132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:47]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Óttinn hlýtur að vera harður húsbóndi í pólitík en ótti framsóknarmanna við Samfylkinguna er slíkur að þeir vaða upp í öllum málflutningi okkar til að reyna með einhverjum óljósum hætti að gera hann tortryggilegan. En líklega er Samfylkingin eini flokkurinn sem hefur unnið að því á síðustu missirum að marka sér og þar með samfélaginu nútímalega byggðastefnu sem eitthvað er varið í, byggðastefnu sem skiptir einhverju máli fyrir samfélagið með margvíslegum hætti eins og fram hefur komið í dag og mun koma fram hér fram eftir kvöldi og nóttu.

Hvað varðar háskólamenntun úti á landi þá er það sérstaklega átakanlegt þegar framsóknarmennirnir og stjórnarliðarnir eru að hreykja sér af stöðu menntastofnana úti á landi, sem er með þeim hætti að Háskólinn á Akureyri þurfti að vísa nokkur hundruð nemendum frá í fyrra vegna þess að honum var nánast bannað að nýta sér undanþáguheimild sem hann hafði til að taka aðra inn í skólann en þá sem væru með formlegt stúdentspróf. Háskólinn á Akureyri nýtti sér þessa heimild í ríkum mæli og upp undir 40% af nemendum skólans var fullorðið fólk sem hafði ekki formlegt stúdentspróf en skólinn mat inn og var það mjög jákvætt af skólans hálfu. En til að spara peninga út af niðurskurði stjórnvalda í menntamálum, sem hlýtur þar með að vera í byggðamálum því þarna er um að ræða eina best heppnuðu byggðaaðgerð sem fram hefur farið hér á landi lengi, þá þurfti skólinn að vísa held ég um 300 nemendum frá og leggja niður tvær deildir, allt til að spara peninga, allt út af pólitískri stefnumörkun stjórnarflokkanna í byggðamálum sem var sú að þvinga þessa prúðustu rós íslenskra byggðamála til að draga saman seglin og vísa nemendum frá svo hundruðum skipti. Það var nú glæsilegasti minnisvarðinn úr byggðamálaumræðunni í fyrra.