nú nokkuð undir það þótt loðinn væri í svörum og vísaði til þess að hann mundi innan skamms kynna einhverjar slíkar tillögur. Þannig skildi ég hæstv. fjármálaráðherra, sem þó var óvenjuloðinn í svörum og myrkur í máli um margt, — og er það nú hægt, spyrja menn hér, en honum tókst það þarna — að til stæði að fara leið endurgreiðslna á rannsóknar- og þróunarkostnaði í stað þess að lána eða veita fyrirtækjunum lánsábyrgð. Það er miklu betri leið að mínu mati og það er sú leið sem við eigum að marka.

Þetta eru tvö ólík hlutverk, annars vegar byggðastuðningur, byggðarannsóknir, rannsóknir á byggðaþróun, rannsóknir á árangri einstakra verkefna og átaka sem ráðist er í, hvort sem það eru stórbrotnar virkjunar- eða stóriðjuframkvæmdir eða annars konar byggðaframkvæmdir. Það efast t.d. enginn um byggðaleg áhrif af stofnun Háskólans á Akureyri. Byggðaleg og samfélagsleg áhrif af Háskólanum á Akureyri verða aldrei flokkuð undir annað en að vera stórbrotin. Háskólinn hefur gjörbreytt mannlífinu þar nyrðra, breytt því mjög og skapað alveg nýtt samfélag. Nú er Háskólinn á Akureyri tekinn sem dæmi um fyrirmyndarframkvæmd, kannski eina raunverulega byggðaframkvæmdin, ef hægt er að flokka hana sem slíka, sem hefur heppnast á liðnum árum. Það ætti að vísa veginn til annarra slíkra.

Í þessu sambandi er rætt um mikilvægi þess að efla þekkingarsetur og háskólamenntun úti á landi. Það er mjög mikilvægt. Þegar ég segi úti á landi er ég ekki bara að tala um, eins og kveðið er á um hér, Akureyri, Egilsstaði, Ísafjörð, Vestfirði og Austurland heldur líka Vesturland, Suðurland og Suðurnes. Á þessum stöðum hefur háskólakennsla þróast í gegnum fjarnám að miklu leyti í gegnum fræðslunetin eða símenntunarstöðvarnar eins og þær eru kallaðar. Þær voru settar á stofn hér, m.a. fyrir tilstuðlan fjárlaganefndar, fyrir nokkuð mörgum árum og eru annað dæmi um aðgerð sem hefur komið byggðunum feikilega vel. Þar hefur háskólanám þróast í gegnum fjarnám og um þessar mundir stunda um 150 manns háskólanám í fjarnámi í gegnum fræðslunetið á Suðurlandi. Þetta hefur vaxið ár frá ári og eftirspurnin er mikil. Í þetta háskólanám fer fólk sem ekki á þess kost, þó það búi ekki nema 50 til 150 kílómetra frá Reykjavík, að taka sig upp og stunda háskólanám nema í gegnum fjarnám á heimaslóðum.

Það átakanlega við þetta er að ríkisvaldið, hæstv. menntamálaráðherra, hefur ítrekað og margoft neitað, bæði hér í ræðustól á Alþingi og annars staðar, að koma að því að greiða fyrir þetta nám þó að ríkisins sé að greiða fyrir nám á háskólastigi. Menntamálaráðherra hefur vísað því frá sér og hefur sagt að það sé háskólanna að greiða en háskólarnir geta ekki greitt sérstaklega fyrir þetta enda fjársveltar stofnanir miðað við þá aðsókn sem að þeim er. Við erum að tala um 10–15 millj. kr. á ári til þeirra fjögurra fræðsluneta eða símenntunarstöðva sem um er að ræða. Við erum að tala um lágar og hóflegar fjárhæðir í byggðalegu tilliti sem skila miklum ábata. Við erum að tala um mjög mikilvægar fjárfestingar í mannlífinu á stöðunum, mjög lágar upphæðir en þó nógu háar til að kippa fótunum undan starfsemi þessara stöðva. Ef ríkisvaldið kemur ekki að því að greiða þessum símenntunarstöðvum á Suðurlandi, Suðurnesjum, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra fyrir háskólanámið mun það einfaldlega leggjast af. Það er nokkuð átakanlegt og vonandi þarf ekki að fara svo. Vonandi þrauka þær fram að næstu kosningum.

Í málafylgju sinni um byggðamál nefndi hæstv. iðnaðarráðherra sérstaklega til sögunnar mikilvægi þekkingarsetranna enda hrópaði hún upp yfir sig áðan þegar ég nefndi þau. Það er gott. En það þarf líka að styrkja þekkingarsetrin eða koma þeim á fót á þeim svæðum sem ég nefndi hér áðan og teljast til jaðar- og vaxtarsvæða við höfuðborgina en kannski ekki til þeirra svæða sem eru í nauðvörn og eru mörg hver í enn meiri nauðvörn eftir tiltölulega árangurslitla byggðastefnu síðustu ára.

