132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:05]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp, í fyrsta lagi frumvarp um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun og í öðru lagi frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. (Iðnrh.: Það er ekki byrjað.) Það er ekki byrjað, nei, en þau hanga samt saman.

Þetta frumvarp fjallar um nýja stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem á að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu. Ég legg til, frú forseti, að þarna standi „að auka hamingju í landinu“ því að ég sé engan mun á því að auka lífsgæði og hamingju. Þetta eru einhver fögur orð sem hér eru tekin upp.

Markmiðið er í rauninni það að sameina Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins undir einn hatt vegna þess að þessar stofnanir allar eru í vandræðum og alveg sérstaklega Byggðastofnun. Hún er í miklum vandræðum. Ég hef aldrei verið vinur Byggðastofnunar, frú forseti, og hef tjáð mönnum það alveg hreinskilnislega. Ég tel að Byggðastofnun hafi alltaf verið mistök, hún hafi skaðað landsbyggðina mjög mikið með því að styrkja léleg fyrirtæki sem góð fyrirtæki þurfa þá að keppa við og verða undir. Það er verðbréfamarkaðurinn sem hefur stuðlað að miklum framförum á landsbyggðinni með því að dæla peningum í arðvænleg hlutabréf og hlutafélög, sérstaklega á Austfjörðum og Norðurlandi, Akureyri. Því miður fengu Vestfirðirnir of mikla styrki til að nota sér verðbréfamarkaðinn sem skyldi og þar af leiðandi eru vandræðin þar mikil.

Byggðastofnun stundaði lánveitingar og ráðgjöf og ég get svo sem fallist á að ráðgjöfin eigi rétt á sér en lánveitingarnar áttu aldrei rétt á sér, enda kom það í ljós. Þegar svo lánamarkaðnum óx fiskur um hrygg og hann fór að lána til fyrirtækja úti á landi dagaði Byggðastofnun náttúrlega uppi eins og hvert annað nátttröll og eftir sátu bara lélegustu skuldararnir. Hún var með dýrari lán en flestir aðrir þannig að hún varð ekki til góðs, hvorki fyrir lántakendur né byggðirnar. Í staðinn fyrir að jarða Byggðastofnun snyrtilega eins og hvert annað steintröll er henni skeytt saman við tvær aðrar stofnanir sem eru tiltölulega lífvænlegar, sérstaklega ef þeim yrði fundinn staður í einkaframkvæmd eða bara einkaeign, eins og Iðntæknistofnun á að vera. Hún stundar starfsemi á því sviði sem er bara bisness og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins vinnur mjög gott starf sem gæti alveg eins verið í höndum hlutafélagsins eins og hvers annars og veitt góðar rannsóknir til byggingariðnaðarins, enda er hún að selja rannsóknir út og ég held að það gangi bara vel og mundi ganga enn betur ef hún væri í einkaeign svo að maður tali ekki um Iðntæknistofnun sem ég held að líði mjög mikið fyrir að vera stofnun en ekki í einkaeign.

Ég er á móti nánast öllu sem hér kemur fram, því að ríkið skuli standa í nýsköpun — ég hef enga trú á því að opinberir starfsmenn sem vinna frá 9 til 5 og eðli máls samkvæmt eru frekar í varnarstöðu í lífinu en í sóknarstöðu, þess vegna eru þeir jú opinberir starfsmenn, geti stundað nýsköpun. Nýsköpun sem byggir á þeirri áhættu og framkvæmdagleði og frumkvæði sem þar er þörf og þess að vera vakandi líka kl. 11 og 12 á nóttunni. Ég hef enga trú á þessu. Ég hef sjálfur stundað nýsköpun með sæmilegum árangri og sem betur fer fékk ég enga opinbera styrki til þess.

Hér er talað um frumkvöðla og að Nýsköpunarmiðstöð eigum við að reka með þjónustu fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Ég held að menn ættu heldur að snúa sér að því að hætta að skattleggja nýsköpun en að búa til stofnun til að styðja hana. Nýsköpun í dag er skattlögð með allt of háum gjöldum fyrir skráningu hlutafélaga og alls konar kvöðum. Menn ættu að skoða það að aflétta þeim þannig að einstaklingar geti stofnað fyrirtæki án þess að ríkið sé að stoppa þá í því og hemja þá.

Það er talað um íslenskar tæknirannsóknir o.s.frv. og svo er talað um Byggðasjóð. Einasta hlutverk hans virðist vera að veita ábyrgðir á lán og ég vil taka það fram, frú forseti, að það er enginn munur á opinberri ábyrgð á láni og lánveitingum frá ríkinu. Það er akkúrat enginn munur á því. Ef ég er með ábyrgð ríkisins á 100 millj. fer ég í næsta banka og fæ lán eins og ríkið upp á 100 millj. Það er bara svo einfalt. Það er enginn munur hvort ríkið taki lánið fyrst og láni mér eða hvort ég fái ríkisábyrgð og taki lán. Það er enginn munur á ábyrgð ríkisins og láni frá ríkinu. Þetta vil ég að komi alveg skýrt fram. (Gripið fram í: … skiptir … ábyrgðina.) Hið eina sem gerist er að það á að undanþiggja sjóðinn gjaldtöku um ríkisábyrgðir. Það á sem sagt að gera það enn þá meira spennandi fyrir fólk að ganga á ábyrgðir ríkisins og rústa þeim. Þetta mun enda með ósköpum ef menn gæta sín ekki á því að fara varlega og sparlega með ríkisábyrgðir, bara nákvæmlega eins og með ríkisfé. Þetta mun að sjálfsögðu mismuna fyrirtækjum úti á landsbyggðinni. Þeir sem fá ríkisábyrgð blakta og standa sig þó að reksturinn sé allur í kjallaranum á meðan önnur fyrirtæki sem eru vel rekin og fá ekki ríkisábyrgð verða undir. Byggðastofnun mun því eftir sem áður skaða landsbyggðina eins og hingað til, eins og hún hefur gert alla tíð. Þetta vilja menn ekki sjá og geta ekki séð. Ég ætla ekki að ræða meira um Tækniþróunarsjóð. Það er sama, hann á að standa í einhverri nýsköpun o.s.frv. og ég er búinn að tala um það.

Tryggingasjóður útflutnings er líka fyrirbæri sem ég sé einmitt hjá einkageiranum. Þetta eru svokölluð kröfukaup og þegar ég stóð í atvinnurekstri ætlaði mitt fyrirtæki að fara út í kröfukaup en reyndist vera 10 árum of snemma í því. Kröfur komu miklu seinna. Kröfukaup felast í því hreinlega að einkaaðili kaupi kröfu á t.d. erlent fyrirtæki og selji hana svo aftur til viðkomandi lands. Þetta er í gangi um allan heim á vegum einkaaðila. Hvað er ríkið að kássast í þessu og drepa niður einkaframtak?

Ég held að ég hafi ekki miklu meira að segja um frumvarpið sem slíkt en það er kannski undarlegt í öllu því frjálsræði sem við stundum í dag og því að auka frjálsræði og í allri þeirri útrás og öllu þessu fína sem við höfum upplifað að menn skuli koma með svona sovétfyrirkomulag á nýsköpun og rannsókn, einmitt núna. Í stað þess að láta Byggðastofnun deyja drottni sínum eins og hún á að gera skuli hún vera spyrt saman við sæmilega heilbrigðar stofnanir þannig að úr verði einn allsherjarbræðrabani.

Það er rétt, frú forseti, að rannsóknir á Íslandi hafa stóraukist en ekki á vegum hins opinbera. Það eru einkafyrirtæki eins og deCode, Íslensk erfðagreining, það eru Actavis og Marel og fleiri, mörg fyrirtæki sem stunda rannsóknir, bara í bisness. Það hefur stóraukist sem betur fer og hefur leitt til mikillar hagsældar fyrir land og þjóð. Við þurfum að stuðla að þessu. Við þurfum að styrkja þetta með því að búa til gott og varanlegt og vinsamlegt kerfi fyrir fyrirtæki og það höfum við verið að gera undanfarið og megum gera enn betur, lækka skatta enn meira og gera allt kerfi miklu einfaldara.

Þá verð ég að lokum, frú forseti, að geta um tilurð frumvarpsins. Það var náttúrlega alveg með ólíkindum. Maður les í blöðunum um einhvern blaðamannafund þar sem var tilkynnt um frumvarp sem ekki var búið að samþykkja í stjórnarflokkunum. Hvert er eiginlega hlutverk þingflokka sem standa að ríkisstjórn ef ekki á einu sinni að þurfa að láta þá samþykkja það? Ef við hefðum viljað gera einhverjar breytingar á þessu, segjum svo, er það ekki hægt, það er búið að kynna frumvarpið. Svo er sagt að frumvarpið hafi verið kynnt. Jú, jú, það var kynnt og ég held að bara allir á þeim kynningarfundi hafi mótmælt. Svo heitir það að frumvarpið hafi verið kynnt Sjálfstæðisflokknum. Já, já. Og þar með liggur í loftinu að hann hafi samþykkt það með fögnuði. En það var ekki þannig. Menn eru ekkert fagnandi yfir þessu. Ég er ekki sá eini, við erum a.m.k. tveir af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem erum ekki fagnandi yfir þessu frumvarpi og teljum að önnur leið hefði verið betri, leggja Byggðastofnun snyrtilega niður eða láta hana sinna bara ráðgjöf og fara þá leið að styrkja Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins með þeim hætti að það verði meira einkafrumkvæði þar og venjuleg viðskiptasjónarmið. En því miður var sú leið ekki farin og nú er spurningin — ég sit ekki í hv. iðnaðarnefnd sem hefur málið til umfjöllunar, því miður — hvernig iðnaðarnefnd tekur á þessu og hvort takist að laga eitthvað þennan óskapnað sem við stöndum hérna frammi fyrir, óskapnað sem felst í því að taka upp sjónarmið sem þóttu voðalega fín í Sovétríkjunum 1930–1950 og skipuleggja alla hluti ofan frá af grænu skrifborðunum þar sem allt vitið liggur og stýra öllu atvinnulífinu á þann hátt í staðinn fyrir að láta atvinnulífið blómstra og vaxa á eigin forsendum, láta fólkið sem vinnur á gólfinu taka ákvarðanir og láta nýsköpun eiga sér stað þar sem nýsköpun á að eiga sér stað, hjá einstaklingum sem vaka alla nóttina, standa vaktina og reyna að sjá út hvernig hagur þeirra getur vænkast og batnað með því að stunda rannsóknir og fara út í bisness.