132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:49]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að fara hér nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Hann hóf hana með mikilli raust líkt og hann væri að tala á útifundi hér á Austurvelli og fór mikinn um hvaða skoðanir við sjálfstæðismenn hefðum á þessu frumvarpi og gerði mér upp skoðanir hvað það varðar. Ég hef ekki farið í fjölmiðla og tjáð mig neitt um málið en ég mun hins vegar hlusta á þessa umræðu eins og ég hef gert og ég mun fylgjast með því hvort hv. þingmaður situr ekki hér fram á nótt með okkur og fylgist með eins og hann talaði um áðan.

Þetta er stjórnarfrumvarp sem er lagt fram af ríkisstjórn og ég vil taka þátt í þinglegri meðferð á þessu frumvarpi, hlusta á þá umræðu sem hér fer fram og fylgjast með henni. Auðvitað er margt sem við eigum að skoða í þessu máli og margt sem hugsanlega má betur fara og þá förum við að sjálfsögðu í þá vinnu.

Ég vil minna hv. þingmann á að við erum með umsagnir frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga um byggðamálin. Ég hef kynnt mér þær. Við erum með umsagnir í iðnaðarnefnd frá sveitarfélaginu Árborg þar sem Samfylkingin er í meiri hluta og ég hef kynnt mér þá umsögn og ég hef áhyggjur af því hvernig þeir svara og hvað við þurfum að gera í kjördæmi okkar gagnvart byggðamálum, þannig að ég horfi ekki af þeim glannaskap á þessi mál eins og hv. þingmaður. Ég hef líka lesið umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps um byggðaáætlunina þannig að þetta er háalvarlegt mál, við skulum bara fara klárt og skýrt yfir það.

Hvað varðar byggðaáætlunina, en hv. þingmaður hafði tækifæri til að fylgjast með umræðu um hana um daginn, þá eru samgöngur og menntamál punktar númer eitt og tvö í núverandi drögum að byggðaáætlun fyrir 2006 og 2009. Það er nú bara akkúrat það sem er aðalpunkturinn í þeirri byggðaáætlun.