Það sem er verst er að hið opinbera skuli ekki koma að þeirri byggðaþróun sem t.d. vaxtarsvæðin kalla eftir. Segja má að þar sé um þrennt að ræða. Í fyrsta lagi þarf að stórbæta grundvallarsamgöngur á svæðunum, t.d. með því að tvöfalda Suðurlandsveg — það er verið að tvöfalda Reykjanesbrautina, sem betur fer hafðist það í gegn. Í öðru lagi þarf að efla háskólanám á svæðunum. Í þriðja lagi þarf að efla sveitarfélögin og færa til þeirra fleiri verkefni. Þetta eru þær aðgerðir sem sveitarstjórnarmenn og heimamenn á þessum svæðum kalla sérstaklega eftir. Þeir kalla ekki eftir lánveitingum, styrkjum eða stórbrotnum byggðaframkvæmdum í líki stóriðju og stórvirkjana heldur eftir því að þessum svæðum verði hjálpað til frekari bjargálna. Þar vega þyngst nútímalegar og öruggar samgöngur, og er ég þá fyrst og fremst að tala um aukið umferðaröryggi, háskólanám í héraði og öflug sveitarfélög sem sinna fleiri verkefnum en þau gera núna.

Þetta eru þær byggðaáherslur sem t.d. mátti lesa úr orðum sveitarstjórnarmanna víðs vegar að af landinu þegar þeir komu fyrir iðnaðarnefnd til að ræða byggðaáætlunina. Þar sat ég einn morgun í fjarveru hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og var svo heppinn að hlýða einmitt á forustumenn frá sveitarfélögunum og samtökum sveitarfélaga víðs vegar að af landinu, hvort sem það var frá Suðurlandi, Vestfjörðum, Austfjörðum eða annars staðar. Allir sögðu þeir það sama. Mikilvægasti og dýrmætasti byggðastuðningurinn er í stórbættum samgöngum, aukinni menntun heima í héraði og stærri og sterkari sveitarfélögum. Samtakamáttur sterkra sveitarfélaga skiptir mjög miklu máli þegar verið er að reisa máttvana byggðir við eins og sannaðist kannski best austur á fjörðum þegar Austfirðirnir stóðu saman sem eitt sveitarfélag, sem einn baráttuhópur, fyrir stóriðju og virkjunarframkvæmdum eystra sem nú standa yfir.

Samtakamáttur sveitarfélaganna þar skipti öllu máli. Sterkari, stærri og færri sveitarfélög munu hafa meiri og betri áhrif í allri byggðaþróun hér en svo margt annað, meiri áhrif en mjög margvíslegur beinn byggðastuðningur upp á gamla móðinn. Það þarf að bæta samgöngurnar, efla menntunina og greiða menntunarmiðstöðvunum á jaðarsvæðunum fyrir háskólanámið en ekki að þvinga þær til að leggja starfsemi sína niður. Starfsemi þeirra leggst niður hafi forustumenn þekkingarmiðstöðvanna, fræðslunetanna eða símenntunarmiðstöðvanna ekki umfang, tíma eða tækifæri til að safna peningum eftir öðrum leiðum frá sveitarfélögunum eða frá fyrirtækjum í héraði. Að sjálfsögðu er mjög jákvætt að þau komi að rekstri menntastofnana en menn eiga ekki að þurfa að vafra um með söfnunarbaukinn til að bjarga lífi sinnar menntastofnunar frá mánuði til mánaðar og frá ári til árs. Það er óþolandi staða.

Það ber þeirri byggðastefnu kannski hryggilegast vitni hvernig komið er fyrir háskólamenntun og menntun á þessum svæðum en einnig sá þvergirðingsháttur sem uppi er hjá samgönguyfirvöldum í grundvallarframkvæmdum eins og þeirri að tvöfalda Suðurlandsveg sem ráðherra hefur ekki léð máls á. Hæstv. ráðherra fer undan í flæmingi og beitir fyrir sig villandi tölfræði. Allt skiptir þetta mjög miklu máli og þarf að koma inn í þessa umræðu.

En aftur undir lok ræðu minnar vil ég kalla eftir uppreisnarmönnunum frá hægri, sjálfstæðismönnunum sem fóru nánast hamförum í fjölmiðlum fyrir helgina, leiddu hér mikla uppreisn gegn byggðastefnu ríkisstjórnarinnar og byggðafrumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra. Í þeim hefur ekkert heyrst síðan. Ég hélt að þeir mundu fjölmenna á mælendaskrána, gera meira en skjóta upp kollinum í einu og einu andsvari svona rétt til að sýna andlitið í húsinu og verða leiðandi afl í byggðaumræðu framtíðarinnar. Fyrir því fer nú mjög lítið þó þeir sjáist hér á hlaupum um húsið einn og einn. Ég hélt að þessir höfðingjar mundu fara fyrir nútímalegri framtíðarsýn í byggðamálum okkar Íslendinga. Vonbrigðin voru mjög sár þegar ég uppgötvaði að frá þessum ágætu þingmönnum var ekkert annað að hafa en ærandi grafarþögn.

En það verður vonandi bót á þar sem byggðaumræðan mun sjálfsagt standa eitthvað fram á nóttina, a.m.k. vel fram á kvöldið. Ég bíð spenntur eftir að heyra í þessum umbótasinnum og uppreisnarmönnum í Sjálfstæðisflokknum gegn byggðastefnu stjórnvalda og sérstaklega gegn samstarfsflokknum, Framsóknarflokknum, sem hlýtur að kenna til í bakinu eftir þessa uppreisn. En hver veit nema hún sé að fjara út og sátt hafi náðst. Það kemur kannski í ljós.