132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[18:22]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég skildi vel hvað hæstv. ráðherra væri að hugsa með þessu frumvarpi, þ.e. að sameina þessar tvær stofnanir, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Ég skildi vel hvað hún væri að fara með því og allt er það góðra gjalda vert. Ég sagði jafnframt til að undirstrika það hve við búum við gamaldags skipulag í ráðuneytunum að þau hefðu ekki fylgt takti atvinnuþróunar í landinu og því teldi ég að allar stofnanir sem hafa með atvinnumál að gera, undir öllum þeim ráðuneytum sem þær nú eru, ættu að sameinast í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég sagði líka að staðan í byggðamálum væri þannig í dag að ekki væri tímabært að gera þá breytingu sem hæstv. ráðherra leggur til, þ.e. að láta Byggðastofnun týnast inni í stærri nýsköpunarmiðstöð. Þegar málaflokkurinn stendur jafnhöllum fæti og raunin er er það ekki tímabært. Ef hér væri allt í himnalagi í byggðum landsins væri grundvöllur til að ræða það.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að draga Byggðastofnun út úr þessu annars góða frumvarpi sem ég tel að geti verið fyrsta skrefið í þá átt að sameina og taka verulega á í málefnum sprotafyrirtækja og nýsköpunar í landinu, á það hefur skort. Uppbygging þar hefur liðið fyrir þá stjórnskipan sem við búum við. Ég hefði því talið að hæstv. ráðherra hefði átt að draga Byggðastofnun út úr frumvarpinu vegna þess að byggðamálin eiga að svo komnu máli ekki heima þarna